Flest látum við okkur dreyma um að ferðast. Heimsækja staðina sem við höfum heyrt nefnda og kannski velt fyrir okkur um stund hvernig gætu litið út, staðir sem hafa framandleg heiti eins og Ouagadougou eða Gondar: hvernig ætli sé að vera þar?
Halldór Friðrik Þorsteinsson lét ekki þessar hugsanir nægja, heldur hélt af stað. Í hálft ár ferðaðist hann frá vesturströnd Afríku austur á bóginn og síðan suður að syðsta odda álfunnar.
Á leiðinni hitti hann fyrir fjölskrúðuga flóru fólks sem fæst við allt frá frönskukennslu til pálmavínbruggs, frá sölu fórnardýra til leigubílaaksturs.
Hann heyrir af vonum og væntingum íbúa þessarar miklu álfu og stendur sjálfur á hæsta tindi hennar og skyggnist yfir. Heiti bókarinnar, Rétt undir sólinni, er fengið úr frásögn Jóns Indíafara sem sigldi framhjá Afríku á leið sinni austur á bóginn fyrir 400 árum. „Þótt þekkingu okkar á löndum heims hafi auðvitað stórfleygt fram frá því að Jón sagði Íslendingum frá furðum heimsins, minnir titillinn á að þrátt fyrir allt skiljum við heiminn best þegar við heyrum sögur sem taka mið af því lífi sem við lifum sjálf. Tónn bókarinnar er geðþekkur, jarðbundinn og yfirlætislaus. Það er hvergi dregin fjöður yfir þau fjölmörgu vandamál sem steðja að íbúum Afríku en við erum líka minnt á að álfan er stór og menningarheimar hennar margir, og þeir eru forvitnilegir og heillandi,“ segir í umsögn útgefanda.
Halldór Friðrik Þorsteinsson er menntaður í heimspeki og viðskiptum og starfaði við verðbréfamiðlun um árabil. Hann hefur á undanförnum árum ferðast vítt og breitt um heiminn, yfir Asíu og Afríku og Suður- og Mið-Ameríku.
Rétt undir sólinni er fyrsta bók hans, og gefin út af Crymogeu.
Hér að neðan fer einn kafli úr bókinni, þar sem gripið er niður í ferðir Halldórs um Afríku. Bókin kemur formlega út á morgun, 5. október.
-------
Marel í Accra
Höfuðborg Gana, Accra, fengi seint fegurðarverðlaun, ekki frekar en aðrar afrískar borgir. Fjölskrúðugt mannlífið og strandlengjan bæta það upp. Ég tékka inn á Palómahótelið, snyrtilegt hótel á góðum stað, og rölti um nágrennið. Finn leigubílaþjónustu á vegum hótelsins og kanna verð á bíl og bílstjóra. Umsjónarmaðurinn, Alex, er geðugasti maður í fallegri síðerma skyrtu. Í miðjum samningaviðræðum verður mér litið á skyrtubrjóstið. Þar stendur rauðum stöfum með kunnuglegu vörumerki: Marel Food System. Já, litli heimur! Fatasöfnun Rauða krossins er greinilega að skila sér. Ég segi honum í óspurðum fréttum að faðir minn hafi verið fyrsti stjórnarformaður fyrirtækisins. Samningar nást. Á röltinu um nærliggjandi hverfi blasir fátæktin við í sinni ljósustu mynd. Hreysi við hreysi, morandi mannlíf og allir að sýsla eitthvað í sinni litlu veröld, sem er full af ærslum og gleði. Svo snýr maður til baka á hótelherbergið þar sem nóttin kostar á við árstekjur hjá fólkinu handan við hornið og spyr sig: Er ekki eitthvað bogið við þetta allt saman? Eða stóð kannski svarið á skyrtubrjóstinu fyrr um daginn? Er ekki menntun og þekking ásamt auknum viðskiptum lykillinn að því að bæta þetta? Í fyllingu tímans.
Messað yfir mér
Á leiðinni í sunnudagsmessu klukkan sjö að morgni er kallað til mín yfir götuna: Hey, Mr. White, whassup? Í næstu malargötu eru karlmenn í fótbolta. Kirkjubyggingin er nýleg og stór. Hvítasunnusöfnuðir eru í örustum vexti í landinu, með tvær milljónir meðlima. Þeir rekja sig til írska trúboðans James McKeown sem kom til Gana 1937 á vegum bresku postulakirkjunnar. Flokkadrættir gerjuðust, McKeown hélt velli og stofnaði eigin söfnuð. Salurinn er gímald, hér er allt fyrsta flokks, sætin eins og í bíósal, stórir sjónvarpsskjáir og mikill hljómbúnaður. Full kirkja, 500 manns. Ég fæ mér sæti og bókartitlinum Svört messa skýtur upp í huga mér. Ég er hvítur hrafn. Presturinn, Pétur að nafni, kemur fljótlega aðvífandi í teinóttum jakkafötum og heilsar upp á mig. Heldur yfir mér tölu um kjarnann í trúnni sem ég gríp ekki alveg en skilst þó að hann hafi snúið einum múslíma fyrir skemmstu. Pétur þjónaði áður í norðurhluta Gana þar sem hann segir að ríki villutrú og galdrar.
− Það hljómar spennandi, segi ég. Pétur hváir. Síðan hefst messuhaldið með presti, þremur söngvurum og sex manna hljómsveit sem er í glerbúri til hliðar við altarissviðið. Byrjunin er ærandi hallelúja-söngur, fólk hoppar og syngur, veifar vasaklútum. Pétur prestur leiðir með skerandi hrópum og kirkjugestir bylgjast í hreyfingum fagnaðarins. Þessu slotar eftir dágóða stund, fólk kemur upp á svið eitt af öðru og segir sögur af veikindum ættingja sinna og fær viðbrögð í samúðarstunum úr sal. Einn segir af getnaði sem heppnaðist óvænt fyrir tilstilli almættisins. Þá tekur hljómsveitin við og hávær múgsefjunarsöngur. Pétur prestur stendur afsíðis og virðist ekki nenna þessu lengur. Fólk fellur í gólfið, baðar út höndum. Hátalarar ískra, hljóðhimnur strekkjast. Svo lækkar þetta og hefst þá peningasöfnun þar sem fólk kemur dansandi inn á sviðið og stingur seðlum í stóran söfnunarkassa á hjólum.
Þegar búið er að plokka söfnuðinn er komið að predikun dagsins sem fjallar um væntingar eiginkonunnar til eiginmannsins. Að henni lokinni koma eiginkonur, hver af annarri og lýsa reynslu sinni. Ein þeirra segir karlmenn vera stöðugt blaðrandi utan heimilis en svo sé ekki hægt að draga stakt orð upp úr þeim þegar þeir eru heima hjá sér. Sú lýsing fellur í góðan jarðveg. Hljóðnemi gengur um salinn og sögur af sambúð kynjanna koma á færibandi, með reglulegum hlátrasköllum úr sal. Eftir þriggja stunda messu held ég heim á hótel, uppveðraður eins og eftir góða leiksýningu og fátæktin allt í kringum mig hefur skipt litum.
Andófsmaður
Þegar Gullströndin fékk sjálfstæði fyrst Afríkuríkja 1957 og endurvakti 11. aldar gullaldarnafngift, Gana, voru miklar vonir bundnar við þetta nýfrjálsa ríki. Fyrrum fangi og frelsishetja, Kwame Nkrumah, varð forsætisráðherra og naut heimsathygli fyrir aðsópsmikla framkomu. En hann fór offari, landið sökk í skuldafen og níu árum eftir sjálfstæði var það komið á heljarþröm. Nkrumah var steypt af stóli. Við tóku erfið ár þar sem herinn réð ríkjum. Árið 1979 kom inn á hið pólitíska svið flugmaður í hernum, Jerry Rawlings, hálfur Gani, hálfur Skoti. Hann talaði máli alþýðunnar, ögraði hernum og stóð fyrir aftöku nokkurra valdamanna. Rawlings stjórnaði með harðri hendi í 18 ár, bannaði aðra flokka og sendi andófsmenn í fangelsi. Einn þeirra heitir Kwame Pianim.
Í úthverfi Accra býr Kwame Pianim ásamt hollenskri konu sinni. Hann kom til Reykjavíkur árið 1994 á þing frjálslyndra stjórnmálaflokka og kynntist nokkrum Íslendingum, þar á meðal föður mínum. Þá var Pianim nýlega laus eftir tíu ára fangelsisvist, sakaður um valdaránstilraun. Hann situr á móti mér með grásprengt hár, virðulegt yfirbragð. Menntaður í hagfræði frá Yale og hefur verið áberandi í stjórnmála- og viðskiptalífi Gana undanfarna áratugi. Hann segir að sér hafi verið varpað í fangelsi vegna stjórnarandstöðu sem hafi verið fyllilega lögmæt. Ég spyr hvernig sú reynsla hafi verið.
− Það var erfitt, fyrsti dagurinn, fyrsta vikan, fyrsti mánuðurinn, fyrsta árið. Svo aðlagast maður. Ég átti góða fjölskyldu. Ég sat ekki auðum höndum í fangelsinu heldur fékk ég leyfi til að rækta grænmeti og fékk styrk frá kaþólsku kirkjunni til að koma því á legg. Í lokin hafði sú ræktun skilað ríflega 100 milljónum króna inn á bankabók fangelsisins. Þá var ég færður um set til Elmina sem er við ströndina. Ég fékk nunnur til að lána fangelsinu fyrir bát sem kostaði 30 milljónir og við fórum í útgerð sem borgaði bátinn upp á sex mánuðum. Við náðum að fæða fangelsið og afganginn seldum við á markaði. Fangelsisvistin betraði mig sem einstakling, jafnvel þótt mér blöskraði að sitja inni fyrir óréttmætar sakir. Ég kom út betri maður. Ég kynntist því líka hvernig saklaust fátækt fólk situr inni eftir óréttláta málsmeðferð og fær enga lögfræðiaðstoð. Það er sárt að horfa upp á.
Undanfarin ár hefur Pianim verið atkvæðamikill í atvinnulífinu í Gana og beitt sér fyrir ýmisskonar nýsköpun. Synir hans starfa í London og annar þeirra var giftur dóttur fjölmiðlamógúlsins Róberts Murdoch.