Alda Villiljós stendur þessa dagana fyrir hópfjármögnun á eldhúsaðstöðu sem mun vera nýtt í 100% vegan matarframleiðslu. Alda fókusar sjálft á bakstur, eftirrétti og sætindi, en hán byrjaði að selja slíkt undir nafninu Namm! fyrr á þessu ári. Ný eldhúsaðstaða myndi veita Öldu mun meira svigrúm til að framleiða sætindin, en hán vill líka að eldhúsið verði aðgengilegt til leigu fyrir aðra sem vilja nýta sér slíka aðstöðu.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Þetta byrjaði á síðasta ári, en þá hafði ég verið að vinna á Kaffi Vínyl í u.þ.b. eitt ár sem bakarinn þeirra. Í vinnunni þar fékk ég mikið frelsi til að prófa mig áfram bæði með eigin uppskriftir og annarra, og allt vegan. Vörurnar sem ég gerði urðu mjög fljótt gríðarlega vinsælar meðal vegan samfélagsins og í byrjun síðasta árs fór ég að fá þessa spurningu frá fólki, hvort ég ætlaði ekki bara að byrja með eigið fyrirtæki og framleiða og selja kökur og sætindi. Ég maldaði í móinn frekar lengi, en í lok síðasta árs tók ég þá ákvörðun að demba mér í sjálfstæðan atvinnurekstur. Ég hætti í vinnunni hjá Vínyl og byrjaði að auglýsa fyrirtækið og taka við pöntunum. Það tók ekki langan tíma þar til ég var komið í samstarf við Linneu og Krumma hjá Veganæs, en ég fæ að nota eldhúsið þeirra þegar þau eru ekki að nota það. Það kom samt eiginlega strax í ljós að það myndi ekki nægja mér svo ég verð að stækka við mig fljótlega. Mér líður líka alltaf frekar illa að þurfa að keyra niður í miðbæ vegna þess að ég þurfi að ferja fullt af hráefnum á milli eldhúsa til að hafa í við pantanirnar; helst vildi ég að sjálfsögðu labba eða taka strætó!“
Hver eru undirstöðuatriðin fyrir verkefnið?
„Ég veit að ég er ekki eitt um að finnast það góð tilhugsun að vegan maturinn sem ég borða sé ekki framleiddur þar sem einnig er verið að matreiða og meðhöndla kjöt eða osta. Veganisminn er sérstakur að því leyti að þetta er ekki bara matarkúr, það er svo margt annað sem getur spilað inn í það af hverju fólk verður eða er vegan, og þó að ofnæmi geti átt sinn stað þar (vegan fólk þróar líka oftast með sér ofnæmi fyrir kjöti og mjólkurvörum eftir einhvern tíma) þá eru siðferðisástæðurnar oft ráðandi. Þess vegna eru mörg okkar líkleg til að fara úr vegi okkar eða borga aðeins meira fyrir vörur sem eru framleiddar af vegan fyrirtækjum og í vegan umhverfi. Að sama skapi myndi ég vilja geta sett upp krók af eldhúsinu með sér tækjum til að framleiða vörur sem væru ekki með hnetum, og seinna meir einnig fyrir glútenlausar vörur.“
Af hverju ætti fólk að styðja við verkefnið þitt?
„Það eru nokkrar ástæður! Fyrst og fremst vegna þess að það er góð tilfinning að styðja við farsælt verkefni - og miðað við hversu vel hefur gengið hingað til veit ég að Namm! er komið til að vera. Veganisminn hefur vaxið ótrúlega hratt á Íslandi á síðustu árum og ég er viss um að við þekkjum núorðið öll a.m.k. eina vegan manneskju; og er þá ekki frábært að geta pantað veganköku eða snarl fyrir veislur á verði sem er samkeppnishæft við annað bakkelsi? Mér finnst mjög mikilvægt að vegan vörur séu aðgengilegar og því er það draumurinn að geta boðið upp á ódýrar vörur án þess að slá af gæðakröfum.. Síðast en ekki síst, þá eru mjög girnileg verðlaun í boði fyrir öll þau sem leggja til pening í verkefnið; konfektkassar, kökur, inneign í veislubakka og fleira.“