Skammt er stórra högga á milli í náttúruhamförum um allan heim þessa dagana. Skemmst er að minnast fellibyljanna Irmu og Harveys sem hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu við Mexíkóflóa og í Karíbahafi, og jarðskjálftans sem skók Mexíkó. Í öllum þessum tilfellum hafa tugir látið lífið og milljónir hafa hrakist frá heimilum sínum.
Þrátt fyrir að ótækt sé að tala niður þá harmleiki og þjáningar sem fórnarlömb síðustu vikna hafa liðið, þá bliknar mannfallið engu að síður í samanburði við mannskæðustu atvik sögunnar.
Vagga kínverskrar menningar
Gulafljót (Huang He) er annað lengsta fljót Kína, á eftir Jangtse (Bláá). Það á upptök sín á hásléttum Tíbet og liggur svo um tæplega 5.500 km leið niður í Gulahaf í norðurhluta landsins.
Fljótið dregur nafn sitt af gulleitum framburði þess, sem nemur um 1,6 milljarði tonna árlega, en líkt og Níl í Egyptalandi hefur Gulafljót oft verið kallað „vagga kínverskrar menningar“ þar sem samfélög mynduðust víða eftir farvegi þess í fyrndinni. Nú séð það á annað hundrað milljónum manna fyrir vatni og á vatnasvæði fljótsins búa um 400 milljónir manna.
Fljótinu hefur um aldir alda verið hætt við flóðum með tilheyrandi ógnum við menn, mannvirki og ræktarland og hafa íbúar og stjórnvöld lagt mikið í að byggja upp stíflur, skurði og flóðgarða til að koma böndum á þetta mikla ólíkindatól.
Þær aðgerðir, og raunar hinn gríðarlegi framburður sem byggir upp náttúrulega garða, hefur hins vegar haft þær afleiðingar að víða stendur fljótið upp fyrir nærliggjandi landsvæði, sem býður flóðahættunni enn frekar heim. Gulafljót gengur enda stundum undir nafninu „Sorgarfljótið“, sem er skiljanlegt miðað við hvað hefur gengið á.
Þrjú hamfaraflóð á um hálfri öld
Saga Gulafljóts gerir ráð fyrir um það bil einu hamfaraflóði á öld, en árin frá 1887 til 1938 voru sérlega slæm að þessu leyti þar sem ekki færri en þrjú meiriháttar flóð áttu sér stað með gríðarlega alvarlegum afleiðingum.
Hið fyrsta af þessum þremur átti sér stað í september árið 1887. Þá hafði mikil úrkoma orðið þess valdandi að miklir vatnavextir urðu í fljótinu. Eins og svo oft áður, rofnaði flóðgarður, að þessu sinni nálægt borginni Sjengsú í Henan-héraði. Vatnið og aurinn sem því fylgdi, dreifðust fljótt um nærliggjandi svæði, alls um 130.000 ferkílómetra, sem er talsvert meira en Ísland að flatarmáli. Milljónir manna misstu heimili sín og um 900.000 létust. Enn fleiri fórust á næstu mánuðum, þar sem ræktarland skemmdist og farsóttir geisuðu.
Flóðið 1938 var að öðrum meiði þar sem það var af manna völdum. Japanski herinn réðist inn í Kína árið 1937 og lagði fljótt undir sig stór landsvæði. Yfirvöld, undir stjórn Chiang Kai-shek, afréðu að rjúfa flóðgarð Gulafljóts (aftur nálægt Sjengsú) til að hamla yfirreið innrásarhersins. Afleiðingarnar voru fyrirséðar, tugsþúsundir fermetra ræktarlands fóru undir vatn, milljónir hröktust frá heimilum sínum og gríðarlegur fjöldi fólks lést. Að vísu ber heimildum ekki saman um hversu margir létust þar sem kommúnistastjórnin sem síðar tók við, vildi meina að um 800-900.000 hefðu látist, en líklegra er að talan hafði verið nokkru lægri, e.t.v. um 400-500.000 manns, sem er engu að síður með verri hamförum síðustu aldar. Þessi aðgerð hafði annars lítil áhrif á framgang Japana, en varð aldeilis vatn á myllu kommúnista sem nýttu sér óánægju íbúa með stjórnvöld sem fórnuðu lífum fjölskyldumeðlima og nágranna, og fundu málstað sínum auðugan jarðveg á flóðasvæðunum með vel kunnum afleiðingum.
Versta flóðið varð þó árið 1931.
Aðstæður voru hinar verstu í aðdragandanum. Í tvö ár hafði ríkt mikill þurrkur um gervallt Kína og farvegir stærstu ánna höfðu þornað upp að miklu leyti. Þá gengu yfir stórkostlegar rigningar á upptökusvæðum þriggja stærstu fljótanna í Kína, Jangtse, Gulafljóts og Huaí, og vatnavextir voru fordæmalausir. Flóðgarðar rofnuðu víða og vatn og aurframburður flæddi yfir mikinn hluta Mið-Kína Flóðin rénuðu hins vegar ekki í marga mánuði þannig að búsetusvæði um 50 milljóna manna, sem jafngilti um 170.000 ferkílómetrum, voru meira eða minna undir vatni.
Eins og gefur að skilja er erfitt að henda reiður á hversu margir létust í þessum hörmungum, meðal annars þar sem átök geisuðu milli kommúnista og stjórnvalda, en áætlað er að í flóðunum hafi á fjórðu milljón manna látið lífið þetta sumar, og líf tug milljóna fór úr skorðum.
Eftir að borgarastyrjöldinni í Kína lauk með sigri kommúnista og stöðugleiki komst á stjórn landsins var loks lagt í umbætur á flóðavörnum við Gulafljót og hafa því ekki orðið nein meiriháttar mannskæð flóð síðustu áratugina. Þó er aldrei hægt að útiloka að meiriháttar ofankoma og flóð geti valdið usla, og allan ársins hring er unnið að því að hreinsa framburð Gulafljót til að fyrirbyggja uppsöfnum þess og þær hörmungar sem gætu fylgt.