Tvær stærstu stjörnur nútímans í bardagaheiminum mætast í hnefaleikabardaga í nótt. Hinn bandaríski Floyd Mayweather er margfaldur meistari í hnefaleikum, er ósigraður í 49 bardögum í röð og snýr aftur í hringinn eftir að hafa hætt hnefaleikum fyrir tveimur árum. Hinn írski Connor McGregor er heitasta nafnið í blönduðum bardagalistum og hefur aldrei keppt í hnefaleikum áður.
„Þetta er bókstaflega lang stærsti bardagi sem hefur verið stillt upp,“ segir Dana White, stofnandi og eigandi UFC-bardagadeildarinnar sem Gunnar Nelson keppir meðal annars í eins og Connor McGregor.
Aðdragandinn og hugmyndin um bardaga milli margfalds sigurvegar úr hnefaleikum og kjaftfors UFC-bardagakappa hljómar frekar eins og viðfangsefni Hollywood-kvikmynda. Kvikmyndir þar sem viðfangsefnið er barátta tveggja hetja úr mismunandi veruleika hafa auðvitað verið gerðar. Nægir að nefna Alien vs. Predator, Batman vs. Superman og Avengers-myndirnar eins og þær leggja sig. Á Wikipediu má jafnvel finna heilan flokk um slíkar kvikmyndir.
Bardaginn hefst eftir miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 27. ágúst í Las Vegas í Bandaríkjunum. Gert er ráð fyrir að áhorf á bardagann í sjónvarpi muni slá öll met, enda virðast mörkin milli veruleika og skáldskapar nokkuð óljós í þessu öllu saman.
Bara fyrir þátttöku í bardaganum er búist við að hvor um sig þéni um 100 milljónir Bandaríkjadala, eða því sem nemur um það bil 11 milljörðum íslenskra króna. Þannig að það eru í það minnsta tveir sem telja hugmyndina um bardagann góða.
Boxreglurnar
Bardaginn verður háður með hnefaleikareglum. Það þýðir að Connor McGregor þarf að binda á sig boxhanska, má ekki sparka, glíma eða kýla fyrir neðan belti. Bardaginn verður háður í tólf þriggja mínútna lotum, í stað þriggja fimm mínútna lota í UFC. Floyd Maywether er þess vegna á heimavelli, ef svo má segja.
Boxarar telja þess vegna McGregor ekki eiga eftir að eiga mikinn séns í hinn ósigraða Mayweather. Þrátt fyrir að hafa ekki sigrað oft með rothöggi í seinni tíð þá er Mayweather einhver tæknilegasti hnefaleikakappi allra tíma. Hann er þekktur fyrir að rannsaka bardagastíl keppinauta sinna vel fyrir og í bardaga, verjast og vinna á stigamun.
Þar telja stuðningsmenn McGregor sinn mann geta haft yfirhöndina. McGregor hefur aldrei háð hnefaleikabardaga svo það er lítið fyrir Mayweather að rannsaka fyrr en í hringinn er komið. McGregor er jafnframt ellefu árum yngri en Mayweather, sem færir Íranum auðvitað örlítið forskot.
Þess vegna telja sepkúlantar að McGregor muni mæta nokkuð kröftuglega til leiks og reyna að lenda rothöggi á Mayweather áður en hnefaleikahetjan fær tækifæri til þess að draga fram trompin sín. Bardaginn mun þess vegna aðeins standa í fáeinar lotur, ef McGregor fær að ráða.
McGregor er einnig með stærri faðm, hann er hærri og þyngri.
Undirbúningurinn
Bardaginn hefur verið í undirbúningi í marga mánuði. Kapparnir hafa skipst á fúkyrðum í fjölmiðlum og samið um skiptingu þeirra peninga sem bardaginn mun afla. Um leið hafa þeir æft að kappi enda verður þetta eflaust bardagi lífs þeirra.
Í það minnsta upplifir Connor McGregor þetta þannig.
Mayweather hefur látið sjá sig á skemmtistöðum undanfarið og látið eins og hann sé ekkert endilega að stressa sig mikið á þessu. Á sama tíma hefur McGregor ákveðið að einbeita sér að eigin styrkleikum og ákvað snemma í ferlinu að ráða ekki hnefaleikaþjálfara í teymið sitt.
„Ég er ekki hræddur við Connor McGregor,“ hefur Mayweather látið hafa eftir sér á meðan hann borðar hamborgara frá Burger King. „Það hefur enginn fundið bardagamann sem getur unnið mig.“
„Ég ætla að rota hann. Hann er bara of lítill. Ég veit að hann er hraður, ég veit að hann er kvikur og ég veit að hann er reyndur. Mér er alveg sama. Ég slæ þig, þú fellur,“ hefur McGregor látið hafa eftir sér drekkandi kaffi.
Hver vinnur?
Það er auðvitað ómögulegt að segja til hver muni standa uppi sem sigurvegari eftir þennan bardaga. Báðir hafa sína kosti og sína galla.
Í sérstakri könnun sem Google framkvæmir nú meðal þeirra sem leita að upplýsingum um bardagann í leitarvélinni kemur fram að meirihluti netverja telur McGregor eiga eftir að standa uppi sem sigurvegara, eða 56 prósent. Veðbankar telja Mayweather eiga eftir að vinna bardagann. Hann fær líkurnar 2/9 á sigri. McGregor fær líkurnar 10/3.