Baráttukona bjartsýn á myrkum tímum

Helga Brekkan hitti Olgu Romanova blaða- og baráttukonu og spjölluðu þær saman um mannréttindabaráttu hennar en hún stofnaði hjálparsamtökin „Rússland í fangelsi“ eftir að hún kynntist spillingunni, ofbeldinu og grimmdinni þar í landi.

Olga Romanova blaða- og baráttukona.
Olga Romanova blaða- og baráttukona.
Auglýsing

Rúss­land er í raun mjög frjálst land tæki­færa. Þú getur náð hárri stöðu, grætt pen­inga og orðið fræg en með einu skil­yrði. Þú mátt ekki skipta þér af stjórn­mál­um. Þá ert þú góð­borg­ari Pútín­lands. En ef þú ferð að kvarta yfir slæmum loft­gæðum eða að yfir­völd sleppi eitri í ána sem rennur gegnum bæinn. Eða ef þér finnst ekki rétt að þús­undir hunda og katta séu skotnir úti á götum fyrir HM í fót­bolta. Þá ertu komin út á hálan ís og getur ekki lengur treyst á vel­gengni. Það versnar ef þú heldur áfram og spyrð hvers vegna verða vinir Pútíns bara rík­ari og rík­ari? Þá spyrja yfir­völd enn hærra til­baka hvað sé eig­in­lega að þér og hvaðan hefur þú fengið pen­inga til að reka hjálp­ar­sam­tök?

Þetta segir blaða- og mann­rétt­inda­bar­áttu­konan Olga Roma­nova á nýju heim­ili sínu í Berlín.

Nú hef ég búið í Berlín síðan í sept­em­ber 2017 og veit ekki hvenær ég get snúið aftur til Moskvu. Auð­vitað vil ég það, ég er rúss­nesk og þar á ég og fjöl­skylda mín heima.

Auglýsing

Hvað gerð­ist í Moskvu í júní 2017? 

Snemma morg­uns birt­ust þeir með hús­leit­ar­heim­ildir á skrif­stofu okk­ar. Ástæðan var sögð grunur um mis­notkun á opin­beru fé, sem við höfum aldrei feng­ið. Við erum góð­gerða­sam­tök og einnig í stjórn­ar­and­stöðu, hvaðan ættum við að hafa fengið opin­bert fé? Auk þess stóð ein­hver summa á blað­inu í doll­ur­um, ef fé er greitt í Rúss­landi þá er það í rúbl­um.

Ég spurði emb­ætt­is­menn­ina og fékk bara svar­ið: „Já, þú skilur þetta.“

Og auð­vitað geri ég það. Ég er góð í við­skipt­um. Að ásaka mig um mis­notkun á fé er bara afsök­un.

Vildu þeir að þú yfir­gæfir land­ið? 

Nei, þeir vildu loka mig inni í fang­elsi. Til þess að skaða mig og einnig að skemma fyrir sam­tök­unum sem njóta mik­illar virð­ing­ar. Þeir hata mig.  


Olga Roma­nova varð þekkt sem sjón­varps­frétta­kona í Moskvu á tíunda ára­tugnum og hefur unnið til fjölda verð­launa. Þar á meðal „Free Press of Eastern Europe“ og tvisvar TEFI verð­laun­in. Hún lét af störfum í sjón­varpi árið 2005 eftir kröfur um rit­skoðun og starf­aði eftir það á blöðum og tíma­rit­um.

Þessir miðlar voru smám saman lagðir niður eða rit­skoð­að­ir. Ég hætti að vinna sem blaða­maður og hóf mann­rétt­inda­bar­áttu þegar mað­ur­inn minn Alexey Kozlov var hand­tek­inn árið 2008 og bor­inn röngum sök­um. Við­skipta­fé­lagi hans Vla­dimir Slut­sker fyrr­ver­andi þing­maður og vel tengdur vald­höfum reyndi að koma honum á kné.

Etir hand­töku eig­in­manns­ins fór Olga að skrifa „blogg eig­in­konu fanga“ og hjálp­aði fólki í við­skiptum við að takast á við svip­aða erf­ið­leika.

Sem blaða­maður hélt ég að ég þekkti Rúss­land. En gerði mér grein fyrir því að svo var ekki. Fang­elsin eru hinn stóri ósýni­legi hluti þessa víð­feðma lands þar sem hund­ruðir þús­unda sitja inni. Síðan eru það börn fanga og vin­ir, varð­menn og dóm­ar­ar, sak­sókn­arar og fleiri.

Ég hafði lesið bækur um rúss­nesk fang­elsi og hélt að ég þekkti þetta. Þegar ég sjálf komst í snert­ingu við þennan heim skildi ég einnig að eng­inn annar mundi hjálpa mér.

Ég stofn­aði hjálp­ar­sam­tökin „Rúss­land í fang­elsi“, eftir að ég kynnt­ist spill­ing­unni, ofbeld­inu og grimmd­inni. Það sem ég lærði af bar­átt­unni fyrir Alexey og aðra nýt­ist mér í starfi sam­tak­anna.

Á meðan Alexey sat í fang­elsi frá 2008 var gerð heim­ilda­myndin „Frelsum ást­ina“ um þau Olgu og fleiri pör þar sem annað sat í fang­elsi. Olga skrif­aði einnig pistla í Novaya Gazeta um bar­áttu sína við fang­els­is­yf­ir­völd. Blogg hennar og Alex­eys varð seinna bókin „Bútirka“ en það er nafnið á fang­els­inu þar sem hann sat fyrst mán­uðum saman í yfir­fullum klefa.

Butirka, bók Olgu & Alexeys. Mynd: Úr einkasafni.

Fyrst var Alexey dæmdur í átta ára fang­elsi en sá dómur var lækk­aður í fimm árið 2011.   

Á meðan Olga barð­ist í rétt­ar­sölum tók hún einnig þátt í stofnun sam­taka gegn kosn­inga­svindli og spill­ingu. Með henni voru rit­höf­und­ur­inn Boris Akunin og sjón­varps­mað­ur­inn Leonid Parfyonov. Þau skipu­lögðu fundi með stjórn­ar­and­stæð­ingnum Boris Nemtsov árið 2011 og 2012.  

Þús­undir mót­mæltu kosn­inga­svindli og spill­ingu á götum Moskvu og um allt Rúss­land. Olga var einnig í fram­boði í Moskvu en ákvað að helga sig í stað­inn bar­átt­unni fyrir Alexey og öðrum föng­um. 

Alexey var síðan sleppt úr fang­els­inu í vinnu­búðum Perm árið 2013. Hann hafði þá setið sak­laus í fang­elsi í tæp fimm ár. Vinna sam­tak­anna „Rúss­land í fang­elsi“ bar árangur en það er mjög margt eftir ógert. Við bendum stöðugt á vanda­málin undir stjórn fang­els­is­yf­ir­valda FSIN. Þar sitja fyrr­ver­andi starfs­menn leyni­þjón­ust­unnar FSB við stjórn. Auð­vitað vilja þeir losna við mig og loka sam­tök­un­um.

Hvernig eru tengsl þín við sam­tökin núna? 

Starf mitt fyrir sam­tökin heldur áfram eins og venju­lega. Á morgn­ana opnum við spjallið hjá „Rúss­landi í fang­elsi“ bjóðum góðan dag og vinnan hefst. Nú á dögum þarf maður jú ekki að vera lík­am­lega á staðn­um. Vinnan heldur ein­fald­lega áfram.  


En fyrir sam­starfs­fólk þitt í Moskvu er staðan ekki hættu­leg fyrir þau? 

Jú, á vegum skrif­stof­unnar í Moskvu starfa 18 manns. Við erum með skrif­stofu í Nowosi­birsk og opnum á þessu ári í St. Pét­urs­borg og Jaros­lawl. Allt starfs­fólk sam­tak­anna hefur setið í fang­elsi. Ég hef oft grín­ast með það að ég sé öðru­vísi að því leyti, en nú slapp ég með skrekk­inn frá því að lenda þar sjálf. Auð­vitað hafa þau áhyggjur en þau þekkja fang­els­is­heim­inn vel. Við höfum aðstoðað fólk árum saman og getum einnig hjálpað okkur sjálf­um.   

Hvernig fer starfið fram? 

Við hjálpum um 3000 fjöl­skyldum á ári þar sem fjöl­skyldu­með­limur situr í fang­elsi. Ef ein­hver situr inni sak­laus, í Rúss­landi er það um þriðj­ungur fanga, reynum við að skapa mikla umræðu og varpa ljósi á það. Við hjálpum þeim sem þurfa á hjálp að halda. Fjöl­skyld­urnar eiga um sárt að binda og oft er það fyr­ir­vinnan sem hverf­ur. Við greiðum lög­fræð­ing­um, aðstoðum konur og börn. Og ef ein­hver er pynt­aður eða veikur í fang­elsi þá aðstoðum við hann, sama hvaða glæp við­kom­andi kann að hafa framið. Ef hægt er bregð­ast við laga­lega þá gerum við það. Það er sjald­gæft því dóm­arar lesa ekki kvart­anir sem þeim ber­ast. Hins vegar má senda fax til Hæsta­réttar og spyrja óþægi­legra spurn­inga til dæmis um for­tíð yfir­dóm­ar­ans. Við sláum ekki fanga­verði með kylfum eða hengjum þá upp á hand­járnum eins og þeir gera. En við vekjum athygli á þannig fram­komu.

Við höfum einnig skrif­aði víð­tæka skýrslu um það hvernig hægt er að end­ur­bæta rúss­neska fang­els­is­kerf­ið. Það hefur ekki verið gert síðan 1953 og er svo sann­ar­lega kom­inn tími til.

Olga Roma­nova hefur kynnt sér fang­elsi í mörgum löndum og ég spyr hana hvar eru bestu fang­elsin að hennar mati.

Í Nor­egi þar er allt til fyr­ir­mynd­ar. En við verðum nátt­úru­lega að vera raunsæ og reyna að breyta því sem við get­um. Í Rúss­landi þurfa fang­elsin á ákveðnum fjölda fanga að halda til að fá fjár­magn frá yfir­völd­um. Spill­ing og ofbeldi er því sam­ofið kerf­inu. Því fleiri rétt­ar­höld og fangar því meiri pen­ingar fyrir sak­sókn­ara og lög­fræð­inga. Þetta fjallar bara um pen­inga fyrir suma.   

Alexy Kozlov í fangelsi. Mynd: Úr einkasafni.

Hvaðan koma pen­ing­arnir til að reka sam­tökin ykk­ar? 

„Rúss­land í fang­elsi“ sam­anstendur af þremur hlut­um. Eitt eru félaga­sam­tök, eitt hjálp­ar­sam­tök sem eru skráð hjá hinum opin­bera og eitt er fyr­ir­tæki. Ég er skráður yfir­maður allra þriggja. Fyr­ir­tækið rann­sakar mis­mun­andi hliðar rúss­neska fang­els­is­kerf­is­ins og hefur m.a. Skrifað betr­un­ar­til­lög­ur. Það verk­efni kom frá fyrr­ver­andi fjár­mála­ráð­herra Alexej Kudrin og fyr­ir­tækið fékk eina milljón rúblna til þess. (1.8 millj iskr.) Þessa pen­inga tók ég inn og færði áfram í hjálp­ar­sjóð­inn. Eig­in­lega áfram til mín. Auk þess hefur fyr­ir­tæki mitt einnig fengið verk­efni frá Lewa­da- Centrum til að fram­kvæma skoð­ana­könnun á gyð­inga­hatri í rúss­neskum fang­els­um. Það sem við fáum til að fram kvæma pöntuð verk­efni er um það bil 5% af fjár­hags­á­ætlun okk­ar. 70% kemur frá sex vel­gjörð­ar­mönn­um. Afgang­ur­inn frá fjár­söfn­un­um. Eitt sem hefur breyst hvað mig varðar í Berlín: Ég sá um að safna þessu fé þegar ég var í Rúss­landi. Það geri ég nú frá Þýska­landi.

En opin­bert rúss­neskt fé höfum við aldrei fengið og ekki heldur fjár­mögnun frá útlönd­um. Reyndar vorum við nú að fá skrán­ingu hjá ESB og munum því innan skamms setja upp Evr­ópu­fána á skrif­stofum okk­ar.

Verða sam­tökin þá ekki að skrá sig sem "er­lenda aðila" eins og mörg óháð sam­tök í Rúss­landi? 

Jú auð­vit­að, en við ætlum ekki að skrá okkur sjálf. Ef þeir vilja gera það þá gott og vel. Þá gerum við eins og Memori­al, þau skrifa að þau séu sam­kvæmt fyr­ir­mælum Dóms­mála­ráðu­neyt­is­ins erlendur aðili.   

Olga stendur upp og þurrkar með fingrinum ofan af skáp, skoðar hvort þar sé ryk.

Í næstu viku kemur móðir mín frá Moskvu hingað til Berlínar í heim­sókn. Hún er á átt­ræð­is­aldri og hefur aldrei ferð­ast frá Rúss­landi hvað þá með flug­vél. Ég er búin að bóka miða á söng­leik fyrir okkur og hlakka til að sýna henni borg­ina.

Næst þegar ég hitti Olgu í Berlín er það á sjón­varps­stöð­inni Ost-West þar sem hún vinnur sem pistla­höf­und­ur. Pist­ill dags­ins fjallar um elds­voð­ann sem geis­aði dag­inn áður í versl­un­ar­mið­stöð í Kem­er­ovo í Síber­íu. Hún lýsir samúð sinni með aðstand­end­um þeirra 64 sem létu líf­ið. Síðan segir hún að þetta sé því miður aðeins eitt af mörgum dæmum um áhrif spill­ingar í Rúss­landi. Þar sem bruna­ör­yggi er fórnað fyrir snöggan gróða. Frammi bíður Alexey eig­in­maður Olgu sem er í heim­sókn frá Moskvu. Ljúfur maður sem er greini­lega glaður að hitta eig­in­kon­una aft­ur.

„Olga er alltaf dug­leg og bjart­sýn. Það var hún sem hélt alltaf bjart­sýn­inni og bar­áttu­and­anum þegar ég sat í fang­elsi,“ segir hann.

Dag­inn eftir ætla hjónin saman í stutt frí. Síðan fer hann aftur heim til Moskvu þar sem hann heldur m.a. áfram að vinna fyrir sam­tökin „Rúss­land í fang­elsi“.

Alexey & Olga í réttarsal Mynd: Úr einkasafni.

Ég vil fara heim ... en ég veit ekki hvenær það verður mögu­legt. Reyndar þá finnst mér ég vera eins og í öðrum hluta Moskvu. Ég hitti mikið af vinum og kunn­ingj­um. Blaða­menn, lista­menn og rit­höf­undar sem hafa þurft að yfir­gefa Rúss­land. Annað dýr­mætt sem ég upp­lifi hér er að ég hitti og vinn með mörgum frá Úkra­ínu. Það er óhugs­andi í Rúss­landi í dag. Ég hef engan áhuga á því lengur að stöðugt þurfa að lýsa því yfir að ég sé á móti her­nám­inu á Krím­skaga og gegn stríð­inu í Úkra­ínu. Hér í Berlín þarf ég þess ekki þó það séu margir rússar í Þýska­landi sem styðja Pútín.

Í Þýska­landi búa um 3 millj­ónir rússa og fjöldi þeirra horfir á rúss­neskt rík­is­sjón­varp. Ost-West er til­raun til þess að spyrna við áróðri frá Kreml og veita upp­lýs­ingar á rúss­nesku um Þýska­land og Rúss­land, stjórn­mál og menn­ingu. Stöðin er með 100.000 áskrif­endur á net­in­u. 

Þann 26. apríl kynnt­i Olga nýja bók eftir sig í beinni útsend­ingu á Ost-West að við­stöddum blaða­mönn­um. Bókin sem ber nafn sam­tak­anna „Rúss­land í fang­elsi“ byggir á sögum sem hún hefur heyrt og safnað frá því að hún stofn­aði sam­tök­in. Fyrsta prentun bók­ar­inn seld­ist strax upp í Rúss­landi. Mynd­skreyt­ingar eru eftir Oleg Navalny bróður Alexey Naval­nys stjórn­ar­and­stæð­ings. Oleg situr í fang­elsi en mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu hefur úrskurðað þann dóm rang­an.

Sög­urnar í bók­inni bera þess merki að fang­els­is­heim­ur­inn er heimur kvenna. 

Konur í fang­elsi fá engar heim­sóknir frá karl­mönnum en aftur á móti standa konur í bið­röðum fyrir utan fang­elsin með nauð­synja­vörur handa eig­in­mönn­um, feðrum eða sonum sín­um. Ef þar stendur karl­maður þá er hann örugg­lega að heim­sækja föður eða son sem situr inni. Konur í Rúss­landi lifa erf­iðu lífi og stefna stjórn­valda bætir ekki stöðu þeirra.  
 

Af hverju skrif­aðir þú þessa bók? 

Þegar ég skrif­aði bók­ina ótt­að­ist ég að hafa gleymt. Að gleyma ein­hverju af öllu því mik­il­væga sem ég hef lært af kynnum mínum og fang­els­is­sögum und­an­farin tíu ár. Ég breytti sumum nöfnum og stað­ar­hátt­um. Eða sam­ein­aði nokkrar per­sónur í eina. Sumar sögur fór ég vand­lega yfir í sam­ræmi við vitn­is­burði og dóms­skjöl. Því er ein sagan um óhefð­bundið líf frægs dóm­ara í Moskvu. Auð­vitað fjar­lægi ég nöfn­in, þó að per­sónan virð­ist auð­þekkj­an­leg.

Oft­ast ef ein­stæð móðir fer í fang­elsi fara börnin á mun­að­ar­leys­ingja­heim­ili. Þá er eng­inn til þess að fara með þau í heim­sókn til móð­ur­innar sem situr kannski í hund­ruða kíló­metra fjar­lægð. Ein sagan fjallar um þannig ferða­lag barns á Ark­hang­elsk svæð­inu. Barn sem er í áfalli bæði af löngu ferða­lagi með ókunn­ugum og síðan að hitta konu sem kallar sig mömmu og býr á hræði­legum stað.  
 

Eru þetta hræði­legar sög­ur? 

Reyndar held ég að bókin mín sé ekki hræði­leg. Þó margir atburðir séu það. Hún fjallar líka um ást sam­kennd og það hvernig fólk hjálpar hvert öðru við hræði­legar aðstæð­ur.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiFólk