Elísabet II bretadrottning hefur fengið nýja embættismynd. Annie Leibovitz var ráðin til verksins en sú hefur ljósmyndað frægt fólk í marga áratugi. En þó ekki jafn lengi og drottningin hefur lifað því í ár fagnar hún 90 ára afmæli sínu og því að vera orðin langelsti einvaldur í sögu breska konungsdæmisins. Hún hefur einnig borið krúnuna lengst allra eða í 64 ár, síðan 1952.
Embættismyndin sem Leibovitz tók er af þeim hjónum, Elísabetu og Filippusi prins, sem hafa verið gift í nærri 69 ár. Þau brosa bæði örlítið og horfa hlýlega í linsuna. Frægur og íburðarmikill stíll Leibovitz nýtur sín í myndinni, þó hjónin séu klædd látlaust. Næmni Leibovitz fyrir viðfangsefni sínu skín í gegnum myndina, eins og sjá má hér að ofan.
Elísabet hefur verið drottning síðan 1952 og þess vegna verið fulltrúi valdsins í langan tíma. Listamenn hafa notað myndir af henni í verkum sínum, eins og Andy Warhol sem notaði hana og fleiri drottningar í „popplist“ sína. Hér að neðan er myndband af opinberri rás bresku krúnunnar sem sýnir 90 myndir í tilefni af 90 ára afmæli drottningar.
Annie Leibovitz hefur á sínum langa ljósmyndaraferli myndað margar af mestu goðsögnum síðari ára. Eitt frægasta dæmið er mögulega ein síðasta ljósmyndin af John Lennon sem tekin var sama morgun og hann var skotinn til bana í New York. Leibovitz heimsótti Lennon og Yoko Ono með myndavélina á vegum Rolling Stone-tímaritsins með það að markmiði að fá mynd af Lennon einum eins og ritstjórinn hafði óskað eftir. Myndin af honum yrði að örugglega á forsíðu blaðsins. Hann vildi hins vegar ólmur hafa Ono með sér á myndinni. Úr varð ein frægasta mynd 20. aldarinnar.
„Það var svo áhugavert að hún bauðst til að fara úr að ofan en ég sagði: „Nei, vertu í öllu“ – án þess að hafa verið með fyrirfram mótaða skoðun á hvað ég vildi gera,“ sagði Leibovitz um hvernig ramminn varð til í samtali við Rolling Stone árið 2007. Hún hafði beðið Lennon að fara úr fötunum. „Hann hjúfraði sig svo upp að henni og þetta varð ofboðslega sterkt. Það var ekki laust við að mér finndist að honum væri kalt; það var eins og hann héldi í hana dauðataki.“
Eins og virðist oft vera tilhneiging hjá góðum ljósmyndurum þá leitar Leibovitz að augnablikunum eða stöðunum sem aðrir ljósmyndarar eru ekki að mynda. Eitt besta dæmið um slíkt er þessi frábæra mynd hér að neðan sem tekin er daginn sem Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna árið 1974. Myndina af Nixon sjálfum að veifa til ljósmyndara áður en hann stígur um borð í þyrluna þekkja allir. Það er svona augnablik í sögu heimsins sem margir ljósmyndarar geta státað sig af að hafa fest á filmu.
En þegar hinir ljósmyndararnir voru ekki að horfa í gegnum kýraugað fór Leibovitz á stjá. „Ég var þarna á flötinni með starfsfólki Hvíta hússins. Þegar þyrlan flaug í burtu og starfsmennirnir fóru að rúlla upp teppinu voru allir hættir að mynda. Þetta var ekki augnablik sem allir hinir voru að fylgjast með, en ég hélt áfram að taka myndir,“ segir hún. Þegar hún skilaði myndunum sínum þóttu þær svo góðar að ritstjórn Rolling Stone-tímaritsins ákvað að kasta hönnuninni sem þegar var búið að vinna fyrir aðra ljósmyndara og nota myndirnar hennar.
Mynd Leibovitz af þyrlunni er í stuttu máli geggjuð. Myndmálið er gríðarlega sterkt. Þyturinn sem þyrlan skapar er hún tekst á loft veldur því að starfsmenn Hvíta hússins þurfta að grípa í kaskeitið á meðan þeir gera upp rauða dregilinn. Þyturinn frá þyrlunni er eins og stormurinn í kringum brotthvarf Nixon úr Hvíta húsinu, starfsmennirnir fulltrúar kerfisins sem þurfa að ríghalda í þann búning sem kerfinu var sniðinn og upprúllaða teppið eins konar vottur um upphefð embættisins.