Þegar gagnrýni á hefðirnar verður hluti af hefðinni, tínist merking gagnrýninnar með öllum hinum gleymdu merkingum hefðanna.
Kjarninn greindi frá athöfninni í Westminster í liðinni viku þegar Elísabet II Englandsdrottning hóf þinghald eftir kosningarnar í Bretlandi fyrr í þessum mánuði. Drottningin las þá upp stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar, eins og hefð er fyrir.
Athöfnin er hlaðin hefðum og formreglum sem nær allar eiga að undirstrika sjálfstæði breska þingsins – og almennings – frá breska konungsveldinu; Drottningin ríkir í umboði almennings en ekki öfugt.
Bretland hefur verið þingbundið konungsríki mörg hundruð ár og í gegnum tíðina hafa skapast hefðir. Breska löggjafarvaldið er formlega séð skipt í þrjár deildir. Krúnan, konungsvaldið, skipar einn arm sem gegnir hlutverki ráðgjafa og samþykkir lög sem hinar deildirnar ganga frá.
Drottningin skipar lávarðadeild breska þingsins eftir tillögum forsætisráðherrans. Lávarðadeildin er skipuð aðalmönnum og hefðarklerkum og er þess vegna fulltrúaráð æðri máttarvalda.
Fulltrúar almennings sitja í neðri deild þingsins. Í þessa deild er yfirleitt kosið á fimm ára fresti, nema þegar forsætisráðherrann telur mikilvægt að kjósa fyrr. Eins og Theresa May gerði í vor.
Skellt í lás
Við upphaf hvers nýs þings í Bretlandi er það drottningin sem flytur stefnuræðu nýrrar ríkisstjórnar. Drottningin flytur þessa ræðu í þingsal lávarðadeildarinnar, enda er henni ekki leyfilegt að koma í sal almennings. Umsjónarmanni lávarðadeildarinnar, kallaður „Black rod“, er þess vegna skipað að kalla þingmenn neðri deildarinnar saman í hinum þingsalnum.
Áður en „Black rod“ er hins vegar hleypt inn í þingsalinn skella þingverðirnir í lás, þannig að sendimaður drottningar þarf að banka þrisvar áður en honum er hleypt inn.
Prinsinn má opna kebab-stað
Dennis Skinner, þingmaður Verkamannaflokksins í Bolsover í norðanverðu Englandi, er yfirlýstur andstæðingur konungsveldisins í Bretlandi. „Það er ekki hægt að vera konunglegur og alþýðumaður á sama tíma,“ hefur hann látið hafa eftir sér um konungsfjölskylduna sem hann segir hafa grafið undan réttmæti sínu á undanförnum áratugum.
Hann hefur lýst þeirri skoðun sinni að Bretar eigi að segja konungsfjölskyldunni upp störfum og finna þeim önnur störf: Drottningin má sjá um hrossarækt krúnunnar, enda er það hennar ástríða, og eiginmaður hennar, Filipus prins, getur opnað kebab-stað í Norður-London.
Sjálfur hefur Skinner aldrei beðið lægri hlut í kosningum í kjördæmi sínu síðan hann bauð sig fyrst fram árið 1970. Eftir að hafa lokið grunnskólaprófi á fjórða áratugnum gerðist hann kolanámumaður áður en hann gerðist opinber fígúra og fór að láta til sín taka á sviði stjórnmálanna. Síðan hefur hann verið kallaður „The Beast of Bolsover“, sem ekki verður með góðu móti þýtt á íslensku.
Árið 2014 lýsti Skinner því í viðtali að hann hefði aldrei á ævinni sent tölvupóst. „Ég vil að póstburðarfólkið haldi vinnunni sinni,“ sagði hann. Skinner heldur ekki með neinn Twitter-reikning, jafnvel þó fjölmargir reikningar séu í hans nafni.
Skinner hefur notað tækifærið við upphaf nær allra nýrra þinga í Bretlandi síðan um miðjan níunda áratuginn til að hrópa háðsk orð, hvort sem það er að sendiboða drottningarinnar eða til þingheimsins.
Það er kannski kaldhæðnislegt að köll Skinners séu orðin að hefð, eins og þeim sem hann gagnrýnir svo reglulega.
Í ár kallaði hann „Get your skates on, first race is half past two!“ og vísaði þar í veðhlaupakeppnina sem drottningin ætlaði að mæta á þann daginn.
Venjulega uppsker Skinner hlátur fyrir en stundum hefur hann hlotið ákúrur fyrir frá þingmönnunum hinu megin í salnum.
En yfirleitt eru glósurnar fyndnar. Eins og þegar hann spurði hvort Helen Mirren, sem hafði farið með hlutverk drottningarinnar í kvikmyndinni The Queen sama ár, væri tilbúin til að hlaupa í skarðið.
Stundum notar hann tækifærið til þess að koma skoðunum sínum á pólitískum málum líðandi stundar á framfæri. Í fyrra var mikil umræða um stöðu breska ríkisútvarpsins og Skinner kallaði:
Kastað úr þingsalnum
Skinner lætur ekki sitt eftir liggja í stjórnarandstöðunni í Bretlandi og er kraftmikill þingmaður. Hann gengur stundum of langt og hefur margsinnis verið vísað úr þingsalnum fyrir ruddalegt orðbragð og móðganir.
David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Íhaldsflokksins í Bretlandi, fékk til dæmis viðurnefnið „Dodgy Dave“ frá Skinner eftir að ráðherrann varð uppvís af skattaundanskotum. Þrátt fyrir að hafa fengið tækifæri til að draga ummæli sín til baka lét þingmaðurinn sér ekki segjast:
George Osborne, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Davids Cameron, fékk einnig að heyra það frá Skinner. Gula pressan í Bretlandi hafði þá fjallað um meinta kókaínneyslu Osborne á yngri árum. Skinner tók það óstinnt upp... og var kastað út fyrir vikið.
Skinner var fæddur árið 1932 og man vel eftir hörmungum seinni heimsstyrjaldarinnar. Í upphafi ársins 2017, eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna, bauð breska ríkisstjórnin Trump í opinbera heimsókn til London. Skinner var ekki sáttur og líkti Trump við Hitler og Moussolini.