Hildur Vala Einarsdóttir vinnur nú að fjármögnun sinnar þriðju sólóplötu en ansi langt er um liðið frá því þær fyrri komu út (2005 og 2006). Fjölbreyttur hópur íslenskra hljóðfæraleikara leggur henni lið.
Hvenær byrjaðir þú fyrst að semja lög?
„Það eru þó nokkuð mörg ár síðan ég byrjaði að semja tónlist en á löngu tímabili var ég önnum kafinn í öðru; háskólanámi og barneignum og hafði ekki sérlega mikla þörf fyrir að gefa hana út. Nú hins vegar hefur tónlistaráhuginn blossað upp á ný og ég læt bara vaða, nýt þess að skapa og syngja.“
Hvers konar stemmningu verður að finna á plötunni?
„Ætli megi ekki segja að melankólían sé dálítið undirliggjandi á plötunni; ljúfsár lög en einnig glaðleg inn á milli. Ég leyfi mér að fara úr einu í annað og er ekkert að binda mig við eitthvað eitt ákveðið í þessum efnum. Textarnir ráða auðvitað dálítið för en þeir koma úr ýmsum áttum til dæmis frá Degi Hjartarsyni, ljóðskáldi og Hjalta Þorkelssyni úr Múgsefjun.“
Hvað er það sem hrífur sjálfa þig mest við tónlist?
„Allskyns tónlist hrífur mig, oft hrífst ég af einfaldleika og einlægni, stundum af orku og miklum krafti, og ófullkomleika en einnig af frumlegu tónlistarfólki sem hugsar út fyrir rammann. Annars er allskonar samspil sem veldur því að tónlist hrífur mig sérstaklega en kannski fyrst og fremst góð túlkun og sönn tilfinning.“
Síðasta sólóplata þín kom út árið 2006 og þessi mun líta dagsins ljós 12 árum síðar eða snemma árs 2018. Verður nýja platan gjörólík því sem þú hefur áður sent frá þér?
„Hún er fyrst og fremst ólík að því leyti að ég sem alla tónlistina sjálf en á fyrri plötunum flutti ég lög eftir aðra höfunda. Ég réð lagavalinu auðvitað samt sem áður en ég lagði miklu minna til málanna þegar kom að sjálfum upptökunum heldur en ég geri núna þegar ég er viðstödd allt sem gerist og hef hönd í bagga með lokaútkomu og ákvarðanir. Þetta er ótrúlega skemmtilegt og skapandi ferli.
Og auðvitað lærdómsríkt.“
Má íslensk þjóðin eiga von á því að sjá meira af þér á næstu árum en þau síðustu?
„Ég reikna nú frekar með því. Fyrir það fyrsta mun ég halda útgáfutónleika í Salnum, Kópavogi, 15.febrúar 2018 og mig langar auðvitað að flytja músíkina mína sem víðast.“