Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur þróast mikið á undanförnum árum eftir að hljómsveitin fékk nýtt heimili í tónlistarhúsinu Hörpu árið 2011. Sinfó hafði áður verið til húsa og spilað í Háskólabíó síðan það var opnað árið 1961. Fjallað er um Sinfóníuhljómsveitina í þættinum Þukl í Hlaðvarpi Kjarnans í dag.
„Sinfóníuhljómsveit gengur rosalega mikið út á hljóm og hvernig hljómsveitin hljómar,“ segir Árni Heimir Ingólfsson, listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, í samtali í þættinum. „85 manns þurfa að stilla sig saman. Við erum alltaf að tala um einhverjar míkrósekúndur sem skilja á milli þess að vera samtaka og ekki samtaka í tónlist.“
„Háskólabíó hafði svo takmarkaða þróunarmöguleika, við komumst bara ákveðið langt þar. Hljómburðurinn var ekki nægilega góður og aðstaðan ekki nógu góð. Við það að komast í hús þar sem þú getur gert það sem þú átt að vera að gera þá um leið tekst þér að komast ennþá lengra,“ segir Árni Heimir.
Árni segir að sinfóníuhljómsveitin sé mjög ánægð í Hörpu og að þar hafi hljómsveitin þróast mikið á síðustu fimm árum. „Hljómsveitin hérna þurfti að læra á húsið. Þau spila öðruvísi og beita sér öðruvísi hér af því að hljómburðurinn er góður, af því að húsið tekur við, heldur en í Háskólabíói.“
Galdurinn við góðan hljóm í sölum Hörpu er að þar eru rýmin hönnuð sérstaklega með hljómburð í huga. Handan veggja Eldborgarsalarins eru til dæmis gríðarstór ómrými sem hægt er að opna á órafmögnuðum tónleikum og magna hljóðið alla leið upp á efstu bekki salarins.
Sinfóníuhljómsveitin spilar hins vegar ekki aðeins í Eldborg heldur fer hliðardagskrá hljómsveitarinnar nær öll fram í hliðarsölum tónlistarhússins og á göngum þess. Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Hörpu, segir Sinfó velja sér vettvang eftir því hvað hentar hverju sinni. „Það eru [til dæmis] barnastundir; alveg fyrir yngstu áhorfendurnar. Það er dásamlegt. Börnin eru ekki farin að ganga en dilla sér alveg í takt við tónlistina. Þá förum við út úr Eldborg því það getur verið erfitt að sitja kjurr þegar maður er lítill,“ segir Arna Kristín.
Á föstudaginn hefst ný hliðartónleikaröð sem kölluð er Föstudagsröðin og verður í stjórn Daníels Bjarnasonar tónskálds. Sú tónleikaröð verður í Norðurljósum þar sem nálægðin við flytjendur verður mun meiri. Arna Kristín segir þetta geta verið geggjaða upplifun fyrir fólk. Sjálf spilaði hún á flautu í Sinfóníuhljómsveitinni og sat þess vegna á miðju sviðinu umkringd hljómsveitinni. „Það er svo mikið kikk að vera inni í þessum hljómi,“ segir hún.
Í aðdraganda tónleikana hefur Sinfó birt myndskeið af spjalli Daníels Bjarnasonar, Egils Ólafssonar, leikara og handritshöfundar, og Ernu Ómarsdóttur, dansara og danshöfundar, um laglínur og birtingarmynd þeirra í ólíkum listformum. Myndskeiðið má horfa á hér að neðan.