Elfar Logi Hannesson, höfundur Einleikjasögu Íslands, hefur verið með einleiki á heilanum allt frá því hann lenti óvænt í því að leika einn. Eftir að Elfar flutti aftur vestur eftir erfiða sambúð við Reykjavík þá tók hann litla leikhúsið sitt með sér, Kómedíuleikhúsið og hugðist starfrækja það þar vestra. En þegar þangað var komið komst hann að því að hann var eini atvinnuleikarinn búandi á Vestfjörðum og því kom ekkert annað til greina en að setja upp einleik.
Síðan hefur Elfar Logi nánast ávallt verið einn á sviðinu. Árið 2004 stofnaði hann Act alone einleikjahátíðina sem hefur verið haldin árlega síðan og er nú orðin ein vinsælasta listahátíð landsbyggðarinnar. Tilgangur hátíðarinnar er fyrst og fremst sá að kynna hið einstaka einleikjaform fyrir landanum sem og gestum er sækja okkur heim. Kómedíuleikhúsið er útgefandi Einleikjasögu Íslands og er fyrsta og eina atvinnuleikhús Vestfjarða. Leikhúsið hefur sett upp um 40 leikverk þeirra þekktust eru Gíslarnir tveir, Gísli Súrsson og Gísli á Uppsölum. Svo segja má að Kómedían sé í Gíslatöku og unnir því bara vel. Kjarninn hitti Elfar Loga og tók hann tali.
Hvaða merkingu hefur það að skrá sögu einleikja á Íslandi?
„Einleikurinn hefur sannlega verið partur af hinum íslenska listalífi líklega bara alveg frá landnámi. Vissulega hefst einleikjasagan íslenska strax þegar land byggðist því eins og við vitum þá er lífið ekki bara saltfiskur og puð, eitthvað verður nú að hafa til skemmtan til að komast í gegnum 24 stundirnar. Þá sem nú var ávallt einn, ef ekki fleiri, sem var meira fyrir það að leika en að vinna. Féll það einmitt í hins leikglaða að hafa ofan af fyrir blessuðu fólkinu að dagstriti loknu segja þeim sögur, kvæði, syngja og spila.
Með þessum hætti varðveittust einmitt Íslendingasögurnar, sagðar kynslóð fram af kynslóð, þar til þær voru loks skráðar á bókfell. Þrátt fyrir langa og einstaka sögu einleikjalistarinnar á Íslandi hefur ekki mikið fyrir henni farið og kannski einkum vegna þess að aðeins einn leikari er í hverju verki og fá því leikirnir jafnan minna umtal og fjölmiðla athygli en hinn mannfrekari leikverk.
Það var því ekkert annað að gera en að einleikari færi bara í það að skrá söguna og hefur sú vinna staðið yfir í líklega áratug og er nú tilbúin. Nú er bara að vona að við náum fullu húsi í Karolina fund söfnun okkar annars náum við ekki að styðja og prenta og bókin fær ekki fætur. En við lifum ekki bara í draumi heldur í voninni og erum bjartsýn.“
Eru til mismunandi gerðir einleikja?
„Einleikurinn er sannarlega fjölbreytt listform þó margir telji kannski í fyrstu þetta vera einhæft og einfalt. Það er einleikurinn akkúrat ekki. Eina reglan er að það sé aðeins einn leikari, listamaður, á senunni, allt hitt er opið. Þannig getur einleikurinn verið einfalt sögumannsverk yfir í það að vera uppistand og allt í hátæknilegt dramatískt verk. Inn í þetta getur fléttast dans, tónlist og ég veit ekki hvað. Möguleikarnir eru svo margir það er bara að láta hugann fara á flug. Ef svo skemmtilega vill til að ef Einleikjasagan kemur út, nú vantar aðeins 53. prósentur uppá að ræsa prentvélar, þ.e. þegar þessu er svarað, þá má lesa hve fjölbreyttur einleikurinn er. Í bókinni er sagt frá sagnamönnum fyrstu aldar, frá förueinleikurum sem flökkuðu á milli bæja og skemmtu fólki og fengu að launum mat og bedda. Einnig er sagt frá sýniseinleikurum þ.e. listamönnum sem hafa verið til sýnis má þar nefna Jóhann risa Pétursson og loks fer sagan inn í leikhúsið þar sem einleikurinn hefur átt sífellt meiri vinsælda að fagna einkum hin seinni ár.“
Að hvaða leyti er einleikur öðruvísi sýning en sú sem inniheldur fleiri leikara?
„Þetta er sannarlega góð spurning. Munurinn felst í raun í nokkrum orðum svarsins. Eini munurinn er sá að það er aðeins einn leikari á sviðinu í stað fleiri. Já, ég veit þetta er alveg einleikið en samt alveg satt.“