Sony ætlar að hefja framleiðslu vínylplatna á ný eftir nærri þrjátíu ára hlé. Vínylplatan hefur ekki selst betur síðan geisladiskarnir ruddu sér inn á markaðinn á níunda áratug síðustu aldar.
Sony Music Entertainment hætti að framleiða vínylplötur árið 1989 þegar tónlistarmenn og tónlistarunnendur höfðu valið geisladiska fram yfir hefðbundið útgáfuform vínylplatna. Þá var kominn tími til að nútímavæðast og segja skilið við deyjandi útgáfuform.
Fyrsta vínylplata Sony í nærri 30 ár mun renna af færibandinu í Tokyo í Japan í mars á næsta ári. Sony ætlar að gefa út japanska popptónlist, bæði gamla og nýja, á þessu gamla formi. Japanski tónlistarmarkaðurinn framleiddi nærri 200 milljón plötur á ári um miðjan áttunda áratuginn, þegar vínylplötumarkaðurinn var sem stærstur þar í landi.
Sony átti stóran þátt í því að geislaplatan ruddi sér til rúms, með framleiðslu geislaspilara og geislaplatna. Með netvæðingu höfundarverka og tilkomu streymisþjónusta hefur geislaplötusala fallið hratt.
Vínyllinn hefur hefur hins vegar snúið aftur sem uppáhald tónlistarunnenda og hipstera. „Sándið“ og gæðin eru sögð betri undir nálinni, að þeirri staðreynd undanskildri að skemmtilegra getur verið að meðhöndla viðkvæma hluti en að smella á snertiskjái.
Samkvæmt AFP leitar Sony nú að starfskrafti sem kann á tækin sem þarf að gangsetja í fyrsta sinn í 30 ár.
Seljast eins og heitar lummur
Vínylplötur seljast nú betur en þær hafa gert í aldarfjórðung. Sem dæmi má nefna að í Bretlandi voru meira en 3,2 milljónir vínylplatna seldar árið 2016. Það var 53 prósent meiri sala en árið áður og besta sala vínylplatna síðan 1991. Þá var Simply Red-platan Stars mest selda platan í Bretlandi.
Augljóst er að vínylplatan eldist betur en Simply Red.