Karl Orgeltríó er hljómsveit skipuð þeim Karli Olgeirssyni sem leikur á orgel, Ásgeiri Ásgeirssyni gítarleikara og Ólafi Hólm trommara. Tríóið var stofnað haustið 2013 og er nú að gefa út sína fyrstu plötu. Ragnar Bjarnason syngur lögin á plötunni og ýmsir góðir gestir koma við sögu.
Lögin eru flest tökulög sem færð eru í búning sem hentar orgeltríói auk tveggja frumsaminna laga. Karl svaraði spurningum um nýju plötuna.
Hvaðan er hugmyndin komin að Happy Hour með Ragga Bjarna?
Árið 2002 var ég í hljómsveitinni Milljónamæringarnir. Við vorum að taka upp plötu með ýmsum söngvurum og þeirra á meðal var Raggi Bjarna. Ég fékk það verkefni að setja gamla Nirvana-lagið Smells Like Teen Spirit í einhvers konar Bond/Cha cha cha búning. Það er skemmst frá því að segja að lagið sló í gegn og eftir á að hyggja markaði það endurkomu Ragnars í meistaradeildina í poppinu en hann hafði haft sig hægan um árabil. Síðan þá hef ég gengið með þann draum að gera heila plötu í þessum anda, þar sem Raggi syngur óvænt lög í nýjum búningi.
11 árum síðar varð til Karl Orgeltríó sem er stofnað í mynd gömlu orgeltríóanna frá 5. og 6. áratug síðustu aldar. Þar leikur orgelleikarinn bassann á Hammond-orgelið þannig að aðeins þarf tvo í viðbót til að bandið sé fullskipað. Við fórum fljótlega að máta alls kyns nýrri lög við formattið og swinga þau upp. Svo kom þessi hugmynd upp, hvort ekki væri gaman að gera heila plötu með Ragga Bjarna þar sem hann syngi lög eftir Björk, Spandau Ballet, Pink og Blondie. Raggi varð mjög spenntur. Eftir það gerðust hlutirnir hratt og nú er platan tilbúin.
Eru fleiri tónlistarmenn að vinna að verkefninu með ykkur?
Við vildum koma í veg fyrir að platan yrði of einsleit, ef maður passar sig ekki getur orgelið orðið yfirþyrmandi. Svo að við fengum góða gesti á plötuna til að brjóta upp stemninguna af og til.
Salka Sól syngur til að mynda Bjarkarlagið I’ve Seen It All með Ragga. Katrín Halldóra sem leikur Ellý í Borgarleikhúsinu syngur dúett í öðru frumsamda laginu á plötunni, Allt í fína. Það er engu líkara en að fundist hafi týnd upptaka með Ragga og Ellý! Og svo fengum við þær Heiðu Ólafs og Siggu Eyrúnu til að syngja raddir í nokkrum laganna. Þær gera mikið fyrir þau. Einnig eiga Haukur Gröndal og Snorri Sigurðarson stórleik í nokkrum lögum. Okkur fannst við hæfi að hafa trompet og saxófón sumum laganna til að djassa þetta enn frekar upp.
Hvað var það sem stýrði valinu á lögunum?
Fyrst og fremst fannst urðu lögin að vera góð. Þau þurftu líka að bjóða upp á nýja og ólíka útsetningu. Og sérstakur bónus var ef lagavalið kæmi á óvart með tilliti til þess að Raggi Bjarna er að syngja þau. Tvö laganna gæti Raggi alveg hafa sungið í gamla daga, Call Me sem var samið fyrir Petulu Clark og From Russia With Love sem er úr samnefndri Bondmynd. En við fundum nýjan flöt á fyrra laginu og það seinna nýtur sín bara vel í orgelbúningi auk þess sem Ásgeir spilar á Bouzouki í því í stað jazzgítarsins. Frumsömdu lögin tvö, Happy Hour og Allt í fína eru pínulítið gamaldags og fara þess vegna öfuga leið við hin lögin, reynt er að gera nýtt gamalt. Retro í stað vintage.
Er enn þá markaður fyrir plötur á Íslandi?
Ég hef unnið sem upptökustjóri síðan 1998 og vissulega hef ég fundið fyrir miklum breytingum síðan þá. Með tilkomu netsins, Youtube, Spotify og deiliforrita hafa áherslurnar breyst. Platan sem heild hefur verið á undanhaldi og stök lög og playlistar átt meira upp á pallborðið sem mér þykir leitt. Það mætti líkja því við að fólk kysi heldur að lesa staka kafla úr bókum í stað þess að lesa þær frá upphafi til enda. Einnig hrundi plötusalan á tímabili. Þó hefur platan verið að sækja í sig veðrið á ný, sérstaklega á vinylformi sem er sérstaklega ánægjulegt.
Svo hafa listamenn á borð við Beyoncé og Adele átt sinn þátt í að viðhalda plötunni með því að gefa þær ekki út á Spotify. Og svo er sífellt auðveldara að nálgast plötur á löglegan hátt á netinu.
Ég ætla að gefa út plötur á meðan mér finnst ég hafa eitthvað fram að færa. Happy Hour með Ragga Bjarna þykir mér mikilvæg plata. Þarna er 82ja ára gamall söngvari – lifandi goðsögn – sem söng fyrsta rokktextann á íslensku, að syngja stórverk úr poppsögunni á virkilega svalan og skemmtilegan hátt. Hann er í fantaformi og framsetning laganna er með þeim hætti að allir geta notið þeirra, ungir sem aldnir. Og platan gæti átt erindi út fyrir landsteinana því að þetta er svo athyglisverð blanda, þessi lög og Raggi. Þannig að ég vona að fólk styrki verkefnið og taki þátt í að platan verði fáanleg á geisladiski og vinyl.
Söfnunin stendur til 10. júlí og má sjá hana nánar og taka þátt í henni á vef Karolina fund.