Lengi hefur verið þrýst á um að kona fái sess á bandarískum seðlum. Í fyrra var ákveðið að baráttukonan Harriet Tubman færi á næstu útgáfu 20$ seðilsins, en þær fyrirætlanir eru í uppnámi á meðan núverandi forseti er við völd.
Bandaríkjadalur er sennilega það sem kemst næst því að heita alþjóðlegur gjaldmiðill. Varla er sá staður á jarðríki sem „bucks“ eru ekki gjaldgengir og „greenbacks“, eins og dollaraseðlar eru oft kallaðir, eru nokkurs konar alþjóðlegt tákn fyrir peninga.
Félagsskapurinn á þessum seðlum er frekar einsleitur – jafnvel fábreyttur – þar sem þar eru á fleti sjö karlar, ýmist forsetar eða hluti af hópi „Landsfeðranna“. Elstur er fræðimaðurinn og sjálfstæðisforkólfurinn Benjamin Franklin, sem fæddist 1706 og prýðir 100$ seðilinn. Yngsti meðlimurinn er hins vegar Ulysses S. Grant, sem er á 50$ seðlinum, en hann var herforingi í borgarastyrjöldinni og síðar forseti og lést 1885. Þar á milli eru George Washington (f. 1782), fyrsti forseti lýðveldisins, sem er á 1$ seðlinum, Abraham Lincoln á 5$, Alexander Hamilton, fyrsti fjármálaráðherra Bandaríkjanna, á 10$, Andrew Jackson á 20$ og – nokkuð sem er flestum ókunnugum dulið – Thomas Jefferson á 2$ seðlinum. (Síðastnefndi seðillinn er afar lítið notaður meðal almennings.)
(Þess ber þó að geta að enn eru í umferð fullgild eintök af stærri seðlum, 500$, 1.000$, 5.000$ og 10.000$, en þeir hafa ekki verið prentaðir frá 1934 og eru því afar lítið notaðir. Þess utan er fyrirsætugalleríið þar sótt í sama pott, þrír forsetar og einn fjármálaráðherra, allir frá 19. öld.)
Þessi uppstilling hefur haldist óbreytt í hartnær öld þrátt fyrir að breytingar hafi vissulega komið til tals.
Umdeildur forseti settur af seðli
Í tíð Baracks Obama á forsetastóli fór að rofa til í þessum málum. Í júní 2015 hóf fjármálaráðuneytið vinnu við að koma konu á seðil. Fyrst var talað um 10$ seðilinn, en mörgum fannst illa að Hamilton vegið með því, enda er hann allt að því skilgetinn faðir bandaríska efnahagskerfisins (og varla hefur spillt fyrir hans málstað að í upphafi þess árs sló söngleikur, byggður á ævi hans, rækilega í gegn á Broadway og lyfti nafni hans upp í áður óþekktar hæðir.)
Hins vegar voru fáir að fara að rísa upp til varnar fyrir Jackson sem var á 20$, enda var hann um flest frekar ósjarmerandi persónuleiki, harður og durtslegur herforingi sem hefur verið afar umdeildur síðustu áratugina. Hans er nú helst minnst fyrir að hafa fyrirskipað brottrekstur frumbyggja, meðal annars af Cherokee- og Seminólaættum, frá löndum sínum í Suðaustri, vestur yfir Mississippi-fljótið til að rýma fyrir landtöku hvítra manna. Þessi feigðarför reif tugi þúsunda upp með rótum og þúsundir létust á leiðinni.
Þannig tilkynnti Jack Lew, fjármálaráðherra Obama-stjórnarinnar, þá ákvörðun um mitt síðasta ár, að baráttukonan Harriet Tubman hefði verið valin til þess að prýða nýjan 20$ seðil sem yrði kynntur árið 2020 og komið í umferð á árunum eftir það.
Baráttukona í húð og hár
En hver var Harriet Tubman og hvað afrekaði hún til að eiga heima á stalli með hinum háu herrum í seðlagenginu (pun intended) með forsetum og ráðherrunum fyrri alda?
Alveg hreint fjölmargt, þegar að er gáð.
Tubman fæddist í ánauð í Marylandríki einhvern tíma í kringum árið 1820. Hún vann fyrst á heimili „eigenda“ sinna og síðar á ökrunum. Árið 1849 flúði hún úr ánauðinni og komst við ramman leik til Philadelphiu, um 150 km leið, þar sem hún fékk vinnu og kom sér fyrir. Haft er eftir henni að þegar hún komst yfir ríkismörkin til Pennsylvaniu hafi hellst yfir hana mikill léttir. „Ég horfði í hendur mér til að athuga hvort ég væri ennþá sama manneskjan. Það var svo mikil dýrð yfir öllu; gylltir sólargeislar bárust gegnum trén og yfir akrana og mér fannst eins og ég væri komin til himnaríkis.“
Hún lét sér ekki nægja að hafa höndlað eigið frelsi, heldur hélt aftur suður á bóginn árið eftir og frelsaði systur sína og börn hennar úr þrældómi, og síðar bróður sinn og fleiri. Næstu tíu árin fór hún alls nítján ferðir og frelsaði hundruð blökkumanna úr þrældómi. Hún var einn af forsprökkunum í Underground Railroad, félagsskap sem vann ötullega að því að ferja þræla úr ánauð til norðurríkjanna, og jafnvel allt til Kanada. Hún varð fljótt þekkt meðal þrælahaldara, sem settu fé til höfuðs hennar.
Upp úr 1860 þegar mótstaðan gegn þrælahaldi í Bandaríkjunum fór á flug fyrir alvöru tók hún virkan þátt í því starfi og eftir að borgarastyrjöldin braust út gerðist hún njósnari fyrir her sambandssinna.
Tubman var ekki bara umhugað um réttindi þræla, heldur vann hún líka ötullega að réttindum kvenna og fór víða til að tala fyrir kosningarétti kvenna, í samvinnu við þekktar súffragettur líkt og Susan B. Anthony.
Tubman lést í hárri elli árið 1913, umkringd ástvinum, en hún hafði verið mjög veik síðustu árin, sem mátti rekja til ofbeldis sem hún mátti þola á árunum í þrældómi.
Hún skildi eftir sig stórmerkilegt ævistarf sem annar frumkvöðull í réttindabaráttu blökkumanna, Barack Obama, hafði hug á að viðurkenna með ofangreindum heiðri. Jackson hefði mögulega fengið að vera áfram á bakhlið seðilsins.
Bakslagið
Þá gerist hið óvænta. Donald nokkur Trump er kjörinn forseti Bandaríkjanna og ekki hið einasta er hann borinn til embættis á höndum fólks sem er síst gefið um blökkufólk og aðra minnihlutahópa, heldur er hann beinlínis – og viðbúið – talsverður aðdáandi Jacksons, sem Tubman hefði rutt úr rúmi. Hann hengdi upp málverk af Jackson í skrifstofu forseta og skemmst er líka að minnast samhengislausrar lofrullu Trumps um Jackson fyrr á árinu, sem studdist ekki nema að takmörkuðu leyti við veruleikann eins og flest fólk skynjar hann.
Þannig er kvenpeningur í Bandaríkjunum kominn á bið, um stundarsakir hið minnsta. Steve Mnuchin, núverandi fjármálaráðherra sagði í síðasta mánuði að ekkert lægi fyrir um hvort unnið verði áfram í málinu. Fleiri og meira aðkallandi verkefni lægju fyrir stjórnvöldum þessi dægrin. Trump sjálfur útilokaði ekki – fyrir kosningar, vel að merkja – að Tubman fengi einhvern tíma sess á seðli, en hann væri ekki tilbúinn að láta Jackson víkja.
Mögulega yrði hún sett á 2$ seðilinn.
„Það væri meira við hæfi.“