Sigurður Sigurðsson munnhörpuleikari og söngvari hefur starfað meira eða minna í tónheimum um áratugabil. Þar hefur hann m.a. haldið sig í félagsskapi Kentára, sem stofnuð var árið 1982. Sigurður hefur komið víða við, leikið inn á hljómplötur og diska hjá fjölda hljómsveita og einherja.
Sigurður hefur gefið út þrjá hljómdiska undir sínu nafni, „ALMANAK fyrir Ísland 2008", „At my place" sem kom út árið 2009 og „Kvæði" sem kom út haustið 2011. Nú stefnir Sigurður á útgáfu á sínum fjórða hljómdisk og mun hann bera nafnið "Á besta veg".
Hvernig vaknaði hugmyndin að þessu verkefni?
„Ég var búinn að vera að rýna í ljóð eftir Kristján Hreinsson, bæði á netinu og í ljóðabók sem mér áskotnaðist hjá honum. Ljóðin hans eru þess eðlis, allavega hvað mig varðar, að það er mjög auðvelt að finna riþma og laglínur við ljóðin og það gerðist oftar en ekki þegar ég las þau. Þetta safnaðist saman og þegar ég var kominn með 16 grunna að lögum var ekkert annað að gera en að drífa sig í upptökur. Ég var grimmur við sjálfann mig og endaði með því að velja 11 lög sem ég vann síðan áfram með eðaltónlistarmönnum.
Hvert er þema verksins?
„Það er kannski ekkert ákveðið þema, og þó, því að það kemur oftar en einu sinni fyrir þau skilaboð að allt muni fara á besta veg eins og Birtingur hans Voltaires hélt fram forðum að heimurinn væri ekkert annað en dásamlegur og: ".... að allt sé í allrabesta lagi.“ Allavega ríkir ákveðin bjartsýni í textum Kristjáns þó hann sé nú aðeins gagnrýnni en Birtingur á tilveruna. Það átti allavega vel við að titill albúmsins yrði "Á besta veg".
Upptökur fóru fram í stúdíó Sogaveri og voru að nokkru leiti teknar upp "lifandi" þ.e.a.s. trommur, bassi og gítar voru teknir upp saman í einu rennsli, en síðan var öðrum hljóðfærum bætt við síðar.
Þetta er búið að vera einstaklega gefandi og skemmtilegt ferli og vil ég nota tækifærið að þakka öllum sem höfðu nennu í þetta með mér.“