Verkefnið Á söguslóð Þórðar kakala á sér langan aðdraganda, en Sigurður Hansen, bóndi í Kringlumýri í Skagafirði, og sjálfmenntaður sérfræðingur í Sturlungu, hefur ásamt fleirum staðið að uppbyggingu á staðnum frá árinu 2006.
Sigurður hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til kynningar á sögu og arfleifð Sturlungaaldar í ársbyrjun 2015 og hefur það verið honum mikil hvatning.
Sýningin Á söguslóð Þórðar kakala er sögu- og listaverksýning sem leggur áherslu á Sturlungaöld, og mun hún samanstanda af hljóðleiðsögn og 30 listaverkum, auk korta og skýringarmynda. Til stendur að opna sýninguna sumarið 2019.
Listaverkin munu sýna fólk, atburði og staði er tengjast lífi Þórðar kakala, en hann var einn áhrifamesti einstaklingur Sturlungaaldar. Fjórtan listamenn, bæði innlendir og erlendir, hafa verið valdir úr hópi tæplega nítíu umsækjenda til að vinna verkin 30. Jón Adólf Steinólfsson, myndhöggvari, er listrænn stjórnandi sýningarinnar. Listamennirnir koma saman í Listamannabúðum í Kringlumýri dagana 25. mars til 15. apríl og verður opið hús á laugardögum frá kl. 14 til 17 á meðan á þeim stendur.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Eftir að ég hætti að búa árið 2005 fór sú hugmynd að kvikna að sinna þessu áhugamáli, þar að segja Sturlungaöldinni. Við vorum fleiri í Skagafirði sem deildum þessum áhuga og stofnuðum við félagið Á Sturlungaslóð, sem meðal annars hefur merkt sögustaði og staðið fyrir ýmiskonar kynningum og fræðslu.
Verkefnið hófst með því að ég sviðsetti Haugsnesbardaga á áreyrunum rétt hjá Kringlumýri þar sem ég bý ásamt eiginkonu minni Maríu Guðmundsdóttur. Um er að ræða stórt útilistaverk sem samanstendur af 1300 steinum sem hver og einn stendur fyrir einn bardagamann. Verkið gengur undir nafninu Grjótherinn, en Haugsnesbardagi, sem átti sér stað 1246, er talinn mannskæðasti bardagi Íslandssögunnar.
Eftir að því verki lauk ákváðum við hjónin að innrétta hús sem fyrir voru á staðnum og gera þar mótttöku fyrir gesti. Var þar m.a. innréttaður salur sem gengur undir nafninu Kakalaskáli, eftir Þórði kakala sem var að mínu mati mesti stjórnmálamaður sinnar tíðar.
Þar hef ég sagt sögur frá Sturlungaöld og höfum við fjölskyldan tekið á móti allt að 3000 gestum á ári undanfarin ár. Meðan verið var að innrétta skálann fengum við Jón Adólf Steinólfsson, myndhöggvari, þá hugmynd að setja upp sögu- og listaverkasýningu með áherslu á líf Þórðar kakala í sama húsi.
Nú er búið að undirbúa sýningarrýmið og hafa verið ráðnir 14 listamenn til að vinna 30 listaverk sem hvert fyrir sig túlkar ákveðna þætti úr sögu Þórðar kakala. Til stendur að kvikmynda allt ferlið og það verður virkilega spennandi að sjá hvaða augum listamennirnir sjá söguna.
Þema verkefnisins er Sturlungaöld, eða 13. öld. Við í Kringlumýri höfum verið að taka á móti fjölda fólks árlega, og hefur stór hluti þeirra komið til að fá leiðsögn um sviðsetningu Haugsnesbardaga, eða Grjótherinn. Nú ætlum við að bæta við sögu- og listaverkasýningunni um Þórð kakala og vonum að fólki finnist hún spennandi viðbót og geri sér ferð til okkar í Kringlumýri. Það má nefna það hér að góð leið til að tryggja sér aðgang að sýningunni er að styrkja okkur á Karolinafund.“
Eitthvað sérstakt sem þú vilt að komi fram um þitt verkefni?
„Mig langar að koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem stutt hafa verkefnið með ýmsum hætti, en við höfum fengið myndarlegan stuðning við verkefnið frá ýmsum, s.s. Kaupfélagi Skagfirðinga, Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra, Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, Átaki til atvinnusköpunar og fleirum. Svo ekki sé minnst á ómælda sjálfboðaliðavinnu vina og vandamanna í gegnum tíðina. Jón Adólf Steinólfsson og Karin Esther Gorter kona hans hafa verið okkur ómetanlegir bandamenn við undirbúning sýningarinnar. Við erum núna á lokametrunum í verkefninu og það er ekki síst öllum þessu góða stuðningi, og öllu þessu góða fólki, að þakka.“