Guðný Harðardóttir er sauðfjárbóndi í húð og hár sem vill koma afurðum sínum og öðrum afurðum úr Breiðdalnum á þann stall sem þær eiga heima á. Landbúnaður er stór atvinnugrein í Breiðdalnum og hefur nýliðun þar orðið nokkur, þrátt fyrir slæma rekstrarstöðu í sauðfjárrækt. Því var Breiðdalsbiti stofnaður til að framleiða, markaðssetja og þróa vörur úr kindakjöti og öðrum afurðum úr Breiðdalnum fagra. Ásamt því að auka arðsemi af landbúnaði á svæðinu og styrkja þannig stoðir samfélagsins.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Hugmyndin hefur alltaf kúrt í huga mér, samhliða því að vilja að vera sauðfjárbóndi og geta framfleytt fjölskyldu með því. Vöruþróun og markaðssetning vara úr kindakjöti hefur ekki verið mikil undanfarin ár og má því segja að hvatinn til að framleiða okkar eigin vörur hafi loksins komið, s.s. með lægra afurðaverði.
Þema okkar er ástríða og umhyggja fyrir hráefninu. Að vinna staðbundin matvæli og vera sem vistvænust í framleiðslu okkar með náttúruna í forgrunni.
Á Karolina Fund síðu Breiðdalsbita kemur fram að markaðssetning fyrirtækja úti á landi er dýrari en þeirra sem eru á höfuðborgarsvæðinu, hvað er átt við með því?
Markaðssetning og framleiðsla á landsbyggðinni er erfiðari og dýrari en þeirra fyrirtækja sem eru á Höfuðborgarsvæðinu. Flutningar eru dýrir bæði á fullbúnum vörum og aðföngum, s.s. pakkningum, öðru hráefni o.fl. ásamt þvi að allt tekur lengri tíma að berast til okkar. Markaðssetningin felur einnig í sér fjarveru að heiman og ferðakostnaður því mikill vegna þess. Róðurinn er því oft þungur.
Hér er hægt að skoða og styrkja verkefnið á Karolina Fund.