Nico Rosberg baðaði sig í kampavíni og kastljósinu í síðustu viku eftir að hafa lagt Bretann Lewis Hamilton, einn besta ökuþór allra tíma, að velli í heimsmeistaraeinvígi þeirra í Abu Dhabi-kappakstrinum um síðustu helgi. Það var síðasta mót ársins en einnig síðasta mót Rosbergs sem kom öllum á óvart við verðlaunaafhendinguna í gær og tilkynnti að hann væri hættur kappakstri.
Með brotthvarfi sínu bindur Rosberg enda á baráttu sína við Hamilton sem báðir hafa ekið Mercedes-bílum í Formúlu 1 síðan árið 2013. Einu sinni voru þeir bestu vinir, hjálpuðu hvor öðrum að komast lengra í sportinu og ræddu hvað það yrði gaman ef þeir gætu báðir orðið heimsmeistarar í Formúlu 1. Hamilton hefur þrisvar unnið heimsmeistaratitilinn og ætlaði að sækja sinn fjórða í ár.
Rosberg var krýndur heimsmeistari í Formúlu 1 í fyrsta sinn á 25 ára ferli sínum í kappakstri í gær. Þjóðverjinn Rosberg segist aðeins hafa verið að hlusta á hjarta sitt þegar hann ákvað að hætta. Markmiðinu hafi verið náð með því að hreppa titilinn í Formúlu 1. Rosberg er aðeins 31 ára og hefur ekki enn tekið ákvörðun um hvað hann hyggist gera nú þegar kappakstursferlinum er lokið.
Upp úr stendur að Nico Rosberg átti flottan feril í kappakstri og hann lýkur honum á tindinum. Hann hefur lagt tvo þekkta heimsmeistara af velli í innbyrðis baráttu liðsfélaga og sannað gildi þrotlausrar vinnu og metnaðar.
„Þegar ég var sex ára að byrja í kappakstri þá var draumurinn alltaf augljós: Að verða heimsmeistari í Formúlu 1. Það er það sem ég hef verið að eltast við allan þennan tíma. Því verkefni er lokið. Draumurinn er uppfylltur.“
Hvernig hefur maður dreka undir?
Frá því að leiðir bestu vinanna Nico og Lewis skildu í upphafi síðasta áratugs höfðu þeir báðir komist alla leið í Formúlu 1 en höfuð þroskast í mjög ólíka ökumenn.
Lewis Hamilton gekk til liðs við Mercedes-liðið fyrir keppnistímabilið 2013 og þótti það nokkuð augljóst hver skyldi verða aðal í liðinu. Nico Rosberg var þar fyrir og var fyrirfram dæmdur af fjölmiðlum og spekúlöntum til þess að lúta í lægra haldi fyrir stjörnustráknum Lewis Hamilton.
Hamilton hafði þá unnið heimsmeistaratitilinn á sínu öðru ári í Formúlu 1 2008 og verið nærri því að verða meistari á sínu fyrsta ári. Eftir nokkur mögur ár hjá McLaren ákvað hann að yfirgefa uppeldisstöðvarnar og gerði samning við Mercedes. Hamilton var mikið í sviðsljósi slúðurblaða, hefur gaman af því að skemmta sér með stórstjörnum í Bandaríkjunum og var í stormasömu ástarsambandi með heimsþekktri poppsöngkonu.
Rosberg hafði þá þegar ekið fyrir Mercedes í þrjú ár og samanlagt haft betur en liðsfélaginn Michael Schumacher sem snúið hafði aftur í Formúlu 1 árið 2010. Schumacher er eins og flestum er kunnugt sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1, hefur unnið titilinn lang oftast allra og á lang flesta sigra að baki.
Bæði sem ökuþór hjá Williams og Mercedes vann Rosberg sér orðspor sem fluggáfaður ökuþór. Hann var hárnákvæmur í öllu því sem tengdist uppsetningu bílsins, vann vel með vélvirkjunum og var sérstaklega vel liðinn meðal yfirmanna sinna vegna þess hversu rólegur og jarðbundinn hann er. Honum þykir ekkert sérstaklega gaman af því að vera í sviðsljósinu, en er samt tryggur sínum stuðningsmönnum á samfélagsmiðlum.
Það voru því ólíkir ökumenn sem mættust hjá Mercedes árið 2013.
Sagt er að ekki sé til betri samanburður á hæfileikum og getu ökumanna en að setja þá til höfuðs hvor öðrum í sama keppnisliðinu. Þannig fái maður raunverulegan samanburð. Fyrstu þrjú árin hafði Hamilton yfirhöndina og vann tvo heimsmeistaratitla árin 2014 og 2015. Hvað sem Rosberg reyndi þá hafði Hamilton yfirhöndina, jafnvel þó vinnuframlag þess breska væri mun minna en Rosbergs.
Rosberg segist hafa tvíelfst við tapið í fyrra; þegar Hamilton hreppti heimsmeistaratitilinn þegar enn voru nokkur mót eftir af vertíðinni. Rosberg lagði sig enn meira fram, gerði samning við fjölskyldu sína um þær fórnir sem hann þyrfti að færa til þess að geta látið drauminn sinn verða að veruleika.
Honum tókst í upphafi tímabilsins sem lauk um síðustu helgi að vinna nokkur mót í röð og búa til gott stigaforskot. Hamilton náði hins vegar að sækja á og náði yfirhöndinni um mitt tímabilið en bilanir og óheppni gerðu það að verkum að Hamilton náði ekki að halda efsta sætinu í titilbaráttunni. Rosberg varðist svo stórkoslega í lok ársins og hélt sönsum undir gríðarlegri pressu frá liðsfélaga sínum og fjölmiðlum í haust.
Afrekið er ótvírætt. Það verður enginn heimsmeistari eftir baráttu við Lewis Hamilton án þess að leggja allt undir. „Ég er bara ekki tilbúinn að gera það aftur,“ segir Rosberg um ákvörðun sína að hætta á toppnum.
Spurður hvort hann hafi verið búinn að ákveða að hætta fyrir löngu síðan svaraði hann: „Ég gefst aldrei upp. Ef ég hefði orðið annar á eftir Hamilton þá hefði ég haldið áfram.“
„Þetta tímabil er búið að vera rosalegt. Ákefðin og tilfinningarnar voru á allt öðru og hærra stigi en ég hef áður upplifað. Í síðustu fjórum mótum ársins var þetta nánast óbærilegt því þá var verkefnið að halda forskotinu og tryggja titilinn. Síðasta mótið í Abu Dhabi var andlega það erfiðasta sem ég hef á ævinni gert, fyrir utan að fylgjast með konunni minni, Vivian, fæða dóttur okkar.“
„Ég vil þakka Lewis sérstaklega. Þú hefur verið ótrúlegur keppinautur í öll þessi ár og frábær ökumaður – örugglega sá besti allra tíma – og það gerir heimsmeistaratitilinn minn miklu sætari; að ræna honum frá Lewis.“
Mómentið var núna
Á næsta ári taka í gildi miklar reglubreytingar í Formúlu 1. Reglubreytingar á borð við þessar eru gerðar reglulega til þess að hrista upp í tækniþróun í kappakstrinum og jafna keppnina. Undanfarin ár hefur Mercedes-liðið haft yfirhöndina enda hafði bílaframleiðandinn þýski eytt gríðarlegum fjármunum í þróun og smíði nýrrar véltækni sem var fyrst notuð keppnistímabilið 2014.
Þar áður hafði Red Bull-liðið með Sebastian Vettel í forystu haft gríðarlega yfirburði. Vettel vann heimsmeistaratitilinn fjórum sinnum í röð á árunum 2010 til 2013.
Nýjar reglubreytingar sem taka gildi á næsta ári munu færa tækniþróunarstríðið á nýjan vettvang loftaflsfræði heldur en vélþróunar. Það er því ekki endilega hægt að gera ráð fyrir því að Mercedes muni vera með eins mikla yfirburði og liðið hefur notið undanfarin ár. Það má þess vegna líta á það þannig að Rosberg hafi átt sinn síðasta séns í ár, ef hann ætlaði að verða heimsmeistari í Formúlu 1.
Tímasetningin á brotthvarfi Rosbergs er því eflaust ágæt þegar litið er til óvissunnar sem fram undan er.
33 heimsmeistarar
Bikarinn skartar nú 33 nöfnum en þar á meðal er nafn föður Nico Rosberg; Keke Rosberg varð heimsmeistari í Formúlu 1 árið 1982. Alls hafa meira en 800 einstaklingar spreytt sig í þessari efstu deild kappaksturs í heiminum.
Jafnvel þó tilkynning Rosbergs hafi komið á óvart er þetta ekki í fyrsta sinn sem ríkjandi heimsmeistari hættir keppni. Alain Prost lauk ferli sínum í annað sinn í lok árs 1993 en þá hafði hann snúið aftur í Formúlu 1 eftir að hafa hætt í lok árs 1991. Nigel Mansell hætti einnig í Formúlu 1 í lok ársins 1992 til þess að keppa í Bandaríkjunum. Báðir óku fyrir Williams-liðið og höfðu átt langan og farsælan feril í kappakstri.
Allir heimsmeistarar í Formúlu 1
Ökuþór | Fjöldi titla | Titilár |
---|---|---|
Michael Schumacher | 7 | 1994, 1995, 2000, 2001, 2002, 2003, 2004 |
Juan Manuel Fangio | 5 | 1951, 1954, 1955, 1956, 1957 |
Alain Prost | 4 | 1985, 1986, 1989, 1993 |
Sebastian Vettel | 4 | 2010, 2011, 2012, 2013 |
Jack Brabham | 3 | 1959, 1960, 1966 |
Jackie Stewart | 3 | 1969, 1971, 1973 |
Niki Lauda | 3 | 1975, 1977, 1984 |
Nelson Piquet | 3 | 1981, 1983, 1987 |
Ayrton Senna | 3 | 1988, 1990, 1991 |
Lewis Hamilton | 3 | 2008, 2014, 2015 |
Alberto Ascari | 2 | 1952, 1953 |
Graham Hill | 2 | 1962, 1968 |
Jim Clark | 2 | 1963, 1965 |
Emerson Fittipaldi | 2 | 1972, 1974 |
Mika Häkkinen | 2 | 1998, 1999 |
Fernando Alonso | 2 | 2005, 2006 |
Giuseppe Farina | 1 | 1950 |
Mike Hawthorn | 1 | 1958 |
Phil Hill | 1 | 1961 |
John Surtees | 1 | 1964 |
Denny Hulme | 1 | 1967 |
Jochen Rindt | 1 | 1970 |
James Hunt | 1 | 1976 |
Mario Andretti | 1 | 1978 |
Jody Scheckter | 1 | 1979 |
Alan Jones | 1 | 1980 |
Keke Rosberg | 1 | 1982 |
Nigel Mansell | 1 | 1992 |
Damon Hill | 1 | 1996 |
Jacques Villeneuve | 1 | 1997 |
Kimi Räikkönen | 1 | 2007 |
Jenson Button | 1 | 2009 |
Nico Rosberg | 1 | 2016 |
Nöfn Lewis Hamilton og Nico Rosberg eru lituð.