Stefán Magnússon, íþróttakennari, þungarokkari, frumkvöðullinn að baki Eistnaflugi, veitingamaður og nú síðast framkvæmdastjóri Hard Rock Café á Íslandi, stendur í ströngu þessa dagana. Stefnt er að opnun Hard Rock Café um mánaðarmótin, áður en Iceland Airwaves hátíðin skellur á í miðborg Reykjavíkur. Hátíðin fer fram 2. til 6. nóvember.
Þegar Kjarninn hafði samband við Stefán var augljóslega mikið að gera, enda stóra augnablikið framundan: opnun staðarins með öllu sem því fylgir, 30. október.
Tilkynnt var um ráðningu Stefáns í ágúst síðastliðnum og greindi Nútíminn frá því að Stefán hefði verið búinn að skipuleggja fjarnám við Háskólann á Bifröst og sundkennslu við Réttarholtsskóla og Fossvogsskóla þegar tækifærið kom. „Ég fór í nokkur viðtöl og endaði þetta allt saman á því að ég var ráðinn og er kominn í HRC hópinn sem er algjörlega frábær. Allir sem eru ráðnir á HRC fara í þjálfun og ég tek næstu fimm vikur á HRC staðnum í Flórens á Ítalíu,“ sagði Stefán við Nútímann, þegar ráðningin var kunngjörð, í ágúst síðastliðnum. Nú er hann kominn heim frá Ítalíu, og lokaspretturinn í undirbúningi fyrir opnun er framundan.
Skúli og Birgir í Dimmu
Á innan við tveimur mánuðum má segja að Stefán hafi gengið í gegnum ákveðinn hreinsunareld, til að móta sig inn í nýtt starf. Hann segist vera með skýrt markmið fyrir Hard Rock Café í Reykjavík. Þetta á að vera skemmtilegasti veitingastaður í borginni og fólk á að vilja koma aftur.
Við skulum byrja á byrjuninni, þungarokkinu. Er það þungarokkið sem opnaði leiðina inn í veitingabransann?
„Já þar byrjaði þetta ævintýri,“ segir Stefán. „Ég tek að mér að vera rekstrarstjóri á Skúla Craft Bar og það var allt Birgi Jónssyni Trommara í Dimmu að kenna. Hann auglýsti eftir rekstrarstjóra og ég sagði honum að þetta væri ég til í að skoða og það endaði svo með því að ég var ráðinn og við tók frábær tími. Ég fékk frábært starfsfólk til að vinna á Skúla með mér og það var alveg ægilega gaman að vinna með þessum snillingum. Svo var líka svo skemmtilegt fólk sem kom á staðinn þannig að það var aldrei leiðinlegt í vinnunni,“ segir Stefán.
Þungarokkið á Austurlandi
Innkoma Stefáns inn í veitingageirann er rökrétt að þessu leyti; í gegnum trommara í þungarokkshljómsveit. Þungarokkið hefur verið stór hluti af lífi hans eftir að hann hóf að skipuleggja þungarokkshátíðina Eistnaflug, sem fer fram í byrjun júlí ár hvert í Neskaupsstað á Austfjörðum. Hátíðin er þekkt fyrir gleði, mikið þungarokk og kannski ekki síst friðsamlega framkomu, þrátt fyrir mikið rokk og ról. Fyrir liggur að Eistnaflug mun hætta ef það koma upp kynferðisbrot á hátíðinni, og er það yfirlýst stefna. Aldrei hafa komið upp kynferðisbrot á hátíðinni frá því hún hóf göngu sína árið 2005, og ofbeldismál hafa verið sárafá og engin alvarleg. Slagorðið „ekki vera fáviti“ hefur komist vel til gesta, sem koma fyrst og fremst til að skemmta sér og hlusta á góða tónlist á fallegum stað.
Hátíðin þykir mikil bæjarprýði og hefur gott orðspor hennar orðið tilefni til rannsókna við Háskóla Íslands.
Þetta hefur verið mikið ævintýri hjá þér með Eistnaflug, og er orðið að föstum lið á hverju ári í íslensku tónlistarlífi. Sérðu fyrir þér að það stækki og eflist, eða viltu kannski ekki að það verði of stórt?
„Hátíðin í sumar var sú stærsta og skemmtilegasta í langan tíma að mínu mati. Það var gott veður og mikil gleði svo ég var strax til í annað Eistnaflug. Þetta var svo helvíti hressandi vika. Við komum ekkert mikið fleirum á hátíðina og gaman að sjá hvað íþróttahúsið kemur vel út og hvað tónleikarnir eru glæsilegir í þessu húsi. En ég sakna samt alltaf Egilsbúðar, þar gerðust hlutir sem ég er stoltur af og stór kafli í rokksögu Íslands byrjaði,“ segir Stefán, en Egilsbúð var hefur lengst af verið heimavöllur hátíðarinnar, sem nú er farin að trekkja að gesti og hljómsveitir erlendis frá. Hún fer fram 5. til 8. júlí á næsta ári og eru þegar fimmtán hljómsveitir skráðar til leiks. „Við erum alltaf að stækka en hversu mikið í viðbót veit ég ekki. Við erum orðin þekkt hátíð hjá erlendum hljómsveitum og lítið mál að fá stórar og þekktar hljómsveitir til að spila en það kostar alltaf talsvert af peningum sem við eigum ekki mikið af,“ segir Stefán.
Hvað er að fara gerast á Hard Rock?
Nú ertu kominn með járn í eldinn hjá Hard Rock. Hvernig leggst þetta í þig, og hvernig staður verður Hard Rock með þig með þræðina í höndunum?
„Þetta leggst rosalega vel í mig og þessir tæpu þrír mánuðireru búnir að vera mikið ævintýri. Ég var sendur til Flórens í þjálfun og var þar í sex vikur og núna er allt að smella hjá okkur og ætlum við að opna 30. október, eins og áður sagði. Hard Rock Café Reykjavík verður mjög skemmtilegur staður og fallegur. Hér verður hægt að borða góðan mat, fara á tónleika í kjallaranum og svo skoða memorabiliuna á veggjunum sem er alltaf spennandi og skemmtilegt. Mitt verkefni er að viðhalda góðri stemmningu og góðu andrúmslofti á staðnum. Það verður að vera gaman og það gaman að þig langar að koma aftur,“ segir Stefán. Þetta er grundvallaratriði í hans huga. Að búa til skemmtilegt andrúmsloft og þar með góðar minningar viðskiptavina.
Hard Rock hluti af alþjóðlegri keðju
Staðir undir merkjum Hard Rock eru nú í um sextíu löndum um allan heim, en hótelstarfsemi er einnig umfangsmikil undir merkjum þessa þekkta vörumerkis, en segja má að Bandaríkin sé heimavöllur þess, þó fleiri markaðir séu einnig mikilvægir.
Verður eitthvað séríslenskt við staðinn hjá ykkur?
„Já vitaskuld, við verðum með eins mikið íslenskt og við getum. Þetta er íslenskur Hard Rock Café staður og við fáum eins mikið að hráefni héðan og hægt er en við verðum alltaf að fá einhver hráefni að utan. Svo verðum við með “local Burger“ sem er algjör troðsla, hann er svo góður,“ segir Stefán. „En fyrir utan matinn þá verðum við með mikið úrval af bragðgóðum drykkjum sem þú ættir að skoða og ég skal skála við þig hvenær sem er,“ bætir hann við.
Þurfum að taka vel á móti fólki
Hard Rock verður staðsett í hjarta ferðaþjónustunnar í Reykjavík, í Iðuhúsinu. Vöxturinn í ferðaþjónustu hefur gjörbreytt rekstrarumhverfi veitingastaða í Reykjavík og eru erlendir ferðamenn stór hluti viðskiptavina á þeim flestum. Búist er við því að ferðamönnum sem heimsækja Ísland muni fjölga um 500 þúsund á næsta ári, og verði um 2,2 milljónir. Á þessu eru bendir flest til þess að þeir verði um 1,7 milljónir.
Stefán segist líta svo á að ferðaþjónustan sem atvinnugrein sé að standa sig vel, en það augljóslega sjáist merki þess að innviðina þurfi að styrkja. Læra megi af reynslunni í öðrum atvinnugreinum, og þannig megi hugsa sér erlenda ferðamenn eins og „þorska“. Þeir séu verðmætir og það þurfi að bera virðingu fyrir þeim. „Mér finnst ferðaþjónustan virkilega vera að standa sig, en mér finnst fáránlegt að við séum ekki betur tilbúin fyrir alla þessa ferðamenn. Að það sé til dæmis ekki almennileg salernisaðstaða á okkar vinsælustu stöðum, og að það séu ekki settir nægir peningar til að viðhalda þessum stöðum sem verða fyrir miklu álagi, það einfaldlega gengur ekki. Ferðamenn setja virkilega skemmtilegan svip á borgina og gaman að sjá svona mikið líf hérna í miðborginni alla daga vikunnar. Það er klárt að ferðamaðurinn er nýi þorskurinn okkar,“ segir Stefán.
Ferðamenn eru stór hluti gesta á veitingastöðum í Reykjavík, og líklegt að svo verði áfram. Hefur þú einhverjar áhyggjur af ofvexti í greininni?
„Nei en við þurfum að vera fljót að aðlaga okkur og vera tilbúin fyrir allt þetta fallega fólk. Það er ekki nóg að byggja bara hotel. Það þarf að laga vegina, vara við allskonar hættum svo við séum ekki að „stráfella“ fólkið þegar það mætir í heimsókn á fallegu eyjuna okkar,“ segir Stefán, og leggur áherslu á að einfalda reglan eigi að vera sú að taka vel á móti fólki í því felst meðal annars að tryggja öryggi og bjóða upp á góða áreiðanlega þjónustu. Þetta ætli hann að hafa bak við eyrað á Hard Rock.
Matarhimnaríki
Þú nefndir að þú hefðir farið til Flórens á Ítalíu á dögunum, eins og sjá mátti á Facebook hjá þér. Þar virtist þú vera að fá reynslu og læra nýja hluti. Hvernig reynsla var það og hvað er það helst sem þú tekur með þér heim úr þeirri reisu?
„Það var frábær tími, rosaleg vinna og mikill lærdómur. Ég var á 10 tíma vöktum og vann á öllum stöðum og reyndi að læra allt sem var verið að reyna að koma inn í hausinn á mér. Svo eftir vakt þá var Hard Rock skóli á netinu sem var auka vinna í fjóra tíma á dag. En þetta var rosalega gaman og ég eignaðist góða vini sem ég sakna nú þegar. Það er nefnilega gaman að geta hlegið í vinnunni og haft gaman og ég gerði það í 6 vikur. Það var líka magnað að fá að sökkva sér í Ítalska matargerð. Ítalskur matur er alveg ótrúlega góður en þá er ég líka að tala um eitthvað annað en bara pizzuna. Þvílík og önnur eins flóra af mat og drykk, ég var bara í matarhimnaríki. Svo ofan á það þá var það hluti af minni þjálfun að ég varð að smakka allt sem var á matseðlinum á Hard Rock Café svo ég var mjög sjaldan svangur í þessar sex vikur.“
Hvaða markmið ertu búinn að setja þér fyrir komandi tíma hjá Hard Rock, eða gerirðu kannski ekki slíkt?
„Ég er auðvitað með markmið annars gerist ekki neitt. Ég ætla að gera Hard Rock Café að skemmtilegasta veitingastað Íslands. Er það ekki frábært markmið?“ segir Stefán að lokum.