„Myndin hverfist um fastagestinn Helga Hafnar Gestsson en mig langar til að blanda saman ljósmyndum úr fortíð og nútíð sem segja mikið um mannlífið á þessu svæði í miðbæ Reykjavíkur.“
Prikið kaffihús í miðbæ Reykjavíkur á sér langa og litríka sögu. Í dag er rekið þar kaffihús á daginn en skemmtistaður á kvöldin og um helgar. Prikið er vagga íslenskrar hip hop menningar og þar fá listamenn að njóta sín hvort sem þeir fást við tónlist, myndlist eða eitthvað annað. Prikið er með góðan fastakúnnahóp en þó er einn miðbæjarkarakter og fastagestur sem sker sig ávallt úr hópnum. Það er ljúfmennið Helgi Hafnar sem mætir á Prikið daglega með bros á vör, allir keppast um að faðma hann því hann hefur einstaklega kærleiksríka nærveru. Hann virðist þrífast vel á rútínu, sest alltaf á sama stað (sem hann hefur gert áratugum saman), fær alltaf sama bolla og með bros á vör spjallar hann við unga sem aldna, ferðamenn, pönkara og heimspekinga. Miðbærinn og Prikið væru ekki eins skemmtileg án Helga sem er krydd í tilveruna og mikill viskubrunnur um sögu eins fyrsta kaffihúss Reykjavíkur.
Áður hefur Magnea B. Valdimarsdóttir, leikstjóri unnið heimildamyndirnar Hverfisgötu, Bónuskonur og Kanarí og er nú að safna styrkjum til þess að klára myndina ,,Helgi á Prikinu".
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Ég hef verið að vinna myndir um miðbæinn frá 2011. Það er greinilega úr mörgu að velja og safaríkt efni fyrst ég held mig við hann. Kannski vegna þess að ég hef verið búsett hér svo lengi og tek eftir hlutum sem aðrir sjá ekki, líkt og að búa í litlu þorpi úti á landi en vera aðfluttur. Raunveruleikinn er svo stórkostlegt viðfangsefni.
Hitt er bara froða. Nei, djók.
Við ætlum að reyna að fanga andrúmsloftið í kringum Helga sem er alveg einstakt. Allir virðast róast og verða ögn betri og hlýlegri eftir stutta stund í návígi við hann. Það var kona sem þekkir Helga (eins og svo margir) sem sagði við mig að hann væri jafnvel of góður fyrir þennan heim. Þess vegna er svo mikilvægt að kveikja von. Hraðinn og jafnvel aukin meðvitund um stöðu mála í heiminum er að gera okkur öll örlítið geðveikari og þá eru allir að hugsa um sig í stað þess að taka sér tíma til að horfast í augu, bjóða góðan daginn og spjalla örlítið. Mynda tengsl og sýna hvort öðru hlýju. Auk þess á Prikið sér merkilega sögu sem Helgi þekkir vel og gaman að blanda því við listsköpun ungs fólks í dag, t.d. er hip hop senan á Íslandi og ýmis grasrót afar tengd Prikinu.
Þetta er í annað sinn sem Magnea stendur fyrir söfnun á Karolinafund en hin söfnunin vegna ,,Kanarí" sem hún gerði með Mörtu Sigríði Pétursdóttur gekk vonum framar. ,,Það er bara óskandi að maður geti farið að gera þetta að lifibrauði sínu og að maður þurfi ekki alltaf að reiða sig á gæsku almennings. En er óskaplega þakklát fyrir stuðninginn. Maður fer nú ekki út í heimildamyndagerð til að græða neitt á því eins og vinur Helga á Prikinu spyr mig reglulega um."
Hér er hægt að skoða og taka þátt í verkefninu.