Birgitta Steingrímsdóttir, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði, og Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, vöruhönnunarnemi, hafa verið vinkonur frá unga aldri. Þær náðu að sameina áhugamál sín þegar þær unnu saman að gerð fjölskylduspilsins Fuglafárs sem inniheldur fróðleik um íslenska varpfugla. Um þessar mundir standa þær fyrir hópfjármögnun á spilinu á Karolina Fund þar sem áhugasömum gefst tækifæri á að næla sér í spilið í forsölu. Fjármögnunin hefur að þeirra sögn gengið vonum framar en þær náðu markmiði sínu eftir aðeins tvær vikur. Ekkert lát er á eftirspurn eftir Fuglafári og benda þær stöllur á að enn eru 2 vikur eftir af forsölunni. Kjarninn hitti Birgittu og Heiðdísi og tók þær tali.
Hvaðan kemur hugmyndin að spilinu?
„Við getum ekki státað okkur af því að hafa verið miklir fuglanördar hér áður fyrr. Vorið 2015 þegar við fórum að huga að sumarvinnu langaði okkur að leiða saman hesta okkar og gera eitthvað skemmtilegt saman. Á þessum tíma var ég að læra líffræði upp í HÍ og Heiðdís vöruhönnun í LHÍ. Við áttum nokkra „brainstorm„ fundi þar sem ansi margar lélegar hugmyndir fæddust þangað til hugmyndin að spilinu dúkkaði upp. Við vorum báðar sammála um að þetta væri eitthvað sem okkur langaði að taka lengra og nú, einu og hálfu ári síðar, er spilið farið í framleiðslu og er settur dagur í byrjun desember.
Ástæðan fyrir því að okkur langaði að gera fuglaspil er afar einföld - við vissum ekki neitt um fugla og grunaði að fleiri væru í sömu sporum. Við vildum kveikja áhuga landans á fuglunum okkar og sömuleiðis forvitni til að vita meira. Því varð spil fyrir valinu en þau hafa þann eiginleika að gera viðfangsefnið bæði skemmtilegt og fræðandi í senn.“
Hvernig spilar maður það?
„Við vildum ekki gera hefðbundið spurninga- eða teningaspil og sömuleiðis fannst okkur mikilvægt að leikmenn þyrftu ekki að vita neitt um fugla til að geta tekið þátt í spilinu. Þannig koma allir jafnir inn í spilið sem reynir fremur á herkænsku og klókindi leikmanna. Fuglafár er tvíþætt spil og inniheldur 30 íslenska varpfugla. Spilið er fyrir 7 ára og eldri og geta leikmenn verið 2-4. Leikirnir tveir sem hægt er að spila í Fuglafári eru Gettu hver fuglinn er og Fuglatromp og eru þeir byggðir á hinum sívinsælu spilum Guess Who og Top Trumps.“
Út á hvað gengur spilið?
„Fuglafár hefur það að markmiði að kveikja áhuga á íslensku fuglunum. Leikmenn læra að þekkja nöfn og útlit fuglanna auk þess sem ýmis skemmtilegur fuglafróðleikur leynist í spilinu. Fuglafár skapar kjörinn vettvang fyrir fjölskyldur og vini til að sameinast í leik og skapa góðar minningar - og vonandi smitast af fuglabakteríunni í leiðinni!“