Gervitunglamyndir úr margra milljón kílómetra fjarlægð frá jörðu sýna glögglega skugga tunglsins frá sólinni færast yfir Norður-Ameríku á mánudag.
Earth Polychromatic Imaging Camera, eða EPIC, náði tólf litmyndum af jörðinni þegar tunglið gekk fyrir sólu og myndaði almyrkva í Norður-Ameríku 21. ágúst. EPIC er um borð í gervinhettinnum Deep Space Climate Observatory, eða DSCOVR, þaðan sem bjarta hlið jarðar er mynduð á hverjum degi.
Myndbandið hér að ofan er frá Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, sem rekur gervihnöttinn. Hann var sendur á sporbaug um sólu árið 2015 og á að rannsaka geimveður og fylgjast með jörðinni. Úr þessari fjarlægð má greina stór verðurkerfi með góðu móti, eins og glöggir lesendur hafa kannski tekið eftir.
Það var 6. júlí 2015 sem DSCOVR sendi fyrstu myndirnar af allri sólarhlið jarðarinnar aftur til vísindamanna hjá NASA. Síðan hefur gervitunglið sent nokkrar myndir á hverjum degi af jörðinni. Þær birtast svo allar á vefnum 12 til 36 klukkustundum eftir að þær eru framkallaðar.
Ásamt því að fylgjast með og taka myndir af jörðinni er DSCOVR-gervihnötturinn mikilvægt tæki fyrir vísindamenn til þess að rannsaka og glöggva sig betur á sólarvindum og geimveðri. Gervihnötturinn er staðsettur á milli sólar og jarðar – í fyrsta Lagrangian-punkti svo notuð séu stjarnfræðileg hugtök – og fær þess vegna fyrst veður af sólgosum eða sólvindum, áður en þeir lenda á jörðinni.
Hægt er að skoða allar myndirnar af jörðinni á sérstökum undirvef NASA fyrir DSCOVR-gervihnöttinn.