Sérhæft teymi á Kleppi tekur árlega móti um 200 ófrískum konum og nýbökuðum mæðrum sem eiga við geðrænan vanda að stríða. Oftast er um að ræða konur sem glíma við alvarlegan geðheilsuvanda á meðgöngu og/eða tengslavanda við barn sitt.
Tíðni geðsjúkdóma eykst oft hjá konum á meðgöngu og við fæðingu og talið er að um það bil fimm prósent fæðandi kvenna glími við alvarleg geðræn vandamál. Snemmtæk íhlutun getur skipt sköpum í tengslamyndun móður og barns og komið í veg fyrir flutning vandamála frá einni kynslóð til annarrar. Á hverju ári fæðast á bilinu 4.000 til 4.500 börn á Íslandi.
Mjög veikur hópur
Elísabet Sigfúsdóttir, félagsráðgjafi og teymisstjóri FMB, segir þunglyndi og kvíða algengustu kvillana sem mæður glíma við, en einnig koma konur með alvarlega geðrofssjúkdóma. Hluti kvennanna er með langvinnan geðrænan vanda, koma úr erfiðum félagslegum aðstæðum, hafa orðið fyrir áföllum í æsku eins og nauðgun eða verið í neyslu.
Þessi hópur þarf oft fjölþætt inngrip og því kemur fyrir að fjölskyldur eru með fleiri en einn meðferðaraðila. Feður með þunglyndi, kvíða og fíknivanda hafa einnig verið skjólstæðingar, til að mynda eftir að maka þeirra hefur verið vísað í teymið. Einum föður hefur verið vísað í teymið án þess að maki hafi verið í meðferð.
„Við erum með mjög veikan hóp. Þær koma oft úr innlögn og hafa verið lengi í meðferð,” segir Elísabet. FMB býður upp á þjónustu við mæður og barn í um eitt og hálft ár, frá í kring um 20. viku meðgöngu og svo allt fyrsta ár barnsins. Forgangsraðað er eftir hverju tilviki og tekið er tillit til veikinda mæðra og lengd meðgöngu.
Geðrænir kvillar hefta tengslamyndun
Skammstöfunin FMB stendur fyrir „foreldrar - meðganga - barn“ og er teymið skilgreint sem þriðja stigs þjónusta, sem þýðir síðasta úrræði fyrir sjúklinga. Konurnar sem koma í teymið eru því margar hverjar mjög veikar. Fyrsta stigs þjónusta er heilsugæsla og annað stig er ítarþjónusta.
Alvarleg geðræn veikindi hafa áhrif á hæfni móður til að sinna hlutverki sínu og tengslamyndun hennar við ungabarnið. Snemmtæk íhlutun getur skipt sköpum í tengslamyndun móður og barns og komið í veg fyrir flutning vandamála frá einni kynslóð til annarrar.
Teymið hefur verið að taka við rúmlega 200 konum og fjölskyldum á hverju ári, en í fyrra fækkaði þeim niður í um 160 aðallega vegna þess að skilgreiningar á hópnum eru betri. Sé tekið mið af fjölda fæðinga og fjölda tilvísanna í teymið árið 2015 má gera ráð fyrir að það sinni því hlutfalli vel, en ljóst er að það vantar upp á þjónustu sé miðað við árið 2014.
Flestar mæður koma einar
Teymið þjónustar konur frá öllu landinu, en langstærsti hlutinn er af höfuðborgarsvæðinu. Einnig koma konur reglulega í meðferð allt frá Borgarfirði og af Austurlandi. Erfiðara er fyrir konur frá svæðum sem eru lengra í burtu að koma í reglulega meðferð og að sögn Elísabetar er frekar reynt að veita ráðgjöf í þeirra umhverfi.
Aldur kvennanna er frá 18 og til fertugs. Allar meðferðirnar eru einstaklingsmeðferðir, en teymið hefur einnig haft hópmeðferðarstarf. Flestar mæður koma einar í meðferðina en um 20 prósent feðra koma líka alltaf með. Að sögn Elísabetar koma sumir feður af og til, en um helmingur kvennanna eru alltaf einar.
„Það er alltaf ákveðin hætta á að kona með geðrofssjúkdóma fari í geðrof eftir fæðingu,” segir Elísabet. „Ofsakvíðamömmur geta líka farið í geðrof eftir fæðingu.”
Kvíði mömmu yfirfærist á barnið
Elísabet segir afar mikilvægt að koma í veg fyrir kynslóðaflutning á erfiðleikum, það er að segja að sjúkdómar og félagslegir erfiðleikar móður haldi ekki áfram hjá barninu.
„Ef mamma er alltaf kvíðin eða hrædd, sérstaklega fyrstu tvö ár barnsins, þá er barnið útsett fyrir yfirfærslu af líðan mömmu. Rannsóknir sýna að ef barnið er baðað í stresshórmum á meðgöngu aukast líkur á líkamlegum sjúkdómum,” segir hún. „Meðferðarvinnan okkar miðar að því að styrkja foreldra í hlutverki sínu og vinna með það sem foreldrarnir sjálfir koma úr. Til dæmis með því að sjá hvað þeir vilja bera áfram til barna sinna og hvað ekki.”
Geta ekki sinnt öllum vegna fjárskorts
FMB var stofnað sem grasrótarteymi árið 2009 og byrjaði á göngudeild Landspítalans. Anna María Jónsdóttir geðlæknir átti hugmyndina sem hún fékk að breskri fyrirmynd. Í dag tilheyrir teymið undir göngudeild geðsviðs en ekkert fjármagn er eyrnarmerkt fyrir starfsemina í ár.
Stöðugildum fækkaði árið 2015 og í kjölfarið var nauðsynlegt að þrengja sjúklingahópinn töluvert með því að taka ekki á móti konum með alvarlegan fíknivanda. Er því fylgt skilyrðum göngudeildar með sex mánaða edrúmennsku.
„Um helmingur kvennanna er með sögu um fíkn eða mikla neyslu. Við höfum tekið konur inn sem hættu í neyslu eftir að þær áttuðu sig á því að þær voru ófrískar, en þurftum að hætta því,” segir Elísabet. Brýnt sé að bæta við einu og hálfu stöðugildi á ný og eins væri ritari kærkomin viðbót. Þetta mundi kosta í kring um fimmtán milljónir á ári.
„Það er bara fyrir velvilja og skilning yfirmanna okkar að þetta teymi varð til, en síðasti styrkurinn rann út í fyrra. Við erum í ferli að reyna að finna fjármagn því við erum ekki svo dýrt teymi en teljum að með vinnu okkar sparist fjármagn í kerfinu á móti. Þetta er gríðarlega mikilvægt málefni sem nær yfir kynslóðir.”