Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Þegar ég var fjórtán ára þá gerði ég tilraun, ásamt vinkonu minni, til þess að opna umræðuna um sjálfsfróun kvenna því okkur fannst strákarnir í kringum okkur algjörlega eiga þessa umræðu. Við höfðum einnig rekist á könnun þar sem stóð að af stelpum og strákum á okkar aldri þá fróuðu 20% kvenna sér en 80% karla. Okkur fannst eitthvað bogið við þessar niðurstöður og langaði að skoða þetta frekar.
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Þemað er kynhegðun fólks með fókus á konuna. Ég set þennan fókus því eins og rannsóknir sýna að þá er narratívan þegar kemur að gagnkynhneigðu kynlífi mjög einsleit og miðar ekki að því að báðir aðilar fái fullnægingu. Þegar maðurinn er búinn að fá það að þá er kynlífið búið, burt séð frá því hvort konan hafi fengið það eða ekki. Það er meira svona bónus. Sem er synd.
Konur eiga erfiðara með að fá það með mönnum og ætti því að setja fókus á hennar fullnægingu. Til gamans má geta að ég las rannsókn sem sýndi að lesbískar konur fá það sex sinnum oftar en gagnkynhneigðar konur í kynlífi sem tengist þessari narratívu sem ég kom aðeins inn á en hún er ekki eins skýr þegar kemur að samkynhneigðu kynlífi nefnilega. Þurfa því einstaklingar sem sofa hjá sama kyni að byrja á að finna út hvað þeim finnst best því það er ekki búið að segja þeim, í bíómyndum og bókum og fleira, hvernig þeir eiga að haga sér í kynlífi.
Með því að byrja á þessum stað, að safna sjálfsfróunarsögum, þá er ég að opna á umræðuna um mál sem er enn þá tabú og mikil leynd er yfir. Markmiðið er að hvetja konur, ungar konur og unglinga til þess að finna hvað þeim finnst best, læra inn á eigin líkama og njóta þess að njóta kynlífs með sér sjálfum og öðrum.
Ég sé þetta verkefni ekki sem endapunkt heldur upphaf af einhverju stærra. Ég er rétt að byrja. Mig langar líka að bjóða öllum áhugasömum að koma á útgáfusýningu sem haldin verður í Gallerý Port að Laugarvegi 23b. Þar geta þeir sem keyptu ritið sótt það og um leið notið myndlistar, upplestrar og léttra veitinga með okkur. “