Rússland er í raun mjög frjálst land tækifæra. Þú getur náð hárri stöðu, grætt peninga og orðið fræg en með einu skilyrði. Þú mátt ekki skipta þér af stjórnmálum. Þá ert þú góðborgari Pútínlands. En ef þú ferð að kvarta yfir slæmum loftgæðum eða að yfirvöld sleppi eitri í ána sem rennur gegnum bæinn. Eða ef þér finnst ekki rétt að þúsundir hunda og katta séu skotnir úti á
götum fyrir HM í fótbolta. Þá ertu komin út á hálan ís og getur ekki lengur treyst á velgengni. Það versnar ef þú heldur áfram og spyrð hvers vegna verða vinir Pútíns bara ríkari og ríkari? Þá spyrja yfirvöld enn hærra tilbaka hvað sé eiginlega að þér og hvaðan hefur þú fengið peninga til að reka hjálparsamtök?
Þetta segir blaða- og mannréttindabaráttukonan Olga Romanova á nýju heimili sínu í Berlín.
Nú hef ég búið í Berlín síðan í september 2017 og veit ekki hvenær ég get snúið aftur til Moskvu. Auðvitað vil ég það, ég er rússnesk og þar á ég og fjölskylda mín heima.
Hvað gerðist í Moskvu í júní 2017?
Snemma morguns birtust þeir með húsleitarheimildir á skrifstofu okkar. Ástæðan var sögð grunur um misnotkun á opinberu fé, sem við höfum aldrei fengið. Við erum góðgerðasamtök og einnig í stjórnarandstöðu, hvaðan ættum við að hafa fengið opinbert fé? Auk þess stóð einhver summa á blaðinu í dollurum, ef fé er greitt í Rússlandi þá er það í rúblum.
Ég spurði embættismennina og fékk bara svarið: „Já, þú skilur þetta.“
Og auðvitað geri ég það. Ég er góð í viðskiptum. Að ásaka mig um misnotkun á fé er bara afsökun.
Vildu þeir að þú yfirgæfir landið?
Nei, þeir vildu loka mig inni í fangelsi. Til þess að skaða mig og einnig að skemma fyrir samtökunum sem njóta mikillar virðingar. Þeir hata mig.
Olga Romanova varð þekkt sem sjónvarpsfréttakona í Moskvu á tíunda áratugnum og hefur unnið til fjölda verðlauna. Þar á meðal „Free Press of Eastern Europe“ og tvisvar TEFI verðlaunin. Hún lét af störfum í sjónvarpi árið 2005 eftir kröfur um ritskoðun og starfaði eftir það á blöðum og tímaritum.
Þessir miðlar voru smám saman lagðir niður eða ritskoðaðir. Ég hætti að vinna sem blaðamaður og hóf mannréttindabaráttu þegar maðurinn minn Alexey Kozlov var handtekinn árið 2008 og borinn röngum sökum. Viðskiptafélagi hans Vladimir Slutsker fyrrverandi þingmaður og vel tengdur valdhöfum reyndi að koma honum á kné.
Etir handtöku eiginmannsins fór Olga að skrifa „blogg eiginkonu fanga“ og hjálpaði fólki í viðskiptum við að takast á við svipaða erfiðleika.
Sem blaðamaður hélt ég að ég þekkti Rússland. En gerði mér grein fyrir því að svo var ekki. Fangelsin eru hinn stóri ósýnilegi hluti þessa víðfeðma lands þar sem hundruðir þúsunda sitja inni. Síðan eru það börn fanga og vinir, varðmenn og dómarar, saksóknarar og fleiri.
Ég hafði lesið bækur um rússnesk fangelsi og hélt að ég þekkti þetta. Þegar ég sjálf komst í snertingu við þennan heim skildi ég einnig að enginn annar mundi hjálpa mér.
Ég stofnaði hjálparsamtökin „Rússland í fangelsi“, eftir að ég kynntist spillingunni, ofbeldinu og grimmdinni. Það sem ég lærði af baráttunni fyrir Alexey og aðra nýtist mér í starfi samtakanna.
Á meðan Alexey sat í fangelsi frá 2008 var gerð heimildamyndin „Frelsum ástina“ um þau Olgu og fleiri pör þar sem annað sat í fangelsi. Olga skrifaði einnig pistla í Novaya Gazeta um baráttu sína við fangelsisyfirvöld. Blogg hennar og Alexeys varð seinna bókin „Bútirka“ en það er nafnið á fangelsinu þar sem hann sat fyrst mánuðum saman í yfirfullum klefa.
Fyrst var Alexey dæmdur í átta ára fangelsi en sá dómur var lækkaður í fimm árið 2011.
Á meðan Olga barðist í réttarsölum tók hún einnig þátt í stofnun samtaka gegn kosningasvindli og spillingu. Með henni voru rithöfundurinn Boris Akunin og sjónvarpsmaðurinn Leonid Parfyonov. Þau skipulögðu fundi með stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov árið 2011 og 2012.
Þúsundir mótmæltu kosningasvindli og spillingu á götum Moskvu og um allt Rússland. Olga var einnig í framboði í Moskvu en ákvað að helga sig í staðinn baráttunni fyrir Alexey og öðrum föngum.
Alexey var síðan sleppt úr fangelsinu í vinnubúðum Perm árið 2013. Hann hafði þá setið saklaus í fangelsi í tæp fimm ár. Vinna samtakanna „Rússland í fangelsi“ bar árangur en það er mjög margt eftir ógert. Við bendum stöðugt á vandamálin undir stjórn fangelsisyfirvalda FSIN. Þar sitja fyrrverandi starfsmenn leyniþjónustunnar FSB við stjórn. Auðvitað vilja þeir losna við mig og loka samtökunum.
Hvernig eru tengsl þín við samtökin núna?
Starf mitt fyrir samtökin heldur áfram eins og venjulega. Á morgnana opnum við spjallið hjá „Rússlandi í fangelsi“ bjóðum góðan dag og vinnan hefst. Nú á dögum þarf maður jú ekki að vera líkamlega á staðnum. Vinnan heldur einfaldlega áfram.
En fyrir samstarfsfólk þitt í Moskvu er staðan ekki hættuleg fyrir þau?
Jú, á vegum skrifstofunnar í Moskvu starfa 18 manns. Við erum með skrifstofu í Nowosibirsk og opnum á þessu ári í St. Pétursborg og Jaroslawl. Allt starfsfólk samtakanna hefur setið í fangelsi. Ég hef oft grínast með það að ég sé öðruvísi að því leyti, en nú slapp ég með skrekkinn frá því að lenda þar sjálf. Auðvitað hafa þau áhyggjur en þau þekkja fangelsisheiminn vel. Við höfum aðstoðað fólk árum saman og getum einnig hjálpað okkur sjálfum.
Hvernig fer starfið fram?
Við hjálpum um 3000 fjölskyldum á ári þar sem fjölskyldumeðlimur situr í fangelsi. Ef einhver situr inni saklaus, í Rússlandi er það um þriðjungur fanga, reynum við að skapa mikla umræðu og varpa ljósi á það. Við hjálpum þeim sem þurfa á hjálp að halda. Fjölskyldurnar eiga um sárt að binda og oft er það fyrirvinnan sem hverfur. Við greiðum lögfræðingum, aðstoðum konur og börn. Og ef einhver er pyntaður eða veikur í fangelsi þá aðstoðum við hann, sama hvaða glæp viðkomandi kann að hafa framið. Ef hægt er bregðast við lagalega þá gerum við það. Það er sjaldgæft því dómarar lesa ekki kvartanir sem þeim berast. Hins vegar má senda fax til Hæstaréttar og spyrja óþægilegra spurninga til dæmis um fortíð yfirdómarans. Við sláum ekki fangaverði með kylfum eða hengjum þá upp á handjárnum eins og þeir gera. En við vekjum athygli á þannig framkomu.
Við höfum einnig skrifaði víðtæka skýrslu um það hvernig hægt er að endurbæta rússneska fangelsiskerfið. Það hefur ekki verið gert síðan 1953 og er svo sannarlega kominn tími til.
Olga Romanova hefur kynnt sér fangelsi í mörgum löndum og ég spyr hana hvar eru bestu fangelsin að hennar mati.
Í Noregi þar er allt til fyrirmyndar. En við verðum náttúrulega að vera raunsæ og reyna að breyta því sem við getum. Í Rússlandi þurfa fangelsin á ákveðnum fjölda fanga að halda til að fá fjármagn frá yfirvöldum. Spilling og ofbeldi er því samofið kerfinu. Því fleiri réttarhöld og fangar því meiri peningar fyrir saksóknara og lögfræðinga. Þetta fjallar bara um peninga fyrir suma.
Hvaðan koma peningarnir til að reka samtökin ykkar?
„Rússland í fangelsi“ samanstendur af þremur hlutum. Eitt eru félagasamtök, eitt hjálparsamtök sem eru skráð hjá hinum opinbera og eitt er fyrirtæki. Ég er skráður yfirmaður allra þriggja. Fyrirtækið rannsakar mismunandi hliðar rússneska fangelsiskerfisins og hefur m.a. Skrifað betrunartillögur. Það verkefni kom frá fyrrverandi fjármálaráðherra Alexej Kudrin og fyrirtækið fékk eina milljón rúblna til þess. (1.8 millj iskr.) Þessa peninga tók ég inn og færði áfram í hjálparsjóðinn. Eiginlega áfram til mín. Auk þess hefur fyrirtæki mitt einnig fengið verkefni frá Lewada- Centrum til að framkvæma skoðanakönnun á gyðingahatri í rússneskum fangelsum. Það sem við fáum til að fram kvæma pöntuð verkefni er um það bil 5% af fjárhagsáætlun okkar. 70% kemur frá sex velgjörðarmönnum. Afgangurinn frá fjársöfnunum. Eitt sem hefur breyst hvað mig varðar í Berlín: Ég sá um að safna þessu fé þegar ég var í Rússlandi. Það geri ég nú frá Þýskalandi.
En opinbert rússneskt fé höfum við aldrei fengið og ekki heldur fjármögnun frá útlöndum. Reyndar vorum við nú að fá skráningu hjá ESB og munum því innan skamms setja upp Evrópufána á skrifstofum okkar.
Verða samtökin þá ekki að skrá sig sem "erlenda aðila" eins og mörg óháð samtök í Rússlandi?
Jú auðvitað, en við ætlum ekki að skrá okkur sjálf. Ef þeir vilja gera það þá gott og vel. Þá gerum við eins og Memorial, þau skrifa að þau séu samkvæmt fyrirmælum Dómsmálaráðuneytisins erlendur aðili.
Olga stendur upp og þurrkar með fingrinum ofan af skáp, skoðar hvort þar sé ryk.
Í næstu viku kemur móðir mín frá Moskvu hingað til Berlínar í heimsókn. Hún er á áttræðisaldri og hefur aldrei ferðast frá Rússlandi hvað þá með flugvél. Ég er búin að bóka miða á söngleik fyrir okkur og hlakka til að sýna henni borgina.
Næst þegar ég hitti Olgu í Berlín er það á sjónvarpsstöðinni Ost-West þar sem hún vinnur sem pistlahöfundur. Pistill dagsins fjallar um eldsvoðann sem geisaði daginn áður í verslunarmiðstöð í Kemerovo í Síberíu. Hún lýsir samúð sinni með aðstandendum þeirra 64 sem létu lífið. Síðan segir hún að þetta sé því miður aðeins eitt af mörgum dæmum um áhrif spillingar í Rússlandi. Þar sem brunaöryggi er fórnað fyrir snöggan gróða. Frammi bíður Alexey eiginmaður Olgu sem er í heimsókn frá Moskvu. Ljúfur maður sem er greinilega glaður að hitta eiginkonuna aftur.
„Olga er alltaf dugleg og bjartsýn. Það var hún sem hélt alltaf bjartsýninni og baráttuandanum þegar ég sat í fangelsi,“ segir hann.
Daginn eftir ætla hjónin saman í stutt frí. Síðan fer hann aftur heim til Moskvu þar sem hann heldur m.a. áfram að vinna fyrir samtökin „Rússland í fangelsi“.
Ég vil fara heim ... en ég veit ekki hvenær það verður mögulegt. Reyndar þá finnst mér ég vera eins og í öðrum hluta Moskvu. Ég hitti mikið af vinum og kunningjum. Blaðamenn, listamenn og rithöfundar sem hafa þurft að yfirgefa Rússland. Annað dýrmætt sem ég upplifi hér er að ég hitti og vinn með mörgum frá Úkraínu. Það er óhugsandi í Rússlandi í dag. Ég hef engan áhuga á því lengur að stöðugt þurfa að lýsa því yfir að ég sé á móti hernáminu á Krímskaga og gegn stríðinu í Úkraínu. Hér í Berlín þarf ég þess ekki þó það séu margir rússar í Þýskalandi sem styðja Pútín.
Í Þýskalandi búa um 3 milljónir rússa og fjöldi þeirra horfir á rússneskt ríkissjónvarp. Ost-West er tilraun til þess að spyrna við áróðri frá Kreml og veita upplýsingar á rússnesku um Þýskaland og Rússland, stjórnmál og menningu. Stöðin er með 100.000 áskrifendur á netinu.
Þann 26. apríl kynnti Olga nýja bók eftir sig í beinni útsendingu á Ost-West að viðstöddum blaðamönnum. Bókin sem ber nafn samtakanna „Rússland í fangelsi“ byggir á sögum sem hún hefur heyrt og safnað frá því að hún stofnaði samtökin. Fyrsta prentun bókarinn seldist strax upp í Rússlandi. Myndskreytingar eru eftir Oleg Navalny bróður Alexey Navalnys stjórnarandstæðings. Oleg situr í fangelsi en mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað þann dóm rangan.
Sögurnar í bókinni bera þess merki að fangelsisheimurinn er heimur kvenna.
Konur í fangelsi fá engar heimsóknir frá karlmönnum en aftur á móti standa konur í biðröðum fyrir utan fangelsin með nauðsynjavörur handa eiginmönnum, feðrum eða sonum sínum. Ef þar stendur karlmaður þá er hann örugglega að heimsækja föður eða son sem situr inni. Konur í Rússlandi lifa erfiðu lífi og stefna stjórnvalda bætir ekki stöðu þeirra.
Af hverju skrifaðir þú þessa bók?
Þegar ég skrifaði bókina óttaðist ég að hafa gleymt. Að gleyma einhverju af öllu því mikilvæga sem ég hef lært af kynnum mínum og fangelsissögum undanfarin tíu ár. Ég breytti sumum nöfnum og staðarháttum. Eða sameinaði nokkrar persónur í eina. Sumar sögur fór ég vandlega yfir í samræmi við vitnisburði og dómsskjöl. Því er ein sagan um óhefðbundið líf frægs dómara í Moskvu. Auðvitað fjarlægi ég nöfnin, þó að persónan virðist auðþekkjanleg.
Oftast ef einstæð móðir fer í fangelsi fara börnin á munaðarleysingjaheimili. Þá er enginn til þess að fara með þau í heimsókn til móðurinnar sem situr kannski í hundruða kílómetra fjarlægð. Ein sagan fjallar um þannig ferðalag barns á Arkhangelsk svæðinu. Barn sem er í áfalli bæði af löngu ferðalagi með ókunnugum og síðan að hitta konu sem kallar sig mömmu og býr á hræðilegum stað.
Eru þetta hræðilegar sögur?
Reyndar held ég að bókin mín sé ekki hræðileg. Þó margir atburðir séu það. Hún fjallar líka um ást samkennd og það hvernig fólk hjálpar hvert öðru við hræðilegar aðstæður.