Hulda Vilhjálmsdóttir er fædd 6. júní 1971, á Sjómannadaginn. Hún ólst upp í Reykjavík og kláraði stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Eftir stúdentspróf fór hún í Iðnskólann í Reykjavík og lærði tækniteiknunn. Hana langaði að fara í arkitektanám en á þeim tíma var það ekki kennt í Reykjavík.
Hulda taldi strax frá unga aldri að listnám, verklegt nám, teikning, mótun eða málun væri eitthvað sem hefði hæfileika til að nota, mennta sig og sérhæfa sig í að gera. Hulda sótti um að komast í fornám Myndlista- og handíðaskóla Íslands vorið 1994. Strax kom í ljós í fornámi að litir, form og línur heilluðu hana og eftir fornám sótti hún um í málaradeild í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún komst inn í málaradeild þrátt fyrir að aðeins 7 nemendur hafi verið teknir inn um veturinn. Hulda stundaði málaradeildina frá 1995-2000 og útskrifaðist með B.A gráðu úr Listaháskóla Íslands vorið 2000.
Hulda Vilhjálmsdóttir er ein af fremstu myndlistarmönnum af sinni kynslóð á Íslandi. Hefur myndlist hennar verið birt í ýmsum listaverkabókum um myndlist á Íslandi. Myndlistaverk hennar eru í eigu listasafna, fyrirtækja, einstaklinga og hefur hún selt mörg verk til útlanda þar að auki. Kjarninn hitti Huldu og tók hana tali.
Hvernig myndir þú lýsa listinni þinni?
„Ég er þakklát að hafa getað sérhæft mig í málun, getað stundað námið á þessu tímabili. Á þessum tíma er mikil rannsóknar- og tilraunavinna med notkun pensilsins. Strax eftir námið og til dagsins í dag hef ég rekið vinnustofur og haldið 4-6 sýningar á ári. Ég kláradi hálft nám í keramikdeild, mótun, við Myndlistaskóla Reykjavíkur. Ég mála stundum á kermik, striga, plötur, pappír, og mála ég stundum a fundna hluti, það er ekkert sem stoppar mig að mála. Ég er forvitin og leitandi myndlistakona og kem mér stundum á óvart með sköpun verksins. Med tilfinningaríkum verkum, tel ég verk mín verkin expressionísk í kúbískum anda.“
Hvað er að finna í bókinni Valbrá?
„Ég er að safna fyrir bók ljóða og listaverka í gegnum Karolina fund. Mig langar að gera fallega bók með góðum ljósmyndum af listaverkunum og láta prenta hana í góðum gæðum.“
Hvernig varð bókin Valbrá til?
„Hugmyndin að bókinni vaknaði sumarið 2015. Ég sat við eldshúsborðið í litla húsinu mínu og teiknaði og málaði. Gróðurinn, sumarbirtan og skæru litir sumarsins gáfu mér innblástur að verkunum sem ég var að skapa.
Verkin í bókinni, ljóðin og myndlistaverkin hafa verið að þróast síðan þetta sumar til dagsins í dag, þannig að megin þema bókarinnar er persónuleg tjáning mín og ljóðin í bókinni er um mitt líf, hvernig ég upplifi daglegt líf og sé fegurðina, litina, börnin, dýrin leika um hendur mínar inn á pappír og striga, einfaldar og flóknar myndir í bland. Ljóðin lýsa mínum tilfinningum og fegurð lífsins í daglegum ferðum mínum um bæinn og ferðum mínum um landið. Vona ég að bókin muni hafi góð áhrif á fólk, að upplifunin sé þægileg, tilfinningarík, litrík, gleðirík og ljóðræn. Einnig má finna hvernig einfalt verk getur verið heillandi.
Bókin ber nafnið Valbrá. Valbrá er fæðingarblettur minn sem ég fæddist með og er á vinstri hendi. Blettirnir hafa fylgt mér alla tíð, eins og lítið titrandi blóm í hendi. Valbrá táknar minn persónulega heim eða eitthvað sem er einstakt. Góður vinur minn sagði við mig að ég væri einlæg, naive en á akademískan hátt.
Mig langar að bókin lýsi þessu einlæga en með fáguðum vinnubrögðum. Ég vona að það kveiki hjá lesandandanum forvitni eins og lítið hissa barn þegar bókin er skoðuð, barnið sem leitar í fallega liti, þetta frelsi vil ég túlka og gefa gildi í myndlist og ritlist.“