2052 – Svipmyndir úr framtíðinni er bók með safni af smásögum sem allar eiga það sameiginlegt að gerast á Íslandi árið 2052. Smásögurnar koma úr ýmsum áttum, en 25 mismunandi höfundar eiga sögur í bókinni þar sem þeir koma með sitt sjónarhorn á hvernig Ísland geti þróast á næstu 30 árum. Sumar sögurnar eru ansi myrkar og drungalegar, ekki af því að sú framtíð sé ósk höfundar heldur frekar til að vera okkur víti til varnaðar og minna okkur á hverjar afleiðingarnar geta orðið til lengri tíma af ákvörðunum sem við tökum í dag. Aðrar sögur eru mun jákvæðari og hafa það hlutverk að vera okkur innblástur og hvatning til góðra verka.
Segðu okkur frá hugmyndinni að verkefninu?
„Ég starfa sem ráðgjafi fyrir borgar- og ríkisstjórnir um hvernig laða eigi að fjármagn, hæfileikafólk og ferðamenn. Í því starfi eru sviðsmyndir framtíðar mikilvægur hluti af ferlinu sem og skýr framtíðarmarkmið fyrir þróun borgarinnar eða landsins. Mér hefur þótt hins vegar skorta á slíkri framtíðarsýn fyrir Ísland eftir hrun og allt of mikil orka hafa farið í að rífast um hverjum hlutirnir eru að kenna, í stað þess að setjast niður, læra af því sem miður fór og ákveða svo hvernig við getum gert betur. Ég var síðan fengin til þess að skrifa sjálfur smásögur um framtíðina fyrir breskt útgáfufyrirtæki og datt þá í hug að gaman gæti verið að safna saman íslenskum sögum fyrir íslenska framtíð.”
Hvert er markmiðið með bókinni?
„Það sem er markmið mitt með bókinni er að skapa umræðugrundvöll fyrir framtíðarstefnu Íslands. Með því að kalla fram hugmyndir um bæði það sem getur farið vel og það sem getur farið illa vonast ég til þess að þessar sögur geti verið upphafspunktar að umræðum um hvaða áhrif ákvarðanir sem við tökum í dag geta haft á það hvernig samfélag við erum eftir 30 ár. Og það er svo sem ein af ástæðunum líka fyrir því að ég vel þetta ártal, 2052. Upphaflega ástæðan var að þetta ár væri jafnlangt í burtu og liðið er frá árinu 1984, sem gert var ódauðlegt í framtíðarbók George Orwell. Þetta er tími sem er ekki lengra í burtu en svo að við ættum að geta ímyndað okkur ýmislegt um þennan tíma, en nægilega langt í burtu til þess að ákveðin grundvallaratriði geti gjörbreyst sem að gefur okkur aukið frelsi í framtíðarsýninni. Við getum flest séð fyrir okkur árið 1984 og mörg hver munum vel eftir því ári. Sumt hefur ekkert breyst á meðan annað hefur mótast af hugmyndum sem við gátum ekki einu sinni ímyndað okkur þá. Það gerir þetta að skemmtilegu ári til að fást við.“
Var eitthvað sem kom þér á óvart í þeim sögum bárust þér fyrir bókina?
„Já, ég hafði virkilega gaman af því að lesa þær hugmyndir sem koma fram í bókinni. Þær eru jafn ólíkar og þær eru margar og nokkrar þeirra eru alveg þannig að ég þurfti aðeins að draga andann og melta þær þegar ég var búinn að lesa þær. Þær ögra manni og þeim hugmyndum sem maður hefur og setja hlutina í nýtt samhengi. Verður virkilega hægt að skapa sér fjölskyldu á þann hátt sem Margrét Pála lýsir? Eða munu á Íslandi búa tvær þjóðir, önnur á Norðausturhorninu dyggilega studd af kínverskum fjárfestingum og hin á suðvesturhorninu þar sem amerísku áhrifin munu halda uppi gömlu valdaklíkunum eins og prófessor í stjórnmálafræði lýsir á mjög skemmtilegan hátt í sínni sögu? Ég held að það sé margt þarna sem á eftir að koma fólki í opna skjöldu og fá það til þess að hugsa um hvernig samfélag það er sem við viljum búa í eftir þrjátíu og hvað það er sem við þurfum að gera til þess að Ísland verði sá staður sem við gjarnan viljum sjá.“