Vítisengill genginn – „Til andskotans með Harley-Davidson“
Vélhjólaklúbburinn og glæpasamtökin Hells Angels eiga sér langa sögu en einn þekktasti meðlimur samtakanna Sonny Barger lést fyrir stuttu. Líf hans var litað af glæpum en hann sagði alla tíð að það væri ofsögum sagt að klúbburinn stundaði skipulagða glæpastarfsemi. Sitt sýnist hverjum um þær fullyrðingar en ljóst er að það er ákveðinn lífsmáti fólginn í því að vera meðlimur í klúbbnum – og dauðans alvara.
Ég hef hef lifað löngu og góðu lífi sem var ævintýralegt. Og það hafa verið forréttindi að vera partur af undraverðum klúbbi.“
Þetta var ritað á Facebook-síðu Ralph Hubert „Sonny“ Barger, andlits vélhjólaklúbbsins og glæpasamtakanna Hells Angels, eftir andlát hans í lok júní en hann lést 83 ára að aldri eftir stutta baráttu við krabbamein.
Samtökin Hells Angels þarf vart að kynna enda fyrir löngu orðin alræmd fyrir glæpastarfsemi. Þrátt fyrir frægð og langa sögu er margt varðandi samtökin enn hjúpað leynd. Saga gengisins og meðlimatal eru leyndardómsfull umfjöllunarefni og það sem á sér stað innan húsakynna klúbbsins er ekki látið fréttast þar fyrir utan, enda vilja þessir vélhjólamenn hafa það þannig.
The Hells Angels Motorcycle Cub varð til í Fontana í Kaliforníu árið 1948 þegar umframframleiðsla hersins gerði það að verkum að vélhjól urðu ódýrari og mörgum fyrrverandi hermönnum þótti kyrrð eftirstríðsáranna hvimleið og þeir þráðu ævintýri. Haft er fyrir satt að fyrrverandi hermaður að nafni Otto Friedli hafi stofnað klúbbinn eftir klofning frá einum af fyrstu vélhjólaklúbbum eftirstríðsáranna, The Pissed Off Bastards, í kjölfar hatrammrar deilu við óvinaklúbb.
Eitt prósent vandræðagemlinga svertir mannorð 99 prósenta virðingarverðra vélhjólamanna
Sveitir sprengjuflugmanna í heimsstyrjöldunum tveimur voru gjarnan kallaðar Vítisenglar – „Hell's Angels“ – og það var einnig heitið á kvikmynd Howard Hughes frá árinu 1930 um hinar konunglegu flugsveitir. Úrfellingarkomman hvarf úr heitinu með tíð og tíma.
Árum saman var HAMC, eins og meðlimirnir kalla klúbbinn, eingöngu í Kaliforníu. Fyrsta deildin utan við Kaliforníuríki var stofnuð í Auckland í Nýja-Sjálandi árið 1961. Um síðir teygði klúbburinn svo anga sína út í flest ríki, 30 talsins, og til fleiri landa, í krafti ímyndar meðlimanna sem kærulausra útlaga sem lúta engum reglum nema sínum eigin.
Poppmenningin treysti í sessi þessa táknmynd, sér í lagi kvikmyndin The Wild One frá árinu 1953 með Marlon Brando í aðalhlutverki og skrif Hunters S. Thompson frá 1966 um árið sem hann bjó með gengi í Norður-Kaliforníu. Samtökin segja að dæmigert sé að meðlimir keyri 20.000 mílur á ári, sem er rúmlega 30.000 kílómetra, vanalega á þeim ökutækjum sem Englarnir kunna best að meta, Harley-Davidson vélhjólum. Og meðlimir kalla sig enn „one percenters“. Það er hálfrar aldar gamalt gort sem vísar til þess orðskviðar að eitt prósent vandræðagemlinga sverti mannorð 99 prósenta virðingarverðra vélhjólamanna.
Samt vilja Englarnir meina að orðspor klúbbsins sem glæpasamtök sé óverðskuldað og benda í því sambandi á tíð framlög sín til góðgerðarmála í þágu barna og fyrrverandi hermanna. Á borða neðst á vefsíðu Hells Angels stóð: „Þegar við breytum rétt man það enginn, þegar við gerum eitthvað rangt gleymir því enginn.“ En margir Vítisenglar hafa svo sannarlega unnið sér inn lögleysisímynd sína – handtökur og dómar fyrir fíkniefnasölu, og þá sérstaklega á metamfetamíni, líkamsárásir, vopnaeign og jafnvel morð hafa fylgt klúbbnum í áratugaraðir.
Svæsnasta dæmið um þetta er meint samsæri Vítisengla um að drepa rokkgoðið Mick Jagger eftir hið alræmda uppþot árið 1969 á Altamont-kappakstursbrautinni í Kaliforníu þar sem gengið gegndi öryggisgæslu. Rolling Stones-söngvarinn hafði gagnrýnt Englana eftir að vélhjólamaður stakk til bana áhorfanda sem hafði dregið upp byssu á meðan á ryskingum stóð. Drápið var úrskurðað sem sjálfsvörn og kærurnar voru látnar niður falla. Megnið af atvikinu var fest á filmu í heimildarmynd frá árinu 1970 um Rolling Stones.
„Þú potar ekki í geitungabú með priki“
Í Skandinavíu geisaði árum saman stríð um yfirráðasvæði á tíunda áratugnum sem átti sér að sögn stað með vélbyssum, sprengjuvörpum og handsprengjum og kostaði um tíu manns lífið. Þrír vélhjólamenn voru drepnir í gríðarmiklum átökum milli Vítisenglanna og óvinagengisins Mongols í spilavíti í Nevada árið 2002.
Árið 2007 fannst kona alvarlega lemstruð við dyr víggirtra höfuðstöðva klúbbsins í austurhluta Manhattan í New York borg. Þungvopnuð lögreglusveit gerði áhlaup á bygginguna með þyrlur á lofti en engar kærur komu upp úr krafsinu. Þetta hefur orðið til þess að að yfirvöld hafa vökult auga með Hells Angels. Sérsveitir hafa fylgst með vélhjólaferðum Hells Angels til styrktar góðgerðarmála til að fyrirbyggja vandræði og til að sýna styrk sinn mættu lögreglusveitir meðlimum samtakanna í Minnesota þegar þeir voru á leið til í Sturgis um sumarið 2009. Eins og lögregluþjónninn Steve Ovick sagði í viðtali við fréttamiðil á svæðinu: „Þú potar ekki í geitungabú með priki en þú vilt svo sannarlega fá að vita hvar geitungabúið er.“
Hægt er að þekkja Vítisengla á jökkunum þeirra úr leðri eða gallaefni, sem bera merki hins rauða, hvíta og vængjaða „höfuðs dauðans“, stafina HAMC og oftar en ekki töluna 81, sem táknar H, áttunda stafinn í stafrófinu og A, þann fyrsta. Eins og hermenn sem skarta táknmyndum á einkennisbúningum sínum bera Vítisenglar margar ólíkar ásaumaðar myndir á jökkunum sínum sem gefa til kynna stöðu þeirra innan samtakanna en nákvæma merkingu þessara tákna skilja aðeins aðrir Englar.
Meðlimir kalla hver annan eingöngu dulnefnum og á minningarsíðu á vefsvæði gengisins má finna virðingarvott um látna vélhjólamenn sem eru aðeins kallaðir Triumph Viking og Fat Ray. Og gangi þér vel að reyna að verða Vitisengill án mikillar fyrirhafnar. Upplýsingarnar fyrir verðandi meðlimi fela nokkurn veginn í sér þessi skilaboð: „Ef þú þarft að spyrja muntu líklega ekki skilja svarið.“
Endurvöktu gamla klúbbinn í Oakland
Aftur að Sonny Barger – einu þekktasta andliti samtakanna í gegnum árin. Hann fæddist í bænum Modesto í Kaliforníu í Bandaríkjunum árið 1938. Móðir hans yfirgaf fjölskyldu hans þegar hann var einungis fjögurra mánaða gamall. Hann ólst því upp með systur sinni hjá trúaðri ömmu sinni og drykkjusjúkum föður. Þegar Barger var barn var honum vísað nokkrum sinnum úr skóla og þótti hann heldur óstýrilátur.
Sextán ára skráði hann sig í herinn en var leystur frá störfum með sæmd þegar þegar upp komst að hann hefði falsað fæðingarvottorð sitt til þess að geta skráð sig í herinn fjórtán mánuðum seinna.
Eftir veru í hernum sinnti hann hinum ýmsu störfum en hann bjó með föður sínum fyrst um sinn á hóteli og flutti síðar til eldri systur sinnar.
Barger gekk í fyrsta sinn í vélhjólaklúbb sem bar nafnið Oakland Panthers árið 1956. Eftir að sá klúbbur leystist upp fór hann að keyra með öðrum mönnum með sama áhugamál en einn þeirra hét Don „Boots“ Reeves. Sá var með ásaumað merki af flugmannshjálmi innan um vængi – merki gamals vélhjólaklúbbs í Norður-Sakramentó sem hafði liðið undir lok.
Með honum stofnaði Barger lítinn klúbb í Oakland í Kaliforníu þann 1. apríl 1957. Allir meðlimir í klúbbnum báru fyrrnefnt merki sem seinna var iðulega kallað „höfuð dauðans“ og varð lógó klúbbsins sem þeir kölluðu Hells Angels.
Þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að fleiri klúbbar með sama nafni væru að spretta upp víðsvegar um fylkið. Bager var formaður klúbbsins í Oakland og hjóluðu þeir um Kaliforníu til þess að sameina klúbbana og móta reglur fyrir Hells Angels. Þessi þensla klúbbsins var þó ekki án árekstra því ágreiningur var á milli þeirra og til að mynda annars klúbbs, Gypsy Jokers.
Langur sakaferill
Barger vann sem vélamaður frá 1960 til 1965 eða þangað til hann var rekinn fyrir lélega mætingu. Sakaferill hans hófst árið 1963 eftir að hann var handtekinn fyrir vörslu marijúana en það gerðist aftur ári síðar og fyrir árás með morðvopni árin 1965 og 1966. Hóf hann sölu á heróíni nokkrum árum síðar og á svipuðum tíma varð hann háður kókaíni. Á árunum 1966 til 1973 þénaði hann á löglegan hátt með því að aðstoða við hin ýmsu kvikmyndaverkefni. Berger og vélhjólasamtökin hans, Hells Angels voru oft á þessum tíma tengd við svokallaða „andmenningu“ sjöunda áratugarins.
Í gegnum árin var Barger handtekinn fyrir hin ýmsu brot, á borð við morðtilraunir, mannrán og vörslu eiturlyfja. Hann var þá ákærður fyrir morð árið 1972 á eiturlyfjasala en sýknaður þegar trúverðugleiki vitnisins var dreginn í efa í réttarsal. Ári seinna hlaut Barger fangelsisvist í 10 ár til lífstíðar fyrir eiturlyfjavörslu og vopnaeign. Eftir fjögur og hálft ár losnaði hann úr fangelsi eftir að hann fékk reynslulausn.
Á árunum sem fylgdu þarna á eftir var vélhjólaklúbburinn iðulega tengdur við glæpastarfsemi og þótti Barger það miður en hann hélt því ávallt fram að klúbburinn gæti ekki borið ábyrgð á hegðun einstaklinganna sem voru í honum.
Árið 1983 greindist Barger með krabbamein í hálsi en hann hafði alla tíð reykt mikið – og verið „þriggja-pakka“ maður. Hann lét eftir stjórn Hells Angels til Michaels O'Farrell sem var næstráðandi í klúbbnum á meðan hann barðist við meinið. Barkakýlið var tekið og andaði hann alla tíð síðan í gegnum plastventil á hálsinum sem hann lokaði fyrir þegar hann talaði.
Barger átti aftur eftir að hljóta fangelsisdóm en seinna á níunda áratugnum var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir samsæri að fremja ýmsa glæpi, meðal annars morð. Hann sat af sér í þrjú og hálft ár og þegar hann var leystur úr haldi í nóvember 1992 hélt hann heljarinnar partý þar sem um 700 gestir mættu, þar á meðal stjórnmálamenn.
Vildi hjóla á japönskum hjólum
Barger hélt áfram að vera stór hluti af Hells Angels en á seinni árum talaði hann fyrir öryggi vélhjólamanna í umferðinni og þrátt fyrir að meðlimir klúbbsins hafi alla tíð hjólað á Harley-Davidson þá sagði Barger eitt sinn að honum hefði aldrei líkað við þá tegund af hjólum. Hann notaði þau bara vegna þess að sú tegund af mótorhjólum hafði ávallt fylgt ímynd klúbbsins. „Ég hjóla á þeim vegna þess að ég er í klúbbnum, sú er ímyndin, en ef ég gæti þá myndi ég alvarlega íhuga að keyra Hondu ST1100 eða BMW. Við misstum af tækifærinu að skipta yfir í japönsku hjólategundirnar þegar þeir byrjuðu að búa til stærri hjól. Ég segi venjulega: „Til andskotans með Harley-Davidson.““
Hann var fjórgiftur. Fyrsta konan hans, Elsie Mae, lést eftir ólöglegt þungunarrof á sjöunda áratugnum. Nokkrum árum síðan giftist hann Sharon Gruhlke, þegar hann sat í fangelsi, en skildi nokkru síðar. Þriðja hjónabandið var stormasamt en Barger var meðal annars dæmdur í nokkurra daga fangelsi fyrir að ráðast á Beth Noel árið 2003. Þau skildu í kjölfarið. Hann giftist fjórðu konunni, Zorana, tveimur árum síðar og voru þau saman þar til hann lést. Hún var með honum á dauðastundinni ásamt öðrum ástvinum hans.
Lesa meira
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
6. desember 2022Sjálfheldan í Úkraínu. Hatrið sigrar?
-
5. desember 2022Sonur mannsins með leppinn: „Svona flúði ég vígasamtök föður míns“
-
30. nóvember 2022„Maðurinn með leppinn“ sakfelldur fyrir árásina á bandaríska þinghúsið
-
21. nóvember 2022„Harmleikurinn í þessu er að frú Holmes er bráðgáfuð“
-
12. nóvember 2022Er tími Trumps liðinn?
-
25. september 2022Spilaði sakamálahlaðvarp stórt hlutverk í lausn Syed?
-
17. september 2022Dómari mun skera úr hvort ríkasti maður heims verði að kaupa Twitter
-
7. september 2022Bandaríkin munu girða fyrir fjárfestingar styrkþega í Kína
-
28. ágúst 2022Hvíta húsið lét hræsnara heyra það á Twitter