5. Skuggi Piu
„Myndmálið nefnilega skiptir máli. Í ljósi umkvörtunar fjármálaráðherra þess efnis að einstaklingurinn Pia Kjærsgaard og skoðanasystkini hennar séu lýðræðislega kjörin, virða verði embættin sem þau sitja í og passa að sýna danska þjóðþinginu ekki yfirlæti og vanvirðingu, er vert að minna á að margar af helstu harðstjórnum heimssögunnar hafa einmitt verið kosnar til valda. Það skiptir máli að taka ábyrgð á ásýnd heimsins og muna að tákn dagsins í dag geta orðið veruleiki morgundagsins. Við getum borið virðingu fyrir ferlinu sem eru lýðræðislegar kosningar og niðurstöðu þeirra og samtímis gagnrýnt, fyrirlitið og barist hatrammlega gegn málflutningi og pólitík sem ofbýður siðferðiskennd okkar.
Fullveldishátíðin er ekki síst hátíð þjóðar sem eins og framar greinir hefur komist ótrúlega langt á síðustu hundrað árum. Og á slíkri hátíðarstundu er lykilatriði - aðalatriðið jafnvel - að halda á lofti gildum þjóðarinnar, flagga þeim ótrúlega árangri og lýðræðislegu framförum sem hér hefur náðst, ekki síst þegar kemur að mannréttindum og mannhelgi og þjóðin getur verið gríðarlega stolt af.
Til að geta notið þessa ótvíræða merkis- og hátíðardags í sögu landsins skiptir máli að varpa ekki stórum skuggum á hátíðarhöldin. Nærvera Piu Kjærsgaard gerði gott betur en það; hún varpaði myrkri á þau öll, skrumskældi og eyðilagði allan þann jákvæða boðskap sem hefði verið hægt að draga fram á 100 ára afmælinu. Og eins ömurlegt og það er þá er ekki við neinn annan að sakast en afmælisbarnið sjálft, gestgjafann sem bauð í afmælið.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
4. Sérstöku stéttirnar sem mega vera með mjög há laun
„Það verður að segjast eins og er, þegar þau dæmi sem hér hafa verið nefnd eru skoðuð, þá virðist það fyrst og síðast vera karllægar stéttir sem voru þegar með mjög há laun í öllum samanburði sem líti á sig sem sérstaklega sérstakar. Aðrar stéttar, sérstaklega stórar kvennastéttir, eiga ekki að fara fram með sambærilegar kröfur.
Í desember verða 81 kjarasamningar lausir. Í mars 2019 bætast 150 við.
Ef ráðamönnum er alvara um að krefjast þáttöku launafólks í viðhaldi stöðugleikans, sem er auðvitað öllum til góða, þá verða þeir að sýna gott fordæmi og vinda ofan af þeim „leiðréttingum“ sem tekjuháum hópum hefur verið skammtað á undanförnum árum.
Sumir mega ekki vera jafnari en aðrir. Eða sérstakari.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
3. Þegar rík sveitafélög fá styrk til að skara fram úr
„Augljóst er að sameina eigi öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, dreifa byrðum af þjónustu jafn á alla íbúa þess, skera niður í yfirbyggingu og bæta um leið sameiginlega þjónustu þeirra allra.
Þessi ráðstöfun, að úthverfi á borð við Garðabæ séu sérstök sveitarfélög sem geti boðið lægri skatta og undanskilið sig félagslegri ábyrgð, er ekki bara ósanngjörn og röng, heldur feikilega óhagkvæm fyrir heildina. Og löngu tímabært að vinda ofan af henni.
Ef það er ekki hægt að fá sveitarfélögin sjálf til að gera það ætti að setja lög um stóraukna sameiningu sveitarfélaga. Eða að minnsta kosti lög sem skikka þau til að taka jafnan þátt í veitingu á félagslegri og samfélagslegri þjónustu.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
2. Sigmundur Davíð mun aldrei hætta
„Og hvert er íslenskt samfélag þá komið? Vonandi er það komið þangað að ofbeldismenn verða sviptir dagskrárvaldi. Að menn sem fyrirlíta konur, fatlaða og samkynhneigða verði ekki settir í stöðu til að ákvarða hvernig aðstæður þeirra hópa eigi að vera. Vonandi er það komið þangað að samræður um greiðastarfsemi um veitingu sendiherrastöðu, og fundir sem haldnir voru til að innheimta þá greiða, verði rannsakaðir með viðeigandi hætti af viðeigandi rannsóknaraðila.
Vonandi er íslenskt samfélag komið þangað að samþingmenn þessara manna hafi þolgæði og staðfestu til að halda þeim út úr hlýjunni og senda þar með skýr skilaboð um að svona hátterni sé með öllu óboðlegt og verði ekki liðið. Ef stjórnmálamennirnir ráða ekki við slíkt þá munu þeir normalisera það athæfi sem átt hefur sér stað. Alveg eins og þeir gerðu eftir Panamaskjölin.
Ef þingheimi tekst ekki að finna leið til að skýla fórnarlömbum ofbeldismanna frá því að þurfa að deila þing- og nefndarfundum með þeim daglega þá er Ísland komið á þann stað að stjórnmálamenn geti gert nánast hvað sem er án afleiðinga. Það má misfara með opinbert fé, eiga peninga í skattaskjólum, sleppa því að borga skatt og brjóta lög úr ráðherrastól. Það má leyna almenning og fjölmiðla upplýsingum og hóta nafngreindum fjölmiðlum lögsóknum í aðdraganda kosninga. Það má svindla í kosningum. Og nú kemur í ljós hvort það megi atyrða og niðurlægja nafngreint fólk án afleiðinga.“
Lesið leiðarann í heild sinni hér.
1. Velkomin í íslenska pólitík
„Sú orðræða sem viðhöfð var af þingmönnunum er ömurleg og óboðleg. Og ef þeir hefðu ekki verið gripnir í bólinu þá væru þeir ekki að biðja nokkurn mann afsökunar. Iðrunin er vegna þess að það komst upp um þá.
Eftir stendur spurningin um hvaða afleiðingar þetta eigi að hafa.
Nú er það þannig að flestir hafa látið óviðeigandi orð falla um einhvern í einhverju sem þeir telja einkasamtal. En fæstir hafa vonandi setið í opinberu rými klukkutímunum saman og skipst á að segja rætna, fyrirlitlega, meiðandi, ósanna og niðurlægjandi hluti um konur, samstarfsmenn, pólitíska andstæðinga, fatlaða og samkynhneigða. Eða mært það að nota staðleysu um innflytjendur til að ná pólitískum markmiðum. Eða viðurkennt pólitíska spillingu við veitingu embætta sem er eins og skólabókardæmi úr strokuspillingarfræðum helmingaskiptatímans.
Þingmenn eru nefnilega ekki eins og við flest. Þeir eru kjörnir fulltrúar alls almennings. Við eigum að gera mun ríkari kröfur til þeirra. Allar líkur eru á að framferði þeirra sé skýrt brot á siðareglum þingmanna, fyrir utan að vera á skjön við allt almennt velsæmi.“