Sveiflur íslensku krónunnar hafa bæði valdið miklum erfiðleikum og góðæri með stuttu millibili. Íslenska krónan hefur sem greiðslumiðill, mælieining og geymslumiðill oftar en ekki reynst ótraust. Notagildi hennar á erlendum mörkuðum er takmarkað, stjórnvöld hafa oft brugðist í gegnum tíðina með stjórnun peningamála, Íslendingar hafa búið við miklar hagsveiflur, ítrekaðar gengisfellingar, hátt vaxtarstig, gengisfall íslensku krónunnar og viðvarandi verðbólgu. Margir vilja meina að fullreynt sé að nota íslensku krónuna sem gjaldmiðil. Eigum að hætta að reka okkar eigin peningastefnu og taka upp annan gjaldmiðil eða er mögulegt að halda krónunni og breyta henni í rafmynt? Gæti það tryggt framhaldslíf hennar og jafnvel skapað ný tækifæri?
„Blockchain-tæknin býður upp á milliliðalaus viðskipti sem er stórkostlegt tækifæri fyrir smáríki. Kaupendur og seljendur koma ekki fram undir nafni eða kennitölu, engin mynt er slegin og engir seðlar prentaðir. Hvorki seðlabanki né yfirvöld stýra gengi eða flæði; það er einfaldlega framboð og eftirspurn sem ræður ferðinni. Rafmynt verður uppistaðan í greiðslumiðlun á 21. öldinni, nú er tíminn til að hefjast handa. Tækifærin fyrir Íslendinga eru stórkostleg. Breytið krónunni ykkar í rafmynt,„ segir Robert Koenig sem hefur fylgst grannt með þróun rafmyntar eftir að blockchain-tæknin og bitcoin litu dagsins ljós fyrir um tíu árum síðan. Koenig er einnig framkvæmdastjóri fyrirtækisins Xentavo, sem hefur það markmið að innleiða blockchain-lausnir fyrir smáríki, enda hefur hann rannsakað slík og efnahag þeirra, sér í lagi í lönd sem hafa orðið fyrir efnahagsáföllum og náttúruhamförum.
[adpsot]Hann segir það geta verið flókið og erfitt fyrir smáríki að reka eigin gjaldmiðil. „Örmyntir geta skapað óvissu og áhættu í viðskiptum og þegar þarf að skipta á milli gjaldmiðla í viðskiptum við önnur lönd. Smáríki eiga það nánast öll sameiginlegt, sama hversu ólík þau eru, að hafa lent í einhvers konar áföllum vegna peningastefnu og gjaldeyrismála. Þau eru viðkvæmari og geta hrunið á einni nóttu, bæði vegna náttúruhamfara og þegar sveiflur verða á heimsmörkuðum. Snöggar og ófyrirsjáanlegar gjaldeyrissveiflur bitna alltaf sérstaklega illa á smáríkjum. Gróðurhúsaáhrifin eiga eftir að hafa umtalsverð áhrif á efnahagslíf heims og smáríkin verða að fara undirbúa sig betur fyrir stóru höggin sem eiga eftir að koma.“
Má ekki rugla saman blockchain og bitcoin
Aðspurður um hvernig þau eigi að undirbúa sig fyrir þessi högg segir Koenig að hann leggi til að smáríkin breyti núverandi peningastefnu og færi sig yfir rafmynt. „Það er hægt að breyta núverandi gjaldmiðlum í rafmynt, nýta sér blockchain-tæknina til þess að tryggja þau betur fyrir stórum áföllum. Gjaldmiðlar smáríkja, eins og íslenska krónan, eru afar háð öðrum stærri og sterkari, eins og dollara og evru. Blockchain-tæknin mun gera öll viðskipti mun hraðvirkari, einfaldari, gegnsærri og öruggari. Það skapar meira traust sem er lykilatriði þegar viðskipti eru annars vegar.“
En hvernig geta smáríki varið sig sveiflum og skapað traust með rafmynt – sem hefur nú varla verið stöðugur gjaldmiðill? Bitcoin hefur flogið upp og niður síðast liðið ár. Margir eru raunar efins um að bitcoin sé raunverulegur gjaldmiðill. Koenig segir að til að byrja með eigi ekki að rugla saman blockchain og bitcoin. „Bitcoin getur flogið upp og niður og verið á valdi braskara, en það breytir ekki því að blockchain er stórkostleg tækni sem knýr áfram rafmynt eins og bitcoin og blockchain býður upp á mikla möguleika á ýmiskonar sviðum, sér í lagi í milliliðalausum viðskiptum. Það er allt að verða stafrænt, peningar eru orðnir það að einhverju leyti en eiga eftir að verða það alfarið í einhverskonar formi. Það tekur of langan tíma að færa peninga milli fólks, milli landa, það er of dýrt, bankarnir taka of mikið til sín, það er orðin almenn krafa að þessu þurfi að breyta með einhverjum hætti. En tökum Ísland sem dæmi:
Stafræn íslensk króna gæti ennþá verið í umsjá seðlabanka, gengið er skráð þar en öll viðskipti myndu verða mun liðlegri og öruggari; allar færslur sýnilegri, rekjanlegar og öruggari með blockchain tækni. Öll umsýsla krónunnar byggist því á neti fólks sem myndi nota krónuna. Allar millifærslur og verslun færu beint í gegn án þess að þriðju aðili, bankar eða kreditkortafyrirtæki, kæmu þar að. Þessi tækni býður líka upp á persónuvernd, millifærslur eru nafnlausar, viðskipti þín eru alltaf þín einkamál. Frjáls viðskipti án allra landamæra.“
Ísland spennandi staður til að gera tilraunir
Þá vaknar eðlilega sú spurning hvort að slíkt kerfi bjóði ekki hættunni heim. Yrði Ísland ekki kjörlendi fyrir skattsvik og önnur glæpsamleg viðskipti ef landið tæki slíkt upp? Koenig er ekki á því. „Blockchain er listi af skrám, listi yfir allar færslur sem allir hafa aðgang að. Slíkt kerfi á að geta gert allt gegnsætt og koma í veg fyrir skattaskjól og slíka starfsemi sem og hvítþvott á peningum. Það er mun auðveldara að rekja viðskiptin. Þetta er á allan hátt öruggari og skilvirkari gagnaflutningur. Öruggari viðskipti.“
Rannsókn Koenig byggir á smáríkjum í Mið- og Suður-Ameríku. Hann segir að Ísland hafi sérstöðu og sé í raun afar merkilegt efnahagskerfi sem yrði gaman að velta fyrir sér og skoða. „Þróað efnahagsríki, mikil menntun og hagsæld. Gnægð af orkuauðlindum og í raun afar spennandi staður til þess að prófa að gera tilraunir í þessa átt. Blockchain-tæknin býður upp á milliliðalaus viðskipti sem er stórkostlegt tækifæri fyrir smáríki. Ríkið sjálft gæti verið í mun einfaldari og öruggari fjárhagslegum samskiptum við þegna landsins. Ég veit að íslenska krónan hefur oft verið ykkur erfið, til að mynda í efnahagshruninu 2008 þegar margir misstu aleiguna vegna bankanna og slæmra ákvarðana sem þar voru teknar. Íslendingar hafa rætt um upptöku evru sem hefur bæði sína kosti og galla. Það er alltaf erfitt fyrir smáríki að vera háð seðlabönkum og ákvörðunum annarra ríkja. Með upptöku evru yrði Ísland í raun algjörlega háð þýskri efnahagsstefnu.“
Telur Koenig þá að íslensk króna sem rafmynt yrði öruggari gjaldmiðill en evra? Hann er að minnsta kosti sannfærður um að íslensk króna sem rafmynt yrði öllum Íslendingum til bóta og líka þeim sem eiga viðskipti við Ísland og vilja fjárfesta þar. „Ég veit að land eins og Eistland hefur mikinn áhuga að taka upp rafmynt sem opinberan gjaldmiðil. Eistar hafa verið að gera afar athyglisverðar tilraunir, eins og til að mynda með stafrænan ríkisborgararétt, nú er hægt að gerast ríkisborgari, stofna fyrirtæki og opna bankareikning í Eistlandi á innan við 10 mínútur á netinu. Þetta hefur stóraukið viðskipti og fjárfestingar í landinu. Fjölmörg ISO blockchain fyrirtæki hafa sest þar að og nú vilja Eistar ganga skrefinu lengra og taka upp rafmynt, en þeir eru þá þegar með evru sem gerir þeim erfitt fyrir. En Ísland er ennþá með sína íslensku krónu, einn smæsta gjaldmiðil heims, sem væri hægt, og meira segja mjög auðveldlega hægt að breyta í rafmynt. Ég myndi aldrei í ykkar sporum taka upp evru eða dollar. Notfærið ykkur möguleikana, þið eruð með eigin gjaldmiðil, það er þessi nýja blockchain-tækni sem er hægt að gera ýmislegt með. Ísland er sterkt lýðræðisríki og valddreifing og lýðræði er einmitt megin hugsjónin á bakvið blockchain. Þið gætuð skapað nýtt efnahagslíf sem ætti sér ekkert sambærilegt dæmi í heiminum. Þið eigið heimsmet í netnotkun, farsímanotkun. Þetta er tæknivædd og fámenn þjóð sem hefur efni á að gera slíkar tilraunir. Við stöndum á krossgötum, það er allt að fara breytast mikið og hratt á næstu árum, fjórða iðnbyltingin er að bresta á, þeir sem þora að gera tilraunir, standa og falla með þeim, eiga eftir að hagnast á því síðar meir. Þeir sem vilja engu breyta, eiga eftir að brotna niður. Stjórnvöld eiga að hugsa um þegnana sína, tryggja þeim öryggi, gera þeim lífið bærilegra. Að skapa öruggara og markvissara peningakerfi og tryggja stöðugleika.“
Vel hægt að vera með tvöfalt kerfi
Aðspurður um framkvæmdina þá segir Koenig að það væri vel hægt að vera með tvöfalt kerfi: rafmynt og á sama tíma hefðbundið peningakerfi. Það væri hægt að tengja íslensku krónuna við aðra rafmyntir, eins og t.d. ethereum. Koenig segir að það tæki stundarfjórðung að gera það. „En ef þið viljið gera þetta með skynsamlegri hætti mynduð þið skrá krónuna sem rafmynt og velja viðeigandi vettvang til þess, þið mynduð hanna ykkar eigin blokk (blockchain) til þess að halda utan um myntina. Á sama tíma væri áfram hægt að nota peningaseðla, kreditkort - rafmynt, stafrænt peningakerfi yrði viðbót. Íslendingar njóta þeirrar sérstöðu að vera ekki í ESB, ekki með evru, þess vegna getið þið prófað tilraunir í þessa átt. Þetta er Sviss að gera þessa dagana, Svisslendingar eru afar íhaldssamir og öruggir þegar kemur að peningamálum en þeir eru leiðandi þegar kemur að tilraunum með rafmynt. Víða í Sviss er hægt að stunda öll sín viðskipti með rafmynt og þeir eru þá þegar byrjaðir að umbreyta bankakerfinu sínu í þessa átt, ekki síst vegna þess að þetta er frjálst, óháð ríki eins og Ísland. Sviss hafa í gengum tíðina þorað að fara aðrar leiðir, t.d. í stjórnkerfinu. Þetta hugrekki hefur gefist þeim vel.“
Blockchain er auðvitað ekkert gallalaust heldur, að sögn Koenig. Ekkert kerfi er fullkomið. „Blockchain krefst mikillar orku, sem þið hafið, þetta eru þungir og miklir gagnaflutningar en ég hef trú á því að þau vandamál verði fljótlega leyst. Það tekur líka tíma fyrir fólk að læra á og nýta sér nýja tækni. Þess vegna er það Íslendingum í hag að taka þessum breytingum með opnum huga.“
Hann er þó í engum vafa um að blockhain-tæknin muni hafa mikil áhrif í komandi framtíð. „Þetta er að bresta á núna og á næstu tíu árum geri ég ráð fyrir því að um 25 prósent af öllum viðskiptum heims muni fara fram með þeirri tækni. Aldamótakynslóðin er tæknivædd og nýjungagjörn og allar rannsóknir sýna að þessu fólki er í nöp við bankana, telur núverandi fjármálakerfi ósanngjarnt og ómannúðlegt – það vill nýtt kerfi. Rafmynt er svar við því kalli.“