Oft og tíðum vill umræðan um heilbrigðiskerfið okkar verða svolítið neikvæð. Allt of sjaldan rekst maður á fréttir sem hæla kerfinu eða einfaldlega gefa því einkunn á hlutlausan máta. Svo virðist sem það sé auðveldara (eða skemmtilegra) að benda á það sem illa fer. Í von um að rétta umræðuna aðeins af hef ég tekið saman tvær staðreyndir um íslenskt heilbrigðiskerfi.
Staðreynd 1: Íslendingar lifa löngu og heilbrigðu lífi
Einstaklingur sem fæddist á Íslandi um aldamótin mátti búast við því að lifa í um það bil 80 ár. Síðan þá hafa lífslíkur íslenskra barna aukist um meira en 70 daga ár hvert og einstaklingur sem fæddist árið 2015 mátti þá búast við því að verða um það bil 83 ára. Það er rúmlega 11 árum meira en meðaleinstaklingur utan Íslands má búast við.
Í nágrannalöndum okkar, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi, má finna einhver best reknu heilbrigðiskerfi í heiminum. En þegar kemur að því að lengja lífsskeið okkar gefur íslenska kerfið þessum þjóðum ekkert eftir. Staðreyndin er sú að Íslendingur sem fæðist í dag má búast við því að lifa jafnlengi og börn Svía og Norðmanna – og mikið lengur en börn Dana og Finna.
Hvað varðar gæði þessara 83 ára þá gefa tölur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til kynna að í 73 ár verði þessir einstaklingar við góða heilsu (10 árum lengur en aðrir jarðarbúar að meðaltali). Ekki nóg með það heldur má Íslendingur sem fæddist árið 2015 má búast við því að vera heilbrigður í meira en ár eftir að danskur jafnaldri hans missir heilsuna.
Staðreynd 2: Íslendingar reka ódýrt heilbrigðiskerfi
Á árunum 2010 til 2016 mældist kostnaður Íslendinga við heilbrigðiskerfið að meðaltali um 8,7% af landsframleiðslu. Ríkið sér um að greiða fyrir 80% af þessum kostnaði og yfir sama tímabil hefur um það bil 18% af útgjöldum ríkisins verið varið til heilbrigðismála.
Þó þessar tölur kunni að hljóma háar, er staðreyndin samt sú að í samanburði við nágrannaþjóðir okkar erum við nokkuð sparsöm. Yfir sama tímabil notuðust bæði Svíar og Danir við meira en 10% af sinni landsframeiðslu til að borga fyrir heilbrigðismál (að meðaltali).
Sparsemi Íslendinga má líka sjá þegar skoðaðar eru útgjaldatölur á mann (heildarútgjöld deilt með mannfjölda, með tilliti til verðlags). Að meðaltali á árunum 2010–2016 greiddu Finnar jafn mikið og Íslendingar; Svíar og Danir borguðu fjórðungi meira; og Norðmenn borguðu helmingi meira á mann fyrir sína þjónustu.
Bónus staðreynd: Íslendingar reka skilvirkt kerfi
Þegar við skoðum kostnað og heilbrigðisútkomur saman getum við talað um það sem hagfræðingar kalla gjarnan skilvirkni. Skilvirkni er mikilvægt hugtak í þessu samhengi af því að það segir okkur hversu góða þjónustu við fáum fyrir þann pening sem við leggjum inn í kerfið.
Samkvæmt þessum tölum hér að ofan borga Íslendingar minnst af öllum Norðurlandaþjóðunum fyrir heilbrigðismál. Þrátt fyrir það lifa Íslendingar lengur og njóta fleiri ára við góða heilsu en aðrir Norðurlandabúar. Þar af leiðandi, í samanburði við bestu kerfi heimsins, má segja að er kerfið okkar sé skilvirkt og þar af leiðandi nokkuð gott. Sem er ekki slæmt.