Hlynur Ben hefur komið víða við á ferli sínum sem tónlistarmaður og skemmtikraftur, bæði einn síns liðs og með hljómsveitum eins og Mono, Gleðisveit Ingólfs, Búálfunum og Rufuz. Hann sigraði fyrstu trúbadorakeppni FM957, sem fór fram árið 2009, og hefur mest komið fram sem trúbador undanfarin ár. Eftir hann liggur fjöldin allur af tónlist sem er eins ólík og hljómsveitirnar sem hann hefur verið í gegnum tíðina. Þó ber helst að nefna sólóplöturnar Telling tales (2008) og Leiðin heim (2014), en sú síðar nefnda sló heldur betur í gegn og hljómuðu lögin Hrópum, Kaldur bæði og sár, Það er allt í lagi og Vaknaðu mikið á öldum ljósvakans.
Þriðja platan mun bera heitið II ÚLFAR og safnar Hlynur nú fyrir útgáfunni á Karolina Fund þar sem hægt er að styrkja verkefnið, kaupa plötuna í forsölu og næla sér í sérstaka viðhafnarútgáfu sem inniheldur upptökur úr Akranesvita, svo eitthvað sé nefnt.
Hvernig vaknaði hugmyndin að plötunni?
„Eftir frábærar viðtökur á fyrstu tveimur plötunum mínum hef ég alltaf stefnt að því að gefa út meira sólóefni. Ég glími við visst góðærisvandamál að því leitinu til að ég á svo mikið af frumsömdu efni og þá er erfitt að ákveða hvað á að gefa út fyrst.
Fyrir ári síðan var ég svo búinn að raða saman lögum sem passa frábærlega saman og platan virkar sem ein heild, þó að hvert lag standi líka eitt og sér.
Hægt er að fylgjast með plötunni verða til á Facebook síðu sem ég opnaði fyrir verkefnið.
Það er ýmislegt sem gengur á bak við tjöldin sem fólki þykir kannski fróðlegt og skemmtilegt að sjá. T.d. varð einskonar aukaplata til þegar ég fór í Akranesvita og kannaði hljómburðinn fyrir upptökur á söng og kassagítar. Ég tók upp fullt af lögum í kassagítarútgáfum sem enda svo á aukadisk er fylgir viðhafnarútgáfunni.“
Þú segir að lögin á plötunni passi vel saman. Er eitthvað þema sem tengir þau?
„Já, í raun má alveg segja það. Án þess að það hafi verið ætlunin þá fór ég að sjá rauðan þráð og sögulínu í heildarverkinu þegar hlustaði á prufuupptökurnar í þeirri röð sem lögin raðast niður á plötuna.
Það þurfti bara aðeins að snurfusa hér og þar og þá var komin einhver miklu stærri heildarmynd sem mig sjálfan óraði ekki fyrir. Hvort sem það var undirmeðvitundin að verki eða bara ótrúleg tilviljun þá er þetta skemmtilegt.
Það er þó ekki svo að söguþráðurinn sé borðleggjandi fyrir hvern sem hlustar. Ég elska textagerð og til að texti sé áhugaverður fyrir mig þá verður hann að vera örlítið óræður. Þannig að hver geti túlkað hann á sinn hátt.
Af þeim lögum sem ég hef gefið út þykir mér alltaf vænst um þau sem snerta ólíkt fólk á ólíka vegu, algjörlega háð reynslu og upplifunum sem fólk hefur orðið fyrir í lífinu. Þannig á góður texti að vera.
Grunnhugmyndin eru þó þessir tveir úlfar sem eru innra með okkur. Annar táknar það góða og hinn hið illa. Svo er það bara okkar að ákveða hvorn úlfinn við viljum fóðra því sá sterkari stjórnar háttum okkar og gjörðum í lífinu.“
Áætluð útgáfa er á afmælisdaginn þinn, var það löngu ákveðið?
„Nei alls ekki. Þegar ég fór að velta fyrir mér hvernig væri best að fjármagna upptökurnar og útgáfuna varð Karolina Fund hópsöfnun fyrir valinu. Þetta er frábær leið til að sjá hvort einhver grundvöllur sé fyrir útgáfu sem þessari. Því ef næst ekki að safna þeim lágmarkskostnaði sem þarf til, þá fellur það bara um sjálft sig og allir fá endurgreitt.
En það gefur augaleið að þú biður fólk ekkert að fjárfesta í eða styrkja eitthvað nema búið sé að kortleggja ferlið og setja lokadagsetningu á verkið.
Þó að ég fái smá kjánahroll þegar ég viðurkenni það, þá er staðreyndin samt sú að ég vaknaði einn morguninn alveg sannfærður um að tölurnar 7, 9 og 13 myndu leika stóran part í velgengni plötunnar. Það tók mig svo nokkra daga að átta mig á því að 7 stendur fyrir 37. afmælisdaginn minn, 9 er síðasta talan í ártalinu og ég var þegar búinn að ákveða að það yrðu 13 lög á plötunni.
Svo skemmir ekkert fyrir að 30. ágúst kemur niður á föstudegi þetta árið, sem er fullkominn dagur fyrir útgáfutónleika og almennan fögnuð.“
Hér er hægt að skoða og styrkja verkefnið.