Í umræðunni um loftslagsmál ber oft á vanmætti almennings gegn þeim breytingum sem við mannfólkið hrintum af stað fyrir margt löngu. Það er þó alls ekki svo að við sem einstaklingar höfum engin tól til að sporna við hlýnun jarðar þó oft finnist okkur hindranirnar óyfirstíganlegar. Við getum t.d. passað að flokka ruslið okkar, nýta betur matinn okkar, minnka kjötneyslu og nota almenningssamgöngur meira svo dæmi séu nefnd.
Margir finna þó hjá sér þörf til að gera miklu meira og um leið hjálpa samborgurum sínum að taka skref í átt að umhverfisvænni lífsstíl. Það getur þó reynst erfitt að finna vettvang fyrir slíkan boðskap, annan en rökræður yfir kaffibolla eða á barnum, sem skila því miður misgóðum árangri.
Verkefnið Climathon eða loftslagsmaraþon, gæti þó vakið áhuga þeirra sem vilja leggja sitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað. Verkefnið gengur útá samvinnu fólks úr mismunandi hópum samfélagsins sem leggja krafta sína saman til að finna lausnir við þeirri ógn sem loftslagsbreytingar eru.
Loftslagsmaraþonið er alþjóðlegt verkefni runnð undan rifjum Climate-KIC, evrópskra samtaka um loftslagsmál. Verkefnið er nú haldið í þriðja sinn en í fyrsta skipti einnig á Íslandi. Maraþonið stendur yfir í 24 klukkustundir og fer samtímis fram í 237 borgum útum allan heim.
Verkefnið hér í Reykjavík er styrkt af Matís og Reykjavíkurborg. Verkefnið verður haldið í húsakynnum Matís að Vínlandsleið 12 og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun hefja maraþonið klukkan 13:00 þann 27. október næstkomandi. Frestur til að skrá sig til leiks er 15. október svo nú fer hver að verða síðastur. Hægt er að skrá sig heimasíðu verkefnisins en upplýsingar er einnig að finna á facebook-síðu viðburðarins.
Þó hér sé um alþjóðlegt verkefni að ræða standa einstaklingar á Íslandi á bak við það að koma því á koppinn hér innan lands. Þetta verkefni sýnir okkur hversu mikill dugnaður býr í fólki sem raunverulega vill breyta því hvernig við komum fram við náttúruna, alveg á sama hátt og átakið Plastlaus September gerði. Þessi verkefnið eru því mikill innblástur og vonandi munum við sjá aukna umhverfisvitund í kjölfar þeirra.