Elvis Presley átti alla tíð erfitt með svefn og aðfaranótt 16. ágúst 1977 var þar engin undantekning. Auk þess var hann illa haldinn af tannpínu en þrátt fyrir að hafa bæði tekið svefnlyf (sem hann gerði alltaf) og verkjalyf kom honum ekki blundur á brá. Um nóttina fór hann til tannlæknisins ásamt unnustu sinni, Ginger Alden. Þegar þau komu til baka gat Elvis ekki sofnað. Eftir að þau Ginger höfðu talað dálitla stund um fyrirhugaða giftingu (sem ekki var búið að dagsetja) tók Elvis bókina „The Scientific Search for the Face of Jesus“ af náttborðinu og sagði við unnustuna „ég fer fram á bað að lesa.“ Hún svaraði „allt í lagi en sofnaðu ekki. Þá var klukkan rétt um hálf tíu, skömmu síðar sofnaði Ginger. Þegar hún vaknaði um klukkan 13.30 var Elvis ekki við hlið hennar. Þegar hún opnaði dyrnar á baðherberginu lá Elvis á gólfinu, með bókina. Ginger kallaði strax á aðstoðarmann Elvis sem reyndi lífgunartilraunir en læknir sem kom fljótlega á staðinn sagði að lífi söngvarans væri lokið. Elvis var fluttur á sjúkrahús en um klukkan 16 þennan sama dag kom Vernon Presley, faðir söngvarans út á tröppurnar við Graceland, þar sem mikill mannfjöldi var samankominn. Vernon mælti fjögur orð „Sonur minn er látinn.“
Þessa frásögn er að finna í bók Ginger Aldin „and Ginger“ sem kom út árið 2014. Hún heldur því fram að mjög margt af því sem sagt hafi verið um síðustu ár söngvarans séu víðs fjarri sannleikanum og hún kannist hreint ekki við margt af því sem komið hefur fram í ótal viðtölum við marga sem þekktu Elvis. Hún segir líka að Elvis hafi átt fáa vini, en margir viðhlæjendur hans hafi verið tilbúnir að tjá sig og þiggja greiðslu fyrir, þegar söngvarinn var látinn.
Ringulreið við útförina
Fréttir af andláti Elvis fóru um allan heim, eins og eldur í sinu. Mikill fjöldi fólks safnaðist saman við Graceland þennan sama dag og þegar söngvarinn var borinn til grafar 18. ágúst voru milli 80 og 90 þúsund manns viðstaddir. Mikil ringulreið ríkti á staðnum og lögreglan átti fullt í fangi með að hafa stjórn á mannfjöldanum. Elvis var jarðsettur við hlið móður sinnar (sem lést 1958) í kirkjugarðinum í Memphis en eftir að reynt var að ræna kistunum tveim vikum eftir jarðarförina voru kisturnar fluttar til Graceland og þar hvílir söngvarinn ásamt foreldrum (faðirinn lést 1979) og föðurömmu. Þar er ennfremur minningarskjöldur um Jesse Garon, tvíburabróður Elvis, en hann lést í fæðingu.
Ótal sögur
Strax eftir andlátið fóru ótal sögur á kreik um dánarorsök söngvarans. Hann hefði látist vegna ofneyslu lyfja, hann hefði haft leyndan hjartagalla, þjáðst af meltingartruflunum sem hefðu að lokum gert út af við hann. Ein sagan sem komst á kreik var á þá leið að þyrla á vegum FBI, bandarísku alríkislögreglunnar hefði komið til Graceland með kistu, sem í var gervilík, og söngvarinn, sprelllifandi, hefði farið með þyrlunni. Orðinn þreyttur á frægðinni og tilbreytingarlausu lífi og einfaldlega látið sig hverfa. Og sögurnar eru fleiri.
En af hverju allar þessar sögur?
Eins og oft gerist þegar þekktir einstaklingar látast, ekki síst fyrir aldur fram, verða sögurnar til. Engum duldist að síðustu mánuðina sem Elvis lifði hafði hann breyst mikið í útliti, þótt röddin væri söm. Hann hafði þyngst mikið, var þrútinn í andliti, sveittur. Tengdist það lyfjaneyslu, ofáti, sjúkdómum?
Eftir krufningu var tilkynnt að dánarorsökin hefði verið hjartaáfall, krufningarskýrslan verður ekki gerð opinber fyrr en árið 2027, þegar fimmtíu ár verða liðin frá dauða söngvarans.
Alinn upp í fátækt
Elvis Aaron Presley fæddist 8. janúar 1935 í fjörutíu fermetra timburhúsi í Tupelo Mississippi. Fjölskyldan var fátæk og faðirinn Vernon stundaði ýmis konar vinnu, móðirin Gladys hugsaði um heimilið og drenginn. Eins og áður sagði lést tvíburabróðir Elvis í fæðingu og Gladys gætti Elvis eins og sjáaldurs augna sinna. Árið 1948 flutti fjölskyldan til Memphis, Gladys var kirkjurækin og í kirkjunni komst Elvis í kynni við gospel tónlistina sem hann hélt mikið uppá alla ævi. Presley hjónin fluttu oft milli húsa í Memphis en alltaf innan sama skólahverfis, vegna sonarins.
Á árshátíð Humes High School 9. apríl 1953 söng Elvis í fyrsta skipti opinberlega, það var lagið „Keep them Cold Icy Fingers Off Of Me“. Hann var klappaður upp og söng þá „Till I Waltz Again With You“. Eftir að náminu lauk, í júní 1953, starfaði Elvis um skeið sem vörubílstjóri.
That´s All Right
Í júlíbyrjun árið 1954 tók Elvis upp plötu (á eigin kostnað) í Sun Records hljóðverinu í Memphis, þar sem hann hafði sumarið áður tekið upp tvö lög, sem hann lét þrykkja á plötu og gaf móður sinni.
Þegar hlé var gert á upptökunni 6. júlí 1954 fóru Elvis og hljóðfæraleikararnir að leika sér með „That´s All Right“, lag sem Elvis þekkti. Útsetning þeirra félaga var mjög breytt frá upphaflegu útgáfunni, mun rokkaðri. Sam Phillips, eigandi hljóðversins, hreifst af flutningnum, sérstaklega söngnum. Hann sagði síðar að hann hefði lengi leitað að hvítum söngvara sem hljómaði eins og þeldökkur og þarna hafði hann fundið söngvara með réttu röddina.
7. júlí, daginn eftir upptökuna var „That´s All Right“ leikið í svæðisútvarpinu WHBQ. Símalínurnar hjá útvarpsstöðinni urðu samstundis rauðglóandi og þáttastjórnandinn varð að spila lagið aftur og aftur, samtals fjórtán sinnum áður en þættinum lauk. Elvis gerði útgáfusamning við Sun Records, grunnurinn að ferli sem ekki á sér margar hliðstæður var lagður. Hjá Sun Records tók Elvis upp tuttugu lög, upptökur tveggja þeirra hafa glatast.
RCA VICTOR og „Heartbreak Hotel“
Síðsumars 1955 gerðist maður að nafni Tom Parker umboðsmaður Elvis. Parker taldi að Elvis þyrfti að komast á samning hjá stóru útgáfufyrirtæki, Sun Records hafði ekki það sem til þurfti, áleit Parker. Í nóvember 1955 keypti RCA útgáfusamninginn sem Sun Records hafði gert við Elvis, upphæðin var sú langhæsta sem nokkru sinni hafði sést vegna slíks samnings. Strax á fyrsta árinu hjá RCA varð Elvis frægur um víða veröld. RCA sá líka til þess, með útgáfu platna, að Elvis gleymdist ekki meðan hann gegndi herþjónustu á síðari hluta sjötta áratugarins
Hér er ekki ætlunin að rekja sögu „kóngsins“, frá vöggu til grafar en þó rétt að nefna að samtals söng hann um 800 lög inná plötur, lék í 33 kvikmyndum (afar misjöfnum að gæðum) hélt 1500 tónleika, 5 þeirra í Kanada, alla hina í Bandaríkjunum. Engar tölur eru til um hve margir tónleikagestir sáu Elvis á tónleikum en talið er að 1,2 milljarðar fólks hafi horft á tónleikana „Aloha from Hawai“ en þetta var fyrsta sjónvarpsútsending sem náði „um víða veröld“.
1 milljarður hljómplatna
Tala seldra platna, geisladiskar meðtaldir, með söng Elvis Presley losar milljarð. Enginn einn listamaður hefur selt annað eins. Hann hefur átt 149 lög á bandaríska Billboard vinsældalistanum og 90 plötur á Hot 100 listanum í Bandaríkjunum.
Graceland og fjölskyldan
Elvis Presley keypti húsið Graceland árið 1957og flutti þangað ásamt foreldrum sínum. Þetta hús var heimili hans til dauðadags. Húsinu var gefið þetta nafn á dögum þrælastríðsins, S.E. Toff sem byggði húsið skírði það eftir dóttur sinni Grace. Núverandi Graceland er að stofni frá 1939 en Elvis lét byggja við það, í áföngum.
Þann 1. maí giftist Elvis Priscillu Ann Wagner. Athöfnin fór fram í Las Vegas og tók heilar átta mínútur. Priscilla er fædd í New York árið 1945. Þau Elvis hittust fyrst í Þýskalandi 1959 þegar Elvis var í hernum, foreldrar Priscillu bjuggu þá í Þýskalandi, faðirinn liðsforingi í bandaríska hernum. Foreldrum Priscillu leist ekki meira en svo á að dóttirin væri að hitta þennan söngvara, sem auk þess væri tíu árum eldri en hún, og vonuðu að þau Elvis og Priscilla myndu gleyma hvort öðru þegar hann færi aftur til Bandaríkjanna. Það fór hinsvegar svo að Priscilla flutti til Graceland, eftir að Vernon Presley hafði lofað að líta til með henni, að beiðni foreldranna. 1. febrúar 1968 fæddist þeirra eina barn, dóttirin Lise Marie. Elvis og Priscilla skildu árið 1973.
Graceland er í dag safn um Elvis Presley, ævi hans og störf. Graceland safnið var opnað 1982 og síðan hafa 20 milljónir heimsótt það. Fyrr á þessu ári var opnuð ný bygging sem tilheyrir safninu.