Silja Björk er 27 ára skúffuskáld og ötull talsmaður geðheilbrigðismála. Hún hefur skrifað fjölda greina um málefnið, veitt ótal viðtöl og var þátttakandi í sjónvarpsþáttunum Bara geðveik,sem voru sýndir á Stöð 2 haustið 2016. Hún er einnig einn stofnandi #égerekkitabú samfélagsmiðlabyltingarinnar og hélt fyrirlestur á TEDx ráðstefnu í Hörpu vorið 2014, um upplifun mína af sjálfsvígshugsunum. Fyrirlesturinn er titlaður „The Taboo of Depression" og má finna á YouTube og er fyrirlesturinn með rúm 140.000 áhorf.
Bókin er sjálfsæviskeiðssaga og ákvað Silja Björk að gefa hana sjálf út til að halda sannleiksgildum sögunnar. Markmið söfnunarinnar er að safna fyrir yfirlestri, ritstjórn og umbroti bókarinnar, útgáfu hennar og litlu fögnuðarteiti. SIlja Björk byrjaði að skrifa þessa bók fyrir sex árum, löngu áður en hún vissi að þetta gæti orðið bók. Henni leið mjög illa eftir innlögnina á geðdeild og þurfti að koma tilfinningunum frá sér og notaði skrifin til þess.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég er greind með þunglyndi og kvíða og sumarið 2013 reyndi ég að fremja sjálfsvíg og endaði í kjölfarið inni á geðdeild. Eftir þetta mikla áfall, að reyna sjálfsvíg og vera lögð inn, fannst mér ég þurfa að skrifa frá mér hugsanir mínar. Ég byrjaði einfaldlega bara á því að setjast fyrir framan tölvuna og skrifa án þess að hugsa. Ég greip í skrifin þegar mér leið illa eða þegar ég þurfti að vinna úr einhverju, sambandsslitum, geðdeildinni, sjálfsvígshugsununum og hvernig leið mín lá þangað. Það var ekki fyrr en ári eftir að ég hafði skrifað fyrstu setningarnar að ég las yfir textann almennilega og hugsaði með mér að þetta gæti kannski orðið að bók. Síðan þá hef ég unnið í handritinu, síðustu sex ár eða svo, bætt við, breytt og tekið út og ég held að þessi langi tími með handritinu sé engin tilviljun. Ég hef þroskast mikið og lært á þessum tíma, ég hef aðra sýn á atburðina og það gefur mér vald á textanum sem ég hafði kannski ekki fyrst eftir geðdeildina.
Verkefnið er bók. Bókin fjallar um eins og áður segir, geðsjúkdóma og afleiðingar sjálfsvígstilrauna. Þetta er sagan mín, hún er öll sönn en ég leyfi mér að skreyta frásögnina á ljóðrænan hátt. Vatnið, gríman og geltið er því ekki þurr ævisaga og upptalning á sjúkdómseinkennum heldur fágæt innsýn í hugarheim veikrar konu á erfiðum tímum. Ég tala um allt og ekkert, gjörsamlega hispurslaust og í bókinni leynast ýmis leyndarmál sem ég hef engum sagt. Titillinn er vísun í þrjár meginmyndlíkingar sem ég vinn með í textanum, vatnið táknar eilífa hringrás lífsins, vonina og endurfæðingu. Grímurnar vísa í þær grímur sem við berum sem sjúklingar, grímur sem við notum til að fela veikindi okkar og vanlíðan og geltið er vísun í gamalgróna myndlíkingu þess að þunglyndið sé eins og að eiga svartan hund, sem eltir þig um allt og ásækir þig. Bókin er þannig ljóðræn og fagurfræðilega frábrugðin hefðbundnum ævisögufrásögnum.
Margar hendur vinna létt verk og ég hefði aldrei getað staðið að þessu verkefni ef ekki væri fyrir stuðning frá fjölskyldu minni og vinum sem hafa lesið handritið spjaldanna á milli í gegnum árin og komið með góða punkta. Það hefur ekki verið auðvelt, enda eru kaflar um fjölskylduna mína og vinkonur mínar, og það er örugglega ekki auðvelt að lesa svona um sjálfan sig. Bókin hefur hjálpað okkur í sameiningu að takast á við áfallið og tilfinningar okkar og ég vona að það verði innblástur fyrir lesendur mína. Ég vil líka þakka Ísak, kærastanum mínum og teyminu mínu, þeim Frank og Sillu sem hafa hjálpað mér að setja upp samfélagsmiðlaherferð fyrir Karolina Fund. Það koma kynningarmyndbönd á næstu vikum sem verður spennandi að fylgjast með, þar sem ég ræði við þrjá þekkta geðsjúklinga um geðheilbrigðismál.
Ég vil síðan þakka stuðning ykkar allra sem styrkið verkefnið, það er ómetanlegt að hafa tækifæri til þess að láta drauma sína rætast á þennan hátt og ég hlakka til að geta boðið í útgáfuteiti og áritað bækurnar fyrir ykkur!“
Hér er hægt að skoða og styrkja verkefnið.