Lumar þú á Munch málverki

Á undanförnum árum hafa tugir listaverka hins heimsfræga norska myndlistarmanns Edvards Munch horfið úr söfnum í Ósló. Enginn veit hvar þessi verk eru nú niðurkomin en sum verkanna eru metin á milljónatugi.

Sjálfsmynd, eitt síðasta verk Edvard Munch.
Sjálfsmynd, eitt síðasta verk Edvard Munch.
Auglýsing

Á undanförnum árum hafa tugir listaverka hins heimsfræga norska myndlistarmanns Edvards Munch horfið úr söfnum hans í Ósló. Enginn veit hvar þessi verk eru nú niðurkomin.

Þegar minnst er á heimsþekkta Norðmenn koma nokkur nöfn upp í hugann. Leikritaskáldið Henrik Ibsen, tónskáldið Edvard Grieg, rithöfundurinn Knut Hamsun, landkönnuðurinn Thor Heyerdahl, pólfarinn Roald Amundsen landkönnuðurinn Fridtjof Nansen og stjórnmálamaðurinn Vidkun Quisling. Fleiri mætti tína til, en hér hefur ekki verið nefndur sá sem kannski er þekktastur allra Norðmanna fyrr og síðar: myndlistarmaðurinn Edvard Munch.

Edvard Munch (12. desember 1863 - 23. janúar 1944) fæddist og ólst upp á bóndabæ við þorpið Ådalsbruk á Heiðmörku. Foreldrar hans, þau Laura Cathrine Bjølstad og Christian Munch gengu í hjónaband árið 1861, hún var þá 22 ára en hann 44 ára. Christian Munch var herlæknir og vegna atvinnu hans flutti fjölskyldan til Christiania (sem síðar fékk nafnið Kristiania og enn síðar Ósló) þegar Edvard var árs gamall. Eins og margir í fjölskyldu Lauru var hún berklaveik og lést árið 1868, þegar sonurinn Edvard var fimm ára, þá höfðu hjónin eignast fimm börn. Karen Bjølstad, systir Lauru, varð ráðskona á heimili mágs síns og börnin litu á hana sem móður sína.

Auglýsing

Snemma beygist krókurinn

Edvard byrjaði mjög ungur að teikna. Í endurminningum sínum minnist hann þess að hafa legið á gólfinu með kolamola og teiknað. Faðirinn Christian og frænkan Karen hvöttu börnin til að teikna þegar fjölskyldan sat saman á kvöldin og Christian læknir las upphátt og sagði sögur. Munch fjölskyldan flutti nokkrum sinnum milli bæjarhluta á næstu árum og bjó við þröngan kost enda læknislaunin lág. Edvard var heilsuveill og var langtímum saman fjarverandi úr skólanum. Talsvert er til af teikningum Edvards frá þessum árum, viðfangsefnin það sem fyrir augu bar innandyra, húsgögn, verkfæri, bækur o.fl þess háttar. Fimmtán ára gamall tók Edvard inntökupróf í tækniskóla og settist í verkfræðideildina. Dvölin þar varð aðeins eitt ár, veikindin tóku sinn toll, en mestu réði þó að Edvard hafði ekki áhuga á náminu, föður hans til mikilla vonbrigða. Í nóvember 1880 skrifaði Edvard í dagbók sína „ég hef skráð mig úr skólanum. Hef nefnilega ákveðið að verða málari.“ Honum var hinsvegar ljóst að  nauðsynlegt væri að afla sér menntunar á því sviði, var fyrst einn vetur í kvöldskóla (Tegneskolen, Konunglegi lista- og hönnunarskólinn) en síðan í fullu námi við sama skóla. Aðal kennarar hans voru myndhöggvarinn Julius Middelthun og listmálarinn Christian Krogh, báðir í fremstu röð norskra listamanna á sinni tíð.

Edvard vakti strax athygli fyrir óvenjulega færni og í gögnum skólans má sjá að hann hefur verið talinn skara framúr.

Áhrifavaldarnir

Árið 1883 sýndi Edvard Munch í fyrsta sinn opinberlega (Industri- og kunstutstillingen) og fékk góða dóma. Hér verður ekki reynt að rekja lífshlaup Munch en tvær ferðir hans til Parísar árin 1885 og 1889 mörkuðu tímamót í lífi hans. Í París kynntist hann verkum Vincent van Gogh og Paul Gaugain. Síðar varð Munch fyrir miklum áhrifum af verkum Ágúst Strindbergs. „Mér varð ljóst að manneskjunni er ætlað að lifa í einmanaleika og angist.“ Í þeim fjölmörgu bókum sem skrifaðar hafa verið um Munch og líf hans kemur alls staðar fram að þessir tveir þættir, einmanaleiki og angist, séu grunntónninn í list hans. Munch hafi alla ævi lifað í eins konar sálarkreppu. Hann var alla tíð heilsuveill líkamlega, og ekki síður andlega og dvaldi margsinnis, um lengri og skemmri tíma á geðsjúkrahúsum. Hann veiktist alvarlega árið 1919, af spænsku veikinni og árið 1930 sprakk æð í hægra auga hans og minnstu munaði að hann missti sjónina, en sjón hans á vinstra auga var alla ævi mjög takmörkuð.

Heimsfrægð

Frá 1885 og fram undir 1930 ferðaðist Munch mikið, dvaldi langdvölum í Þýskalandi og París. Sýndi margoft í Frakklandi og Þýskalandi, Danmörku, Noregi, Ítalíu og víðar. Sjálfur taldi hann sýningu sína í Prag árið 1905 þá merkustu á ferlinum.

Verk eftir MunchUm aldamótin 1900 var Munch orðinn heimsfrægur fyrir list sína. Málverk og grafíkmyndir hans urðu mörgum listamönnum, sem aðhylltust expressioníska túlkun, fyrirmynd. Þótt hann sé þekktastur fyrir málverk og grafíkmyndir gerði hann einnig bókaskreytingar og veggmyndir, m.a. í opinberum byggingum.

Eins og áður var nefnt sýndi Munch oft í Þýskalandi. Þýsku nasistarnir voru ekki hrifnir af verkum Munch, seldu mörg verk sem voru í opinberri eigu í Þýskalandi og vildu jafnvel eyðileggja verk hans. Langflestum verkum Munch var þó forðað, sumum var komið úr landi og önnur falin.

Ánafnaði Ósló borg verk sín

Þótt Munch hafi ferðast mikið og dvalið langdvölum erlendis var Noregur þó ætíð hans heimahöfn. Árið 1916 keypti hann lítinn búgarð, Ekely, í útjaðri Ósló og bjó þar til æviloka 23. janúar 1944.

Nokkru fyrir dauða sinn ánafnaði Munch Ósló borg verk sín og eigur, ekki þó búgarðinn, Ósló borg keypti hann síðar. Í safni því sem Mubch ánafnaði borginni voru 1100 málverk, 4500 vatnslita- og krítarmyndir, 20.000 grafíkverk og teikningar, 6 myndastyttur, stórt bóka- og bréfasafn og ýmislegt fleira.

Stenersen safnið og stúdentagarðarnir

Einn af vinum Munch var Rolf E. Stenersen (1899- 1978). Stenersen var á yngri árum margfaldur Noregsmeistari í spretthlaupum, skrifaði síðar allmargar bækur og leikrit en auðgaðist á verðbréfaviðskiptum. Eftir að Stenersen kynntist Munch sá hann um fjármál listamannsins og keypti sjálfur fjölmörg verka hans. Árið 1936 gaf Stenersen sveitarfélaginu Aker 900 listaverk, langflest eftir Munch. Gefandinn lagði áherslu á að verkunum yrði fundinn viðeigandi samastaður, innan þriggja ára. Áður en það hafði gerst braust síðari heimsstyrjöldin út og þá voru önnur verkefni brýnni. 1948 sameinaðist Aker sveitarfélagið Ósló og þá var Stenergjöfin flutt í geymslu í Ráðhúsinu í Ósló, sem þá var nýbyggt. Þar voru verkin geymd en árið 1952 voru flest verkanna hengd upp á nýbyggðum stúdentagörðum, Sogn. Rolf E. Stenersen hafði setið í byggingarnefndinni og hann var mjög hlynntur því að listaverkin yrðu hengd upp á stúdentagörðunum. Engar sérstakar varúðarráðstafanir voru gerðar þótt, verkin einfaldlega hengd á krók, rétt eins og í heimahúsi.  

Stúdentagarðarnir Sogn

Blaðamenn gerast „þjófar“

Árið 1972 sat Jon Magnus blaðamaður VG (Verdens gang) á kaffihúsi í Ósló. Þar heyrði hann á tal tveggja ungra manna sem ræddu sín á milli um málverkin á stúdentagörðunum og hve auðvelt væri að ræna þeim, engin gæsla og ekkert öryggiseftirlit. Blaðamaðurinn ákvað, með leyfi ritstjórnar VG að kanna málið. Hann og ljósmyndari fóru á staðinn og í tvígang gengu þeir út með málverk Munch og sneru jafnharðan til baka og hengdu verkin upp aftur. Í þriðja skiptið spurði eftirlitsmaður í húsinu hvert þeir væru að fara með þetta listaverk. „Við sögðum sem satt var að við værum blaðamenn og værum að rannsaka hve auðvelt væri að fjarlægja dýrmæt listaverk sem þarna héngu á veggjum.“ Blaðamennirnir voru kærðir til lögreglu, en málið síðar látið niður falla.  

Mál þetta vakti mikla athygli í Noregi og í kjölfarið var gerð „vörutalning“ á stúdentagörðunum. Þá kom í ljós að fjöldinn allur af verkum var horfinn. Lítið gerðist fyrr en haustið 1973, eftir að mjög verðmætu verki eftir Munch hafði verið stolið úr setustofu á einum stúdentagarðanna, en það fannst reyndar 11 mánuðum síðar, óskemmt. Þá var ákveðið að flytja verkin í Munch safnið í Ósló. Sérstakt safn, kennt við Stenersen, var opnað árið 1994 og þar eru nú flest þau verk sem hann gaf árið 1936, og mörg verk sem hann bætti við síðar.

Að minnsta kosti 47 myndir horfnar

Skömmu fyrir nýliðin áramót birti norska blaðið Dagbladet langa grein um horfin Munch málverk. Þar kemur fram að í það minnsta 47 verk eftirs Munch sem eru (eða voru) í eigu Munch safnsins í Ósló (Stenersen safnið er nú hluti þess) sé ekki að finna í safninu. Hvar þessi verk eru niðurkomin veit enginn. Týndu verkin eru misverðmæt, sum metin á milljónatugi eða meira, önnur minna virði, í peningum talið.

Ópið er frægasta verk Munch.Munch safnið flytur í nýtt hús, í Bjørvika, skammt frá Óperuhúsinu í Ósló árið 2020. Forstöðumaður safnsins segir að þar verði öryggismál með allt öðrum og betri hætti en nú er.

Verðmætasta og þekktasta verk Edvard Munch er án efa Ópið. Það var málað árið 1893. Frá hendi málarans eru fjögur málverk með þessum titli, ein litografía og tvær krítarmyndir. Önnur þessara krítarmynda var seld hjá uppboðshúsi í New York árið 2012 fyrir upphæð sem samsvarar 13 milljörðum íslenskra króna.

  

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiFólk