Reykjavíkurdætur hafa nú hafið söfnun fyrir sína fyrstu plötu en sveitin hefur starfað frá árinu 2014. Reykjavíkurdætur er 17 kvenna hópur af röppurum sem hafa vakið athygli hérlendis sem og erlendis fyrir djarfan flutning, tónlist og textagerð. Reykjavíkurdætur hafa á ferli sínum meðal annars samið þemalag Druslugöngunnar, opnað áramótaskaupið, samið lag fyrir Landvernd og Dag rauða nefsins. Ásamt því hafa konurnar opnað Nordisk Panorama Film Festival í Malmö, spilað ásamt Dream Wife út um alla London og eru á leiðinni á sinn fyrsta Evróputúr í sumar þar sem þær spila meðal annars á Hróaskeldu. Kjarninn ræddi við tvær Reykjavíkurdætur, Öldu Karen Hjaltalín og Sölku Valsdóttur, um plötuna.
Hverjar eru Reykjavíkurdætur og hvað kom til að þið stofnuðuð þessa hljómsveit?
„Reykjavíkurdætur komu til í kjölfarið á Rappkonukvöldum sem nokkrar okkar innan hópsins voru að skipuleggja eitt sumarið. Við héldum fyrsta rappkonukvöldið í júlí 2013 við mjög góðar undirtektir. Við héldum síðan tvö sambærileg kvöld í viðbót og fyrir það þriðja ákváðum við að gera lag til að auglýsa það betur og úr varð lagið ‘Reykjavíkurdætur’. Lagið og við sjálfar fengum gríðarlega athygli og það má eiginlega segja að út frá því stofnuðum við Reykjavíkurdætur hópinn sem íslendingar þekkja í dag. Það má því segja að hljómsveitin hafi orðið til af einskærri tilviljun þar sem konur úr mjög ólíkum áttum deildu sameiginlegu áhugamáli. “
Hvaðan sækiði innblásturinn?
„Við höfum gefið út fjöldann allan af lögum eins og sést á spilunarlistanum inná söfnunarsíðunni okkar á Karolina fund. Við höfum bæði gefið út hóplög fyrir Reykjavíkurdætur en einnig líka lög eftir smærri einingar innan hópsins allt frá sóló lögum í annaðhvort dúó eða tríó hópa (t.d. Cyper, Hljómsveitt og Þrjár Basískar). Á plötunni verður nýtt efni sem við erum að vinna í akkúrat núna, þar af fyrsta enska lagið okkar. En auðvitað verður eitthvað af útgefnu efni líka á plötunni. Tónlistin verður jafn fjölbreytt og meðlimirnir eru margir þar sem hver og eitt lag hefur ólíka sögu og ólíka konu á bakvið sig.“
Hvernig tónlist kemur til með að vera á plötunni?
„Það mætti næstum segja að platan verði eins og safnplata þar sem innblásturinn kemur víða að og efnið á plötunni verður það sem við sammælumst um hvað við erum stoltastar af sem Reykjavíkurdætur.“
Eru einhver skilaboð sem þið viljið koma á framfæri í þessu fyrsta albúmi ykkar?
„Platan mun ekki hafa neinn einn ákveðin boðskap yfirvofandi enda er það ómögulegt fyrir okkur þar sem við erum stór hópur fullur af ólíkum persónum. Það er í höndum hlustandans að velta fyrir sér texta og tónsmíð og vonandi hefur með þeirri aðferð platan áhrif á sem flesta.
Því mælum við með að þið tryggið ykkur eintak og túlkið boðskapinn hver fyrir sig.“