Varst þú að setja barnamynd af þér á Facebook vegna þess að allir voru að gera það í tilefni barnamenningarhátíðar? Hélstu að þátttöku þinni í hátíðinni væri þar með lokið og ekkert meira hægt að gera? Ef svo er þá hafðir þú rangt fyrir þér því einnig er hægt að taka þátt í hátíðinni í raunheimi.
Barnamenningarhátíð er samvinnuverkefni á vegum menningar- og ferðamálasviðs ásamt skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Höfuðborgarstofa heldur utan um viðburði hátíðarinnar sem fara fram víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu ekki bara á Facebook.
Hátíðin hefur verið haldin árlega síðan 2010 hófst hún í ár þriðjudaginn 25.apríl og stendur yfir til og með sunnudeginum 30.apríl. Hægt er að vera vitni af og taka þátt í fjölbreyttum uppákomum sem fara fram skólum og frístundamiðstöðvum.
Einnig er dagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur, Hörpu og lista- og menningarhúsum borgarinnar. Markmið hátíðarinnar er að efla menningarstarf barna og ungmenna í borginni þar sem þátttaka þeirra gegnir lykilhlutverki.
Þátttaka og áhorf í bland
Meðal annars er í boði að fara í Grasagarð Reykjavíkur þar sem 5. bekkur Laugarnesskóla stendur fyrir sýningunni Rannsóknarstofa: Hvað leynist í náttúrunni? Þar sem lögð er áhersla á virkt samspil þátttakenda við umhverfi Grasagarðsins og umræðum um hvernig hægt er að byggja sanngjarnt samfélag og stuðla að sjálfbærni.
Einnig stendur Þjóðlagasveitin Þula og barnahópur Þjóðdansafélags Reykjavíkur stendur fyrir viðburði í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem gestum gefst tækifæri á að taka þátt í söng og leik. Markmið uppákomunnar er að auka þekkingu barna á íslenskri þjóðlagatónlist og þjóðdönsum.
Fyrir utan þátttökuverkefnin eru einnig fjölmargar sýningar. Í Ráðhúsi Reykjavíkur verður sýningin Augun mín hafa svo margt að segja. Á sýningunni eru verk sem gerð hafa verið með augnstýribúnaði. Búnaðurinn er í eigu Klettaskóla og er notaður af þeim sem af einhverjum ástæðum geta ekki tjáð sig með orðum. Í vetur hafa nemendur unnið myndverk með búnaðinum þar sem augnhreyfingar nemenda skapa listaverk.
Í Tjarnarbíói verður brúðusýning ætluð tveggja ára og eldri sem kallast Á eigin fótum. Sýningin fjallar um sex ára uppátækjasama stelpu sem býr í Reykjavík millistríðsáranna. Hún er send ein í afskekkta sveit sumarlangt. Þar þarf hún að takast á við framandi umhverfi sem er alger andstæða þess sem hún þekki. Tónlist leikverksins er frumsamin og verður flutt í lifandi flutningi með sýningunni. Eftir sýninguna gefst áhorfendum tækifæri á að hitta leikarana ásamt því að skoða brúðurnar og leikmyndina.