Júlí er sumarleyfismánuðurinn á Íslandi og fólk á öllum aldri skellir sér í útilegu til að njóta vinskapar og náttúrunnar.
Ekkert getur ráðið örlögum góðs útilegupartís eins og gítarspil og samsöngur. Það skiptir engu hvort gítarinn sé falskur, ef allir eru gíraðir og kunna réttu lögin getur partíið orðið frábært. Það getur líka farið illa ef ekki er búið að undirbúa fjörið nógu vel.
Hér eru tíu bestu útileguslagararnir. Gott er að kunna þessi lög vel áður en einhverju sterku er skvett í heitt kakó og raddböndin þeytt.
10. Rómeo og Júlía – Bubbi
Grip á GuitarParty.com
Bubbi hefur framleitt tónlist í áratugi og er fyrir löngu búinn að tryggja sér einn eða fleiri kafla í tónlistarsögu Íslendinga. Lögin hans eru mörg hver frábær útilegulög sem auðvelt er að spila á gítar. Og ekki skemmir að lang flestir kunna textana eða geta í það minnsta raulað með. Rómeó og Júlía er hugsanlega það lag sem hefur ratað í flestar söngbækur landans í seinni tíð.
9. Álfheiður Björk
Grip á GuitarParty.com
Frábært stemmningslag. Allir kunna viðlagið og þeir athyglissjúkustu fá tækifæri til að sýna sig. Mælt er með að þetta lag sé sungið þegar síga fer á seinni hluta partísins, fólki orðið svolítið kalt og tími til að hrista upp í liðinu.
8. Pípan
Grip á GuitarParty.com
Þetta er óhefðbundið ástarljóð en eflaust það sannasta á þessum lista. Það þarf ekkert að hafa fleiri orð um það.
7. Dagný
Grip á GuitarParty.com
Stutt og gott lag. Frábært hópsöngslag, eða einsöngslag fyrir söngvarana í hópnum sem vilja ekki að partíið stoppi. Vilhjálmur og Ellý (bæði Vilhjálms) gerðu frábæra útgáfu af þessu lagi sem hlýða má á í spilaranum hér að ofan.
6. Þórsmerkurljóð
Grip á GuitarParty.com
Amma og afi sungu þetta lag í útilegum í gamla daga. Klassískt útilegulag sem verður seint þreytt.
5. Ég er kominn heim
Grip á GuitarParty.com
Vonandi hafa Íslendingar ekki gleymt því í fótboltagleðinni síðasta sumar að þetta lag er upphaflega eitt mesta og besta útilegulag Íslandssögunnar. Ég er kominn heim varð að stuðningsmannalagi íslenska fótboltalandsliðsins í aðdraganda og á Evrópumeistaramótinu sumarið 2016. Það kunna það þess vegna allir. Það er gaman að syngja þetta fallega með ástvinum í náttúrunni.
4. Óbyggðirnar kalla
Grip á GuitarParty.com
Það er kannski ekkert lag á þessum lista meira viðeigandi í útilegu (nema þú sért í Vaglaskógi) en þetta lag. Þetta lag eftir þá Magnús Eiríksson og KK er ljúfur óður til íslenskra óbyggða sem hafa svo ægilegt aðdráttarafl.
3. Vor í Vaglaskógi
Grip á GuitarParty.com
Hér er lagið sem stimplaði Kaleo í huga margra. Villi Vill átti þekktustu útgáfu þessa lags þar til mosfellska hljómsveitin gerði það að sínu. Þetta er viðráðanlegt lag fyrir alla söngvara, góða og slæma, unga og aldna, raddlausa og raddsterka, mjóróma og bassa.
2. Reyndu aftur
Grip á GuitarParty.com
Magnús Eiríksson má auðveldlega skipa í frægðarhöll íslenskrar popptónlistar. Samferðamaður hans Pálmi Gunnarsson fær eflaust að fylgja þar með. Reyndu aftur er ein flottasta perla Mannakorna og lag sem hægt er að syngja aftur og aftur og aftur í útilegum.
1. Syneta – Bubbi
Grip á GuitarParty.com
Hér er besta lagið hans Bubba og þess vegna ratar það beint í efsta sætið. Þetta lag geta allir sungið og spáð í textann á meðan sungið er. Ljóðið fjallar um skipsbrot seint í desember, heimþrána og lífið. Rammíslenskt og gerir íslensku náttúruna einhvern veginn raunverulegri í partímókinu.