Í verslunum landsins er Hvítölið komið í kælana og jóladagatölin í hillurnar. Við vitum öll hvað það þýðir: jólin eru að koma. Einhverjir fussa, en flest erum við, svona þokkalega spennt. Og þeir sem fussa og eru of svalir til þess að hlakka til hlakkar oft til í laumi. Í bland við tilhlökkun skynjar maður samt stundum, því miður, smá kvíða líka. Sérstaklega þá kvíða í tengslum við sliti á segulrönd eða tölvukubbi kreditkortsins. Jólin eru nefnilega jafn dýr og þau eru skemmtileg. Þess vegna datt mér í hug að kíkja í vopnabúr hagfræðinnar og hlaða vopnin með gögnum frá hagstofunni til að sjá hvort ég gæti ekki fundið leið til þess að halda jólin á ódýrari máta og þar með bestað (e. optimise) þau.
Minna kjöt, færri egg og fleiri kartöflur
Að meðaltali undanfarin frá árinu 2011 hefur verðlag hækkað um 0,3% í desember (samanborið við nóvember). Sumar vörur hækka mikið í verði, aðrar lækka í verði og margar hækka lítillega. Gott dæmi um þetta má finna í uppáhalds jólamat margra: hamborgarhrygg með brúnuðum kartöflum, káli og niðursoðnu grænmeti (baunir). Svínakjöt á það til að hækka vel í desember á meðan kál og niðursoðið grænmeti ásamt hráefnunum sem fara í að útbúa brúnaðar kartöflur eiga það til að lækka aðeins í verði.
Svipaða sögu eru að segja þegar kemur að ómissandi eftirréttum. Til að mynda lækka þrír af fjórum stærstu kostnaðarliðum piparkaka – hveiti, sykur og smjör – umtalsvert rétt fyrir jól. En fjórði kostnaðarliðurinn, eggin, eiga það til að taka smá kipp upp á við. Ís, ómissandi gómsæti á mörgum heimilum, eins og eggin, á það einnig til að hækka aðeins í verði í kringum jólin.
Harðir pakka > mjúkir pakkar
Mjúkir pakkar lækka lítillega í verði fyrir jólin á meðan harðir pakkar snarlækka. Föt á karla og konur lækka minna en 0.5% á meðan barnaföt eiga það til að svo gott sem standa í stað. Þegar harðir pakkar eru skoðaðir frekar kemur það í ljós að sjónvörp lækka að öllu jöfnu um rúmlega 3% fyrir jól og lítil heimilistæki lækka um tæp 3%. Borðspil og bækur eru hins vegar ekki eins góður kostur. Þegar kemur að gjöfum handa yngri kynslóðinni er það nokkuð ljóst að tölvuleikir eru betri kostur en bækur.
Hvernig bestar maður þá jólin?
Það jákvæða við þetta allt saman er að það er ekkert sérstaklega mikil þörf á því að besta jólin. Það er að segja, þeir sem hafa gaman af jólunum eru að fá ágætis díl, allavega miðað við það ef þeir héldu heilög jól í nóvember. En, fyrir þá sem vilja spara, þá eru nokkrar aðgerðir sem þeir geta tekið til þess að besta jólin sín.
Þegar kemur að mat er hægt að besta jólin með því að minnka svínakjöt á diskunum og skipta því út fyrir meiri brúnaðar kartöflur, niðursoðnar baunir og kál. Að sama skapi má minnka aðeins eggjafjöldann sem fer í piparkökurnar (ef það er ekki höfuðsynd bakarans) og sleppa ísnum eftir mat. Þetta sparar manni aðeins en alvöru tækifærin liggja í pökkunum. Til að besta jólin væri ráðlegt að sleppa því að gefa föt og bækur og í staðinn gefa krökkunum kannski einhverja góða tölvuleiki og konunni (eða karlinum) risastóran flatskjá. Eða hrærivél.
En er hægt að gera enn betur?
Það er svo sannarlega hægt að gera enn betur. Því Janúar lækka verð heilan helling í næstum öllum þessum flokkum. Þess vegna er einnig möguleiki, fyrir þá sem eru ekkert of stressaðir yfir því hvenær þeir halda jólin, að halda þau bara í Janúar. Í janúar lækka barnaföt um næstum því 18% í verði og sjónvörp lækka enn frekar um 8%. Svínakjöt lækkar um 0.5%. Kál og niðursoðið grænmeti hækkar lítillega í verði.
Þannig að fyrir þá sem vilja besta jólin er þrennt í boði:
- halda venjuleg jól í janúar;
- halda harð-pakka dósa-grænmetis jól í desember; eða
- halda jólin í desember en kaupa svínakjöt, hveiti, ís, egg og spil í nóvember og restina í desember.
Svo er það auðvitað fjórði möguleikinn. Það er að sjálfsögðu hægt að sleppt því að pæla of mikið í þessu og borða og gefið bara það sem manni sýnist í desember. Er ekki góðæri eftir allt saman?