Öldurnar sleikja varnargarðinn við gömlu síldarverksmiðju Thorsaranna á Hjalteyri, ungleg amma lætur sig fljóta í köldum sjónum eins og hún sé við Spánarstrendur og barnabörnin sleikja frostpinna í heitum potti skorðuðum í fjörugrjótið. Nokkrir ferðamenn í flotbúningum kjaga eins og mörgæsir í áttina að trébáti til að fara í hvalaskoðun en skammt frá valhoppar myndlistarmaðurinn Snorri Ásmundsson í gleði sinni yfir að hafa séð hval, gljáandi feitan og stóran, stinga sér upp úr öldunum, nánast við fjöruborðið.
Glæfrafyrirtæki Thorsaranna
Staðurinn gæti verið verk á sýningunni Hverfing (e. Shapeshifting).
Tilvera hans minnir á að miklar umbreytingar geta átt sér stað án þess við veitum þeim athygli; ásýnd hlutanna flöktir í takt við breytt hlutverk þeirra svo eldgamall síldarfnykurinn sest í verk listafólks sem er flest frá Íslandi og Bandaríkjunum en sýningarstjórinn starfar einnig á Metropolitan-safninu: Pari Stave, listfræðingur í New York.
Stórborgarbragur Thorsaranna er enn á sínum stað en í breyttri mynd, nýju samhengi, og þeir löngu farnir. Thorsararnir svokölluðu (með Ríkharð Thors í fararbroddi, skilst mér) létu reisa verksmiðjuna árið 1937 á mettíma í nístingskulda við erfiðar aðstæður þegar félag þeirra Kveldúlfur átti í nokkrum kröggum. Sagt er að glæfrafyrirtækið hafi bjargað Kveldúlfi – þó að það séu kannski ekki allir sammála því. Hvað sem því líður stendur Verksmiðjan ennþá yst á eyrinni, veðruð eins og kastali afturgengins fiskikonungs, og bjargar ýmsu á ýmsan hátt en fyrst og fremst listalífinu í nærliggjandi sveitum og þótt víðar væri leitað.
Listabræðsla
Verksmiðjustjórinn – eins og liggur beinast við að kalla Gústav Geir Bollason – hefur byggt upp núverandi starfsemi í Verksmiðjunni, myndlistarrými sem er bæði hugsað fyrir sýningarhald og verkefni. Síðustu árin hafa leitað þangað erlendir jafnt sem innlendir listamenn og með því móti hefur lýsisbræðsla umbreyst í listabræðslu.
Gústav býður mér upp á soðið kaffi í myrku geymsluherbergi sem liggur þvert í gegnum miðja verksmiðjuna en vippar sér reglulega fram til að svara spurningum gesta. Hann svarar ýmist á frönsku, ensku eða íslensku og gestirnir kunna vel að meta safarík svörin.
Einhver spyr út í verk eftir hann sjálfan sem stikar léttfættur í áttina að því. Verkið leiðir hugann að hringrás tímans. Jeppadekk sem hefur farið yfir land og jökla og látið á sjá, bæði lúið og veðrað, en inni í því eru stórar glerflöskur með sandi úr íslenskri eyðimörk. Dekkið er inni í grind sem afmarkar tímann eins og nokkurs konar ummál hans.
Sonur minn fer samstundis að rúlla dekkinu, uppnuminn af því að geta stjórnað hraða tímans. Gústav fylgist með og segir: Mér fannst fallega þversagnakennt að setja dekk, sem er í sjálfu sér mekanískur tími, saman við stundaglas sem má tengja við jarðsöguleg lögmál. Það er eitthvað manneskjulegt við stundaglasið, þegar sandurinn rennur úr einu glasi í annað stækkar gatið milli glerjanna og sandurinn rennur hraðar og hraðar og hraðar ... kannski eins og fólk upplifir síðara æviskeið sitt.
Umbreytingar í loftslagi og valdaþróun
Skammt frá hangir kolateikning eftir Gústav á veðruðum verksmiðjuveggnum: búraleg mannvera með boga í rústunum af einhverju sem gæti hafa verið skúr og hún virðist spenna boga. Hann kallar þessar myndir skáldskap og segir þær tilheyra hliðarheimi. Í þeim býr tilfinning fyrir hræjum, hamförum, jafnvel upphafi og endalokum siðmenningar. Þær vekja upp óþægilegar hugrenningar um hugsanlegar breytingar í umhverfinu.
En yfirskrift sýningarinnar er jú hugtakið Hverfing og í texta eftir bandaríska sýningarstjórann, sem Hallgrímur Helgason rithöfundur þýddi, segir: Á íslensku þýðir orðið hverfing allt í senn: flóknar tilfærslur í umhverfi sem og stökkbreyting, snúningur, umsnúningur og brotthvarf. Í enska orðinu „shapeshifting“ er falin hugmyndin um myndbreytingu eða hamskipti, hvort tveggja hugtök með goðsögulegar og ljóðrænar rætur sem liggja í gegnum mörg menningarskeið allt aftur til fornaldar. Verkin á sýningunni ávarpa öll þessi minni og setja þær í samhengi við ástand mála, þær hnattrænu umbreytingar í loftslagi og valdaþróun sem nú eiga sér stað.
Ísbjörn á leiðinni að éta okkur öll
Umbreytingarnar lúra allt um kring, líka í húsinu þar sem ég stend og horfi út um glerlausan glugga við hlið kolamyndarinnar af mannverunni með bogann og velti fyrir mér hvort sýningargestir séu óhultir þarna inni ef ísbjörn skyldi reka á land í leit að fæði. Er þetta hvíta sem bærist alda eða ísbjörn? Ég reyni að sjá hval en sjórinn er úfinn og sólin skín í augun. Birtan skiptir litum á fjallshlíðunum og landið andar í takt við ólgandi hugmyndaheima þarna inni. Verkin eru ólík, þrátt fyrir sameiginlegan snertiflöt, og þarna ægir saman skúlptúrum, vídeóinnsetningum, pappírsverkum og útskurði en öll hreyfa þau óþægilega vel við manni.
Tilraun til að lýsa nokkrum verkum
Ég er ekki listfræðingur og það er illa gert að fjalla um þessa sýningu án þess að fjalla um öll verkin en af því að þetta eru hvort sem er ábyrgðarlaus skrif fulltrúa hins almenna fávísa sýningargests má reyna að gefa mynd af nokkrum þeirra.
Eitt verka Rúríar ber vott um vísindalega nálgun, kortamyndir af strandlengjum eins og þær gætu litið út við hækkun yfirborðs sjávar þegar hluti landsins er horfinn. Annað verk hennar fikrar sig áfram eftir gólfinu, búið til úr glerílátum, og táknar fólk á flótta frá heimalandi sínu í leit að skjóli. Eitthvað í tæru látleysi þess fær mann til að finna til sorgar.
Þannig tala sum verkin beinskeytt við mann meðan önnur hræra upp í skynjuninni á óræðari hátt. Mér verður starsýnt á verk eftir hina kanadísku Jessicu Stockholder. Þetta eru fjöldaframleiddir hlutir, á borð við uppþvottavél, eldavél og lampa, sem hafa glatað upprunalegu hlutverki sínu en umbreyst í landslag í rými Verksmiðjunnar og þannig öðlast fagurfræðilegt gildi og nýja tilveru. Einn hluturinn er þó ekki fjöldaframleiddur nytjahlutur en það er landslagsmálverk sem liggur klesst undir þvottavélinni.
Þórdís Alda Sigurðardóttir minnir á afstæði tímans með leifum af fornu tré frá Hessian-þjóðgarðinum í Þýskalandi en aldurshringirnir í trénu rekja uppruna þess til ársins 1841 og þannig er það hluti af sögu sem er eldri en við öll og tákn þess sem býr í visku tímans. Gestum býðst að setjast á styrkan stól úr gömlum viði og allt um kring eru trjábútar sem virðast hvísla að okkur.
Hamfarir Deborah Butterfield gætu líka verið ábending að hlusta á hvísl náttúrunnar. Hún talar til okkar í gegnum hest, sem lítur út fyrir að hafa sprungið og splundrast yfir gólfið, samansettur úr rekaviði og plastrusli. En hann er hún, sjálfsmynd hennar, og hún talar við okkur í gegnum hann. Ekki er heldur allt sem sýnist í verki Ragnhildar Stefánsdóttur: Í loftinu er búið að varpa upp mynd af konu sem flýtur fallega í sólglitrandi vatni en þegar ég lít niður blasir við tætingsleg dúkka, eins og Barbímúmía, í vatnslaug.
Eitthvað hvílir á fólki
Verksmiðjustjórinn kveðst vera ánægður með hversu vel hefur tekist til í sýningarstjórnun. Ég hef tekið eftir því að breiður hópur dregst að henni, nokkuð sem á ekki við allar sýningar, segir hann. Mér finnst þessi sýning tala til svo margra. Þetta eru auðvitað umhverfismál og þessi tilfinning, að allt sé á hverfandi hveli. Eitthvað sem kannski hvílir á fólki, eitthvað liggur í loftinu, eitthvað sem sýningin virðist fanga.
Nóg er þarna úti til að fanga, hvarflar að mér meðan ég skrifa þessi orð fyrir netmiðil í gamalli síldarvinnslu, blessunarlega laus við netið og þar með stigvaxandi spennuna út af hótunum Trump og Kim Jong-un.
Það er eins og vondu karlarnir í klénni skrípamynd um Kalda stríðið hafi náð völdum, segir Gústav meðan ég hamast við að vélrita. Og það hefur auðvitað áhrif á umhverfismálin, versta sem hægt er að gera er að setja þau á ís, segir hann meira við sjálfan sig. Kaldhæðnislegt orðalag, hugsa ég og fatta samtímis að tilskildum orðafjölda er löngu náð svo greinin má ekki vera lengri. Eitt þó að lokum: Eitthvað er að gerast á Hjalteyri, eitthvað sem er þess virði að sjá ... áður en það verður að einhverju öðru.
Um sýninguna:
Helstu skipuleggjendur sýningarinnar eru Þórdís Alda Sigurðardóttir, Rúrí, Ragnhildur Stefánsdóttir og Anna Eyjólfsdóttir en þær fengu Pari Stave til að stýra sýningunni.
Listamenn: Alex Czetwertynski, Anna Eyjólfsdóttir, Deborah Butterfield, Emma Ulen Klees, Gústav Geir Bollason, Hunter Buck, Jessica Stockholder, John Buck, Kristín Reynisdóttir, Mary Ellen Croteau, Pétur Thomsen, Ragnhildur Stefánsdóttir, Rúrí og Þórdís Alda Sigurðardóttir.