5. Maðurinn sem ber ábyrgð á skjálftanum á vinnumarkaði
„Jónas Þór Guðmundsson hæstaréttarlögmaður er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í kjararáði og stjórn Landsvirkjunar. Ákvarðanir sem bæði ráðið og fyrirtækið, undir hans stjórn, hafa tekið hefur sett stöðugleika á vinnumarkaði í algjört uppnám og gætu jafnvel orðið þess valdandi að kjarasamningum verði sagt upp í dag. Formannafundur ASÍ fundar nú á Hilton Nordica hótelinu þar sem kosið verður um uppsögn kjarasamninga.
Jónas hefur tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins í fjölda ára. Hann var stjórnarmeðlimur í Stefni, félagi ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði frá árunum 1994 til 1998 og þar af formaður í eitt ár. Á árunum 1997 til 1999 var hann varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, en þá gegndi Ásdís Halla Bragadóttir formennsku. Jónas bauð sig fram í það embætti en laut í lægra haldi fyrir Sigurði Kára Kristjánssyni í kosningu árið 1999, sem síðar varð þingmaður flokksins.
Jónas hefur í gegnum tíðina gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þar meðal setið í embætti formanns kjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi sem og gegnt formennsku í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í sama kjördæmi. Hann hefur setið í miðstjórn flokksins sem og flokksráði þess. Framkvæmdastjórn flokksins er í höndum miðstjórnar sem ber ábyrgð á öllu innra starfi flokksins, hefur eftirlits- og úrskurðarvald um allar framkvæmdir á vegum hans, hefur umráð yfir eignum og gætir þess að skipulagsreglum sé fylgt. Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hefur það hlutverk að marka stjórnmálastefnu flokksins ef ekki liggja fyrir ákvarðanir landsfundar. Ekki má taka ákvörðun um afstöðu flokksins til annarra stjórnmálaflokka nema með samþykki flokksráðs og kemur ráðið því til dæmis saman þegar ný ríkisstjórn er mynduð með aðild Sjálfstæðisflokksins.“
Lesið fréttina í heild sinni hér.
4. Ásmundur sá sem keyrði fyrir 385 þúsund krónur á mánuði
„Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er sá þingmaður sem fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnaðar í fyrra. Það þýðir að hann fékk um 385 þúsund krónur á mánuði í endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna keyrslu sinnar. Alls keyrði Ásmundur 47.644 kílómetra í fyrra, og fékk endurgreitt frá ríkinu vegna kostnaðar fyrir þann akstur.
Til samanburðar má nefna að Hringvegurinn, Þjóðvegur 1, er 1.322 kílómetrar. Ásmundur keyrði því tæplega 36 sinnum hringinn í kringum landið á síðasta ári.
Ásmundur sagði í Morgunútvarpi Rásar 2í morgun að hann keyrði 20 til 25 þúsund kílómetra á ári til að fara í vinnu. Hann sinni auk þess kjördæmi sínu, sem sé 700 kílómetra langt, afar vel. „Það líða ekki margar helgar sem ég hef frí frá því að sinna erindum í kjördæminu, fara út á meðal fólks, mæta á allskonar uppákomur og svo eru sumrin upptekin af allskonar bæjarhátíðum.““
Lesið fréttina í heild sinni hér.
3. Tekjur áhrifavaldanna
„Áhrifavaldar verða sífellt meira áberandi í íslenskri dægurmálaumfjöllun en ekki síður umfjöllun um markaðsmál. Áhrifavaldar eru þau kölluð sem sinna markaðssetningu í gegnum samfélagsmiðla en mikil umræða hefur verið um svokallaðar duldar auglýsingar og vöruinnsetningar hjá þessum hópi. Markaðs- og auglýsingastofur hafa beint fjármagni í meira mæli en áður til þessara einstaklinga sem geta náð beint til sinna fylgjenda í gegnum miðlana.
DV birti í Tekjublaði sínu skráð mánaðarlaun nokkurra vinsælustu áhrifavalda landsins.
Sólrún Diego áhrifavaldur og þrifbókarithöfund er með skráðar tekjur upp á 320 þúsund á mánuði samkvæmt Tekjublaði DV. Sólrún er einn vinsælasti snappari landsins og nær til þúsunda í gegnum samskiptaforritin Snapchat og Instagram, þar sem hún er með um 26 þúsund fylgjendur. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir tilburði sína þegar kemur að þrifum og gaf fyrir jólin út metsölubókina Heima þar sem hún gaf góð ráð í heimilishaldi.“
Lesið fréttina í heild sinni hér.
2. Vefur opnaður þar sem hægt er að fletta upp tekjum allra fullorðinna Íslendinga
„Búið að er að opna upplýsingavefinn Tekjur.is þar sem birtar eru upplýsingar um launa- og fjármagnstekjur allra fullorðinna Íslendinga eins og þær birtust í skattskrá ríkisskattstjóra 2017. Upplýsingarnar sýna því tekjur allra landsmanna á árinu 2016. Hægt er einfaldlega að fletta þeim einstaklingi upp sem viðkomandi hefur áhuga á að vita hvað var með í tekjur á árinu. greiða þarf fyrir aðganginn.
Í tilkynningu frá Tekjur.is, sem rekið er af fyrirtækinu Viskubrunni ehf., segir að mikil umræða hafi gjarnan sprottið af birtingu upplýsinga um laun einstaklinga þegar álagningarskrár yfir hæstu greiðendur opinberra gjalda eru birtar opinberlega einu sinni á ári.
Þá gefa nokkrir fjölmiðlar út sérstök tekjublöð með upplýsingum um áætlaðar mánaðartekjur nokkur þúsund Íslendinga út frá því sem þeir greiddi í skatt. Þetta gefur hins vegar ekki raunsanna mynd af stöðu mála, samkvæmt forsvarsmönnum Tekjur.is. „Um árabil hefur tíðkast að birta fréttir og gefa út tímarit með upplýsingum um tekjur valinna skattgreiðenda, byggðar á upplýsingum úr álagningarskrá. Hins vegar hefur ekki tíðkast að birta upplýsingar úr endanlegri skattskrá, sem þó gefur ítarlegri upplýsingar en álagningarskrá um framtaldar tekjur. Rétt er að taka fram, að Alþingi hefur sérstaklega veitt heimild til þess að upplýsingar úr skattskrá séu birtar opinberlega í heild eða að hluta og er slík birting heimil hverjum sem er[...]Þeir sem fagnað hafa útgáfu tímaritanna geta nú glaðst yfir tilkomu tekjur.is, enda sýnir vefurinn framlag allra skattgreiðenda í sameiginlega sjóði og stuðlar að auknu gagnsæi í umræðu um tekjudreifingu í samfélaginu.““
Lesið fréttina í heild sinni hér.
1. Þrjár konur kvarta nafnlaust yfir framkomu forstjóra Matís
„Þrjár konur sem starfa hjá Matís sendu nafnlaust bréf til stjórnar fyrirtækisins í kjölfar umræðu í byrjun desember síðastliðins um mótmæli fyrir framan heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur árið 2010.
Segir í bréfinu að tilefni þess sé að þær séu vægast sagt ósáttar við að forstjóri stofnunarinnar, Sveinn Margeirsson, skuli hafa farið fremstur í flokki og að auki staðið að hvatningu og skipulagningu í aðdragandanum, þegar mjög óvægin og afar ósanngjörn aðför hafi verið gerð að kynsystur þeirra, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, eins og hafði verið dregið fram í dagsljósið.
Sjöfn Sigurgísladóttir stjórnarformaður Matís segir málið í skoðun og Sveinn segist í samtali við Kjarnann ekki vilja tjá sig um bréfið eða efni þess að svo stöddu.“