Hljómsveitin Hjaltalín vinnur nú hörðum höndum að því að leggja lokahönd á fjórðu breiðskífu sína, sem hefur verið í vinnslu í meira en fimm ár. Auk þess heldur hún tónleika í Eldborg, þann 7. september næstkomandi. Liður í þessu er fjármögnun á Karolina fund, en þar gefst fólki á að kaupa nýju plötuna á vínyl og/eða stafrænu formi, auk þess sem það er hægt að fá miða á tónleikana og annað bitastætt.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Verkefnið á sér langan aðdraganda. Eftir að hafa gefið frá sér plötuna Enter 4, þá hófumst við handa við að gera nýja plötu í byrjun árs 2014. Eftir fimm ár í framleiðslu er lokaspretturinn hafinn. Okkur fannst upplagt að fara í samstarf við Karolina fund af því tilefni.
Það hefur alltaf skipt mestu máli fyrir okkur að endurtaka okkur ekki og finna nýjar víddir í samstarfinu. Þetta verður því hægelduð, en vonandi á endanum ljúffeng máltíð. Listinn af lögum sem hafa verið unninn er langur, líklega á milli 30-40 lög ef allt er talið. Mörg þeirra hafa tekið mörgum kúvendingum og við höfum grínast með að gefa út ep plötur sem innihalda 3-4 útgáfur af sama laginu. Við munum auðvitað bara velja þau lög sem passa saman, alveg eins og kokkur setur ekki öll kryddin í sama réttinn. Platan hefur verið samin og unnin í Reykjavík, Berlín, Búdapest, Lundareykjadal, Amsterdam og örugglega fleiri stöðum sem við erum búin að gleyma. Ótalmargir hafa lagt hönd á plóginn og enn fleiri munu gera það á komandi vikum. Þema plötunnar er í rauninni bara lífið sjálft með öllum þeim flækjum og smásigrum sem það bíður uppá.
Við erum bara geysilega ánægð og full tilhlökkunar að 2019 sé árið þar sem allt erfiði síðustu ára ber ávöxt, bæði hvað varðar lifandi tónlistarflutning og útgáfu. Á tímabili fengum við starfslaun listamanna, sem við erum þakklát fyrir og hjálpaði í ferlinu. Fyrsta smáskífan af plötunni, Baronesse, kom út í janúar, við góðar undirtektir og við getum ekki beðið eftir því að fylgja því eftir með nýju efni. Það hafa vissulega skipst á skin og skúrir í ferlinu, en þannig er lífið og lokaafurðin verður þeim mun dýrmætari fyrir vikið. Á meðan þessi plata hefur verið í framleiðslu hafa meðlimir hljómsveitarinnar eignast 4 börn samtals (og fleiri á leiðinni). Þetta hefur verið ógleymanlegt ferðalag, sem brátt tekur enda, en þá tekur við eitthvað nýtt.