Í október 2014 var sagt frá því að íslenskir aðilar ynnu að gerð kvikmyndar sem byggir á Líkfundarmálinu-svokallaða. Myndin, sem Ari Alexander Ergis Magnússon stendur að og á að heita „Undir Halastjörnu“, fékk vilyrði fyrir 80 milljón króna styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands og á að fara í tökur veturinn 2016.
Það telst til tíðinda að gera myndir sem byggjast á raunverulegum íslenskum glæpum. Undantekningar eru þó frá þeirri reglu. Í kvikmyndinni Svartur á leik eru aðalsöguhetjurnar til dæmis látnar fremja glæpi sem eru eftirlíking af raunverulegum glæpum. Auk þess hafa sjónvarpsþættirnir Sönn íslensk sakamál fjallað um nokkuð mörg glæpamál með stakri prýði. Kjarninn tók saman fimm íslensk glæpamál sem eiga það öllu sameiginlegt að handrit að kvikmynd um þau myndi skrifa sig sjálft.
5.Pólstjörnumálið: Vafasamasta Íslandsmetið
Í september 2007 sigldi löskuð seglskúta, Pólstjarnan, inn í Fáskrúðsfjarðarhöfn. Um borð voru tveir menn, Guðbjarni Traustason og Alvar Óskarsson. Skömmu eftir að skútan lagðist við höfnina byrjuðu sírenur að blikka, fjöldi sérsveitarmanna stökk fram og handtóku mennina tvo ásamt þriðja manninum sem hafði komið til móts við þá á bílaleigubíl. Síðar kom í ljós að lögreglan á Íslandi hafði, í samtarfi við lögregluembætti í öðrum löndum, fylgst með ferðum mannanna og samstarfsmanna þeirra frá því í lok árs 2006. Í skútunni voru alls 23,5 kíló af amfetamíni, tæp 14 kíló af MDMA dufti og 1.746 MDMA töflur um borð í henni. Þetta var stærsta fíkniefnasmygl Íslandssögunnar.
Skútunni hafði verið siglt yfir Atlantshafið af þeim Guðbjarna og Alvari. Þeir voru þó ekki einir að verki. Auk þeirra voru Einar Jökull Einarsson, sem var ákærður fyrir að skipuleggja smyglið, Arnar Gústafsson, Bjarni Hrafnkelsson og Marínó Einar Árnason ákærðir fyrir að taka þátt í glæpnum. Auk þess var einn maður handtekinn og dæmdur í Færeyjum fyrir sína aðkomu að málinu. Grunur lék á um að annar höfuðpaur hefði skipulagt og fjármagnað innflutninginn, en Einar Jökull neitaði að upplýsa um hver það væri. Í réttarhöldunum spurði dómari málsins Einar Jökul að því hvernig honum hefði dottið í hug að fá menn til þess að sigla lítilli seglskútu út á opið haf í miðjum september? Einar Jökull sagði að það hefði ekki verið mikið mál. „Þetta þolir allan andskotann“.
Mennirnir voru dæmdir í 18 mánaða til níu og hálfs árs fangelsi. Einar Jökull fékk þyngsta dóminn.
4. Kio Briggs: ljóðrænt réttlæti
Í september 1998 dúkkaði risavaxinn breskur maður að nafni Kio Alexander Ayobambele Briggs upp í Leifsstöð. Hann var að koma frá Benidorm og reyndist vera með 2.031 e-töflur í farangri sínum. Kio hélt því fram að íslenskur maður, Guðmundur Ingi Þóroddsson, hefði komið fíkniefnunum fyrir í töskunni án hans vitneskju. Guðmundur Ingi neitaði því en viðurkenndi í vitnastúku við aðalmeðferð málsins að hafa hringt í lögreglumann á Íslandi og greint honum frá upplýsingum um fíkniefnasmyglið í þeirri von að fá ívilnun lögreglunnar í öðru máli sem að honum snéri. Þessi aðferðarfræði Guðmundar var reyndar sérkennileg, þar sem þegar var fallinn dómur í því máli.
Kio var dæmdur í sjö ára fangelsi í mars 1999. Annmarkar voru hinsvegar á málsmeðferðinni og málið tekið upp aftur. Á meðan gekk Kio laus en sætti farbanni. Hann var mjög áberandi á Íslandi á þeim tíma. Fór í viðtöl, var virkur í skemmtannalífssenunni og tók þátt í kraftakeppnum. Kio var á endanum sýknaður bæði af héraðsdómi og hæstarétti og fagnaði þeirri niðurstöðu gríðarlega. Í kjölfarið fór hann í mál við íslenska ríkið og krafðist 27 milljóna króna í skaðabætur fyrir frelsissviptinu. Áður en málið var dómtekið hafði Kio hins vegar verið handtekinn á ný, nú í Danmörku, með um 800 e-töflur í fórum sínum. Hann tapaði málinu gegn íslenska ríkinu, var dæmdur til danskrar fangelsisvistar og ekkert hefur spurst til hans síðan.
3. Grænmetismafían
Á tíunda áratugnum var íslenskt viðskiptalíf ekki orðið jafn goslegt og það varð á þeim fyrsta eftir aldamót. Íslenskir kaupsýslumenn voru ekki orðnir jafn stórhuga í þeim leiðum sem þeir völdu til að komast yfir meiri peninga og völd. Helstu brotin sem framin voru á þessum tíma voru samráðsbrot. Og það fyndnasta var grænmetissamráðið.
Árið 1995 náðu Sölufélag garðyrkjumanna og tengd fyrirtæki samkomulagi við Ágæti og Mötu um víðtækt ólögmætt verðsamráð og markaðsskiptingu í viðskiptum sínum með grænmeti, kartöflur og ávexti. Samkeppnisyfirvöld komust síðar að þeirri niðurstöðu að þessir aðilar hefðu myndað með sér nokkurs konar einokunarhring með það að markmiði að draga úr samkeppni sín á milli og hækka verð á þessum vörum.
Meðal annars hittust Pálmi Haraldsson, þá framkvæmdastjóri Sölufélagsins, og Gunnar Gíslason, framkvæmdastjóri Mötu, á fundi í Öskjuhlíðinni til að ræða fyrirhuguð kaup á samkeppnisaðilanum Ágæti. Vegna þessa fundar, sem var haldinn á þessum sérkennilega stað, voru stjórnendur grænmetisgeirans kallaðir „Grænmetismafían“ í fjölmiðlum. Það er prýðilegt nafn á illa fjármagnaðri B-mynd sem myndi líkast til fara beint á spólu. Nokkuð ljóst er að Eric Roberts myndi leika Pálma Haraldsson.
2. Byrgið: Jesús, peningar, kynferðisbrot og kúrekahattur
Guðmundur Jónsson, síðar ávallt kallaður Guðmundur í Byrginu, stofnaði ásamt öðrum kristilega meðferðferðarheimilið Byrgið fyrir heimilislausa vímuefnasjúklinga, spilaíkla og fólk með ýmsar persónuleikaraskanir í desember 1996. Guðmundi gekk vel að ota Byrgistotanum og fékk töluverða athygli, enda hafði hann sérstakt útlit. Var með tagl og gekk iðulega um með kúrekahatt.
Þessi eljusemi Guðmundar leiddi til þess að Byrgið fékk aðstöðu undir starfsemi sína, meðal annars í Rockville á Miðnesheiði og síðar á Efri-Brú í Grímsnesi. Auk þess unnu margir sjálfboðaliðar fyrir Byrgið og miklir fjármunir streymdu til þess frá bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Auk þess styrkti ríkissjóður Byrgið um að minnsta kosti 226 milljónir króna. Vistmenn greiddu þess utan fyrir vistina. Fáa grunaði að pottur væri brotinn í starfseminni. Hún var meðal annars tilnefnd til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins árið 2006 og fangar voru vistaðir þar.
Í desember 2006 var sendur út fréttaskýringaþátturinn Kompás um Byrgið og ásakanir á hendur Guðmundi um stórfellt fjármálamisferli og kynferðislegt samneyti við vistmenn lagðar fram. Guðmundur harðneitaði sök en mánuði síðar skilaði Ríkisendurskoðun úttekt sem sýndi fram á að fjármunir hefðu sannarlega verið notaði til einkaútgjalda. Sama dag var Byrginu lokað. Þá höfðu nokkrar konur sem voru fyrrverandi vistmenn í Byrginu kært Guðmund fyrir kynferðislega misbeitingu og nauðgun. Hann neitaði þeim ásökunum einnig en um miðjan janúar 2007 lak á netið myndband sem sýndi Guðmund og eina kvennanna í kynlífsleikjum. Viðbrögð Guðmundar voru að hóta því að kæra konuna fyrir nauðgun. Hann sagði hana hafabyrlað sér smjörsýru.
Guðmundur var á endanum dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot í starfi. Hæstiréttur mildaði dóminn um hálft ár. Hann var einnig ákærður og dæmdur fyrir stórfelldan fjárdrátt og umboðssvik.
1. Líkfundarmálið: Hin íslenska Fargo
Eitt mánudagskvöld í febrúar 2004 kom Vaidas Jucevicius til Íslands frá Litháen, með millilendingu í Kaupmannahöfn. Innvortis var hann með 61 pakkningu af metamfetamíni, alls 223,67 grömm, sem hann hafði gleypt áður en hann lagði af stað. Í Leifsstöð ætluðu þrír menn: Jónas Ingi Ragnarsson, Grétar Sigurðsson og Tomas Malakauskas, að taka á móti honum. Þeir höfðu skipulagt smygl fíkniefnanna ásamt eiturlyfjahring í Litháen í nokkur tíma. Jónas hélt á spjaldi með nafni Vaidasar í móttökusalnum, en samt fóru þeir á mis. Vaidas kom sér til Reykjavíkur og hitti þar mennina, sem óku með hann í rólegt íbúðahverfi í Kópavogi. Skömmu síðar veiktist Vaidas herfilega vegna þess að fíkniefnapakkningarnar stifluðu mjógirni hans og gengu ekki niður. Fjórum dögum eftir að hann lenti í Keflavík var Vaidas látinn vegna þessa.
Atburðarásin þar á eftir er ævintýraleg. Einn mannanna stakk upp á því að fjarlægja efnin úr líkinu en hinir tóku það ekki í mál. Mennirnir settu þá lík Vaidasar í plastpoka, vöfðu það í teppi og þeir Jónas Ingi og Tomas óku síðan með það austur á Djúpavog í jeppa sem þeir höfðu leigt. Þar urðu þeir veðurtepptir í tvo daga, með líkið í skottinu. Ferðinni var heitið á Norðfjörð, þaðan sem Grétar er. Hann flaug þangað sjálfur. Þegar komið var til Norðfjarðar var jörð frosin og engin leið að grafa líkið. Mennirnir ákváðu því að kasta því í sjóinn, en fyrst stungu þeir það fimm sinnum í þeirri von að líkið myndi sökkva. Þremur dögum síðar var kafari fyrir tilviljun við störf við bryggjuna þar sem Vaidas lá í votri gröf. Skip hafði rekist á bryggjuna einhverju áður og kafarinn var að kanna skemmdir á henni. Fyrir algjöra tilviljun fann hann líkið.
Níu dögum eftir að líkið fannst voru Jónas Ingi, Grétar og Tomas handteknir. Þeir voru síðar dæmdir í tveggja og hálfs árs fangelsi hver fyrir innflutning á fíkniefnum, fyrir að koma Vaidasi ekki til aðstoðar í neyð og fyrir illa meðferð á líkinu. Jónas komst aftur í fréttirnar árið 2010 þegar hann var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að setja upp í samstarfi við aðra eina fullkomnustu amfetamínverksmiðju sem fundist hefur hérlendis.