„Fólk þarf að finna að það sé hluti af samfélaginu“

Á dögunum hitti Melkorka Mjöll Kristinsdóttir Salmann Tamimi, formann Félags múslima á Íslandi og spjallaði við hann um lífshlaup hans, reynsluna af því að vera innflytjandi á Íslandi.

Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi.
Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi.
Auglýsing

„Velkomin!“ sagði Salmann og brosti, þegar hann tók á móti mér á heimili sínu í Breiðholti. Við settumst inn í stofu, þar sem stærðarinnar heimskort í öllum regnbogans litum prýðir einn vegginn. Löndin eru aðgreind með mismunandi litum en um leið mynda þau fallega heild.

Alinn upp í fjölmenningarsamfélagi

Segðu mér frá sjálfum þér? 

„Ég er fæddur og alinn upp í fjölmenningarlegu samfélagi Jerúsalem í Palestínu. Ég fór í kristinn skóla og kennararnir voru allir Bretar. Í skólanum voru einnig nunnur frá Ítalíu og munkar frá Grikklandi, Bretlandi og fleiri stöðum.“

Auglýsing

Kom til Íslands á fallegum sumardegi

„Ég kláraði menntaskólann ungur, sextán ára gamall, og kom til Íslands á leið minni, sem var heitið til Bandaríkjanna til að læra læknisfræði. En ég átti enga peninga, bara átta hundruð krónur. Þannig að ég hugsaði með mér að ég gæti unnið á Íslandi í þrjá mánuði áður en ég færi til Bandaríkjanna í nám. En ég var mjög ánægður með samfélagið á Íslandi og ílengdist.“

17. júní

„Daginn sem ég kom til Íslands var mjög fallegt veður. Ég kom 3. júní árið 1971. Ég var ekki vanur því frelsi sem fólk lifði við á Íslandi. Sautjánda júní sá ég fólk dansandi og hlæjandi og allir voru ánægðir. Þetta þekkjum við ekki, Palestínumenn, þar sem við erum undir hernámi.

En svo tók ég eftir að lögreglan var með kylfur. Ég var vanur að sjá lögregluþjóna með kylfur, bara til að berja mig með. Ég spurði því vin minn „hvað, er alltaf verið að mótmæla hérna?“ Vinur minn sagði „af hverju heldurðu það? ég svaraði „nú löggan er með kylfur“. Hann sagði þá þeir nota þær til að stjórna umferðinni. Mánuði eftir að ég kom til Íslands fór ég á togara frá Hafnarfirði. Mér leið mjög vel hérna. Mér fannst þetta vera alveg frábært land. Reykjavík var á þessum tíma mjög lík Jerúsalem að því leitinu að þar bjuggu fáir og allir þekktu alla. Svo vann ég alls konar vinnu; ég var sjómaður, vann í byggingavinnu og alls konar störf. En markmiðið var að mennta mig.“

Var látinn finna að ég var velkominn

„Ég var látinn finna að ég væri velkominn. Þess vegna á ég marga vini á Íslandi. Það eina sem fólk átti erfitt með að samþykkja var að ég drekk ekki brennivín og borða ekki svínakjöt. Það var gert grín að því. En það var reyndar ekki mikið um svínakjöt á Íslandi á þessum tíma. Ég lét mér nægja lambakjöt, sem mér finnst alveg æðislegt. Ég giftist og eignaðist fimm börn og fullt af barnabörnum. Ég þakka Guði fyrir það.

„Loks fór ég í Háskóla Íslands og lærði tölvunarfræði og vann svo sem kennari, í tölvudeild Landspítalans og fleiri stöðum. Ég stofnaði svo Félag múslima á Íslandi árið 1997 og er þar forstöðumaður (Imam). Við vorum fimm til að byrja með en erum í dag stærsta félag múslima á Íslandi. Við vildum hittast og biðja saman því það er skylda hjá okkur að hittast á föstudögum. Við keyptum húsnæði í Ármúlanum árið 2000 og erum þar ennþá.“

Útlendingar voru oft á tíðum þeir einu sem töluðu við samkynhneigt fólk af virðingu

„Ég sat oft á Kaffi Tröð sem ungur maður. Þar tók ég eftir að samkynhneigt fólk varð fyrir aðkasti og fáir vildu tala við þá og drekka með þeim kaffi. Ég kynntist mörgum þeirra, alveg indælis fólk. Margir þeirra urðu góðir vinir mínir eða kunningjar. Á þessum tíma voru útlendingar oft á tíðum þeir einu sem vildu sitja með þeim og drekka kaffi, og tala við þá af virðingu.“

Með gífurlegri baráttu, og með mannfórnum, náðu þeir fram réttlæti, en margir þeirra frömdu sjálfsmorð. Við viljum ekki svona! Við viljum að öllum líði vel í samfélaginu. Fólk ræður þessu ekki. Rétt eins og að ég fékk ekkert að ráða því að ég skyldi fæðast í Palestínu. Ég var ekki spurður.“

Guðshús fyrir alla Íslendinga

„Svo sóttum við um lóð til að byggja mosku og fengum lóðina. Arkitektinn er að vinna í teikningunum núna. Ég var einmitt að tala við arkitektinn áður en þú komst, vegna pappíra hjá Borginni til að fá byggingarleyfi.

Það er misskilningur sem sumir segja að þetta sé hús fyrir múslima. Þetta er hús fyrir Íslendinga! Guðshús fyrir alla Íslendinga. Allir geta komið þangað, þar sem þetta er guðshús, rétt eins og kirkjur. Ég get farið í kirkjur og enginn er að pæla í því, þetta er nákvæmlega eins,‘‘ segir Salmann með áherslu.

„Við hliðina á lóðinni sem við fengum er Hjálpræðisherinn að byggja. Við eigum í ágætis sambandi við öll trúfélög.“

Kona Salmanns, Ingibjörg Tamimi Sigurjónsdóttir, kemur heim og sest hjá okkur inni í stofu.

Mikil vinna að hugsa um konuna

Hvernig er venjulegur dagur í lífi þínu?

„Að hugsa um mig,‘‘ segir konan hans glettin.

„Já það er mikil vinna að hugsa um konuna mína,“ segir Salmann og hlær.

Ekki gott að finnast enginn vera að hugsa um þig

„En ég fer niður í mosku milli klukkan tíu og ellefu, og er þar til klukkan fjögur að taka á móti fólki, meðal annars fólki sem vill fræðast um íslam og tala við mig. Það eru ýmis vandamál sem fólk er að glíma við og þarf að geta talað um. Það er ekki gott að finnast enginn vera að hugsa um þig. Hugmyndin að baki mosku er einmitt sú að fólk komi saman í samfélagi. Þá finnur fólk ekki fyrir einangrun.

Svo eru ýmis verkefni, til dæmis þegar fólk eignast börn eða giftist og jarðarfarir. Þetta eru í raun sömu verk og hjá prestum.“

Alltaf gott þegar fólk með ólíkan bakgrunn talar saman

„Hér er fólk frá Gambíu, Pakistan, Alsír, Afganistan, Bangladess, Íslendingar, Ameríkanar. Fólk frá Indónesíu, alls staðar að. Allir hittast á föstudögum í föstudagsbæn. Það eru því margir ólíkir siðir sem fólk í Félagi múslima er með. En við sameinumst í trúnni. Við biðjum eins, föstum eins, gefum ölmusu og allt þetta sem við þurfum að gera. Úr verður menningar-blöndun (e.merging of cultures).

„Svo hittumst við einnig einn laugardag í mánuði og borðum saman rétti frá öllum heimshornum en þá er markmiðið aðeins eitt; að njóta lífsins og gleðjast saman. Þegar fólk af ólíku þjóðerni og með ólíkan bakgrunn hittist og talar saman þá kemur alltaf eitthvað gott út úr því.“

Fékk brúna litinn frítt

Tamimi.„Við sem manneskjur höfum nefnilega öll sömu grunn þarfirnar. Þeir hlutir sem greina okkur að, snerta ekki þessa grunn þörf okkar sem er að vera ánægð, góð og að elska hvert annað.

Það getur verið að ég klóri mér hægra megin og þú vinstra megin. Hvaða máli skiptir það? Eða ef ég nota vinstri eða hægri hendina? So what! Og ef þú ert alveg kolsvartur eða skjanna hvítur? Þú fékkst ekkert að ráða því, og ekki ég heldur. Þú ert ekki betri en ég og ég er ekki betri en þú. Guð skapaði okkur bæði og þú ert systir mín og ég er bróðir þinn.

Ég fékk ekki að ráða að ég er brúnn á litinn. Ég veit reyndar ekki betur en að margir Íslendingar fari til Spánar til að verða brúnir eins og ég, en ég fékk það bara frítt,“ segir Salmann og hlær.

„Svo, af hverju ætti fólk að vera að aðgreina fólk bara vegna þess hvernig það hugsar eða hvernig það lítur út? Talaðu við fólk og þá sérðu hvort það geti orðið  vinir þínir eða kunningjar.“

Við erum öll félagar í sömu lífsbaráttunni

„Allt mannkynið hefur sömu draumana og sama markmiðið; að búa í friði, hugsa um fjölskylduna, að geta alið börnin sín upp, menntað sig og geta tekið þátt í samfélaginu. Einnig að finna að maður er virtur eins og aðrir og að maður er að leggja eitthvað af mörkum fyrir landið. Það er alveg sama hvaða trúarbrögð fólk aðhyllist eða hvernig það er á litinn. Þetta eru grundvallaratriðin hjá okkur öllum. Hvítir og svartir eru að vinna að því sama.

Hvað þýðir „samfélag“? Það þýðir að við búum saman og erum í félagi saman. Við erum öll félagar og við erum í sömu lífsbaráttunni. Það þýðir það að þú ert með alls konar manneskjur sem eru allar að stefna að þessu markmiði, sem ég nefndi.

Það hvar ég bý eða hvernig ég klæðist kemur engum við. Sem betur fer höfum við lög í landinu, sem samfélagið hefur sett og enginn er hafinn yfir lögin. Það má til dæmis ekki níðast á öðrum.“

Fólk fer mismunandi leiðir til að nálgast Guð

„Múslimar trúa að það sé bara einn Guð en það eru náttúrulega mismunandi reglur milli trúfélaga og fólk fer mismunandi leiðir til að nálgast Guð. En boðskapurinn er sá sami: Að vera góður borgari og hugsa vel um jörðina okkar, þar sem við erum fulltrúar Guðs á jörðinni. Við verðum að standa okkur í því hlutverki. Þegar við komum til Guðs eftir okkar stutta tíma hér á jörðinni, hvort sem það eru 60, 70 eða 80 ár, verðum við að gera grein fyrir því hvernig við höguðum lífi okkar.“

Hatursorðræða hefur aukist

„Ég er stoltur af íslenskri menningu og þeim framförum sem hafa átt sér stað hér á landi á síðustu þrjátíu til fjörutíu árum. Ég kom til Íslands þegar landið var fátækt. Með dugnaði og Guðs vilja höfum við náð miklum framförum.

En því miður hefur ekki allt þróast til betri vegar. Á síðustu 10-15 árum er einhver hópur farinn að ráðast að fólki. Þetta á ekki bara við um útlendinga, einnig aðra hópa eins og til dæmis öryrkja og áfengissjúklinga. Áður fyrr heyrði maður ekki um að það væri verið að ráðast að þessum hópum í svona miklum mæli eins og nú er. Alls konar hatur hefur splundrað samfélaginu í marga hópa. Það finnst mér miður.

Talað er á þeim nótum að „það kostar okkur svo mikið'' eða að þessir hópar sé ekki nógu góðir fyrir samfélagið. En ég segi, við erum í samfélagi! Við erum öll búin að byggja þetta samfélag sem við erum í. Við eigum að skila betra samfélagi til okkar afkomenda, en ekki sundra fólkinu. Það finnst mér hættulegast.“ 

Það skiptir máli hvað við lærum í skólanum og heima

Hver heldurðu að sé ástæðan fyrir því að alls konar hópar hafa einangrast í samfélaginu?

„Mér finnst að menntakerfið okkar hafi brugðist með því að það er látið viðgangast í skólanum að krakkar segi til dæmis, þegar þeir rífast, „hann er hommi.'' Með því að leyfa þessu að viðgangast þá ert þú að kenna krökkunum að það sé í lagi að tala svona. Það skiptir máli hvað við lærum í skólanum, þar sem við erum að byggja upp samfélagið.

Eins ef ég sem fullorðinn einstaklingur sit með krökkunum mínum og segi til dæmis „helvítis Bandaríkjamenn“, þá alast krakkarnir upp við það að hata Bandaríkjamenn. Við verðum því að passa okkur hvernig við tölum. Ég vil ekki að börnin mín séu eins og villimenn niðri í bæ að kíla Bandaríkjamenn, Breta, Íslendinga eða einhverja og líta ekki á þá sem manneskjur.“

Sumir misskilja hvað felst í málfrelsi

„Það þarf að herða lögin gegn hatursorðræðu. Það má ekki loka augunum fyrir þessu. Þitt frelsi endar þar sem mitt frelsi byrjar. Þú mátt ekki skerða mitt frelsi. Á meðan þetta er svona og fólk felur sig á bak við málfrelsi þá er það að misskilja hvað felst í málfrelsi.

Málfrelsi felst í að tala fallega eða gagnrýna almennilega, eftir að þú ert búin að stúdera hlutina og getur gagnrýnt með einhverju viti. Ég get ekki staðið hérna og sagt 1+1 eru 3. Bara svona af því mér datt það í hug. Á ég að kenna það í skólanum? Þá myndi skólastjórinn koma og stoppa mig og segja „þetta er vitleysa, þú mátt ekki kenna þetta“. Allir myndu bara segja „þegiðu, 1+1 eru tveir.“

Af hverju má ég þá segja öryrkjar eru of dýrir fyrir samfélagið, við borgum styrkinn fyrir þá. Þegar málið er skoðað þá kemur í ljós að peningarnir sem þeir fá eru ekki neitt neitt. Þetta er spurning um réttlæti.“

Réttlæti snýst um að allir geti nýtt sér tækifærin

„Það þarf að vera réttlæti í samfélaginu. Ef að þú ert með tröppur og þú segir ég er búin að byggja tröppur fyrir alla, og jú, jú, allir mega nota tröppurnar jafnt. En fatlaður maður getur ekki notað þessar tröppur.

Við verðum að kenna alveg frá byrjun að þú verður að virða manneskjuna, eins og hún er. Guð skapaði okkur ekki alla eins, með sömu hugsanir, annars værum við bara eins og dýr. En við þökkum Guði fyrir að hann gaf okkur heila til að hugsa og þróa áfram hluti. Ef við værum alveg eins og forfeður okkar þá myndum við ennþá búa í torfbæjum. En við erum ekki eins og foreldrar okkar eða forfeður. Hver kynslóð kemur fram með eitthvað nýtt, og við eigum að koma fram bara með það sem er fallegt, ekki það sem sundrar fólki.“

Börnum af erlendum uppruna líður oft á tíðum ekki vel í skólanum

Þú talar um hlutverk menntakerfisins, nú hafa grunnskólarnir farið að fræða krakkana um til dæmis samkynhneigð. Þarf að fara að koma meiri fræðsla um fjölmenningu inn í skólana?

„Einmitt, fyrir alla. Ef að þú skoðar tölurnar þá sérðu að flest útlensk börn flosna úr skóla eftir tíunda bekk. Maður þarf að spyrja sig hvers vegna?

Það getur verið tungumálið en það er ekki bara það. Það er líka ljóst að þeim líður ekki vel. Ef manni líður vel í skólanum þá heldur maður áfram.

Við sjáum til dæmis að við erum með málleysingja en við virðum þá og reynum að hjálpa þeim. Af hverju ætti hvítur málleysingi að fá meiri hjálp en útlendingur sem talar ekki málið? Ef þú sérð einhvern brenna þá áttu að slökkva eldinn, þú ferð ekkert að spyrja „heyrðu, ertu svartur eða hvítur eða múslimi eða gyðingur?““

Börn foreldra sem tala ekki íslensku þurfa meiri aðstoð í skólanum

„Ef foreldrar mínar kunna ekki eitt orð í íslensku þá myndi ég sem krakki ekki læra tungumálið eins vel og krakkar sem eiga íslenska foreldra, og þá auðvitað verð ég eftir á. En þá er enginn sem segir til dæmis „við getum sleppt þessu, einbeitum okkur að hinu, við finnum einhverjar leiðir til að hjálpa.‘‘

Við viljum ekki að þetta fylgi krökkunum inn í framtíðina þannig að þeir sem eru fátækir verði alltaf fátækir. Það gerðist í Evrópu. Það var ekki hugsað um alla útlendingana sem komu þangað og þess vegna eiga þeir enga framtíð. Þeir telja sig ekki hafa neina framtíð og þá er hættan sú að þeir leiðist út í glæpi.“

Ekki bara vegna tungumálsins

„En þetta er ekki bara vegna tungumálsins. Það er líka vegna þess að þeir líta öðruvísi út, það hefur mikið að segja. Þú sérð að við eigum frábæra íþróttamenn sem eru svartir. Það er alltaf verið að níðast á þeim, líka þeim sem eru fæddir og uppaldir Íslendingar, ættleiddir Íslendingar. Þeir lenda í sama vandamáli, það er að segja, þeir fá ekkert að vera hluti af samfélaginu. Fólk þarf að finna að það sé hluti af samfélaginu.“

Hálfvitar sprengja sig í loft upp

„Þegar einhver segir: það eru að koma múslimar til Íslands, þeir eru búnir að vera í stríði og sprengja allt í loft upp í Sýrlandi og Líbanon, auðvitað verður fólk hrætt, af því það hefur ekkert lært um íslamska menningu í skólanum. Það er vont fólk alls staðar, líka innan okkar raða. Fólk sem við þurfum að hjálpa eða sem þarf að loka inni með lás og slá.“

Alhæfingar um hópa fólks byggja á þekkingarleysi

„Ef einhver hálfviti sprengir sig í loft upp í París. Auðvitað finnst mér það sorglegt og fáránlegt og allt það, en það lýsir ekki öllum múslimum. Af hverju segir fólk að allir múslimar sprengi sig í loft upp eða að allir Ameríkanar séu vondir eða allir Gyðingar? Einu sinni voru öll vandamál sögð vera Gyðingum að kenna og þá voru þeir drepnir. Þess vegna er það hlutverk menntakerfisins að mennta fólk.“

Ætlar fimmti hver maður að drepa mig, selja dóttur mína eða að ræna mig?

„Í vor voru fjórir Íslendingar handteknir fyrir að smygla til landsins tíu kílóum af kókaíni. Eru þá allir Íslendingar að smygla? Þegar fólk fer að alhæfa þá ætti það að hugsa út í að múslimar eru fimmtungur mannkynsins. Er fimmtungur mannkyns glæpalýður? Þá myndi ég ekki getað gengið eitt eða neitt úti við, ef fimmti hver maður ætlar að drepa mig eða selja dóttur mína eða ræna mig.“

Íslendingar eru ekki bara þeir sem eru hvítir með blá augu og ljóst hár

„Stundum spyrja krakkar mig „hvenær komstu til Íslands“ Ég svara oft „áður en pabbi þinn fæddist,“ segir Salmann og hlær dátt. 

Svo verður Salmann alvarlegri í bragði og segir: „En ég á rætur í Palestínu. Þetta er erfiðara fyrir barn sem fæðist og elst upp á Íslandi eða er ættleitt til Íslands og telur sig vera Íslending því það þekkir ekkert annað, ef allir í samfélaginu segja „nei, þú ert ekki Íslendingur, hvenær komstu til landsins?“, í staðinn fyrir að segja „Sæll og blessaður, hvað segir þú?“, en hann er fæddur og uppalinn hérna! Það þarf að breyta þessum hugsunarhætti. Íslendingar eru ekki bara þeir sem eru hvítir með blá augu og ljóst hár.“

Ekki bara innflytjendur sem finna sig utan samfélagsins

„Og Það eru raunar fleiri en innflytjendur sem eiga við þetta vandamál að stríða. Það eru margir í samfélagi okkar sem eiga hér rætur langt aftur í ættir, sem finna sig vera utan samfélagsins. Samanber fólk með fatlanir, fólk sem á við veikindi að stríða, öryrkjar og aldraðir. Við viljum yfirleitt gleyma þessum hópum.

Við skiptum samfélaginu meira að segja í enn þá minni parta, því miður. Til dæmis er fólk sem býr í efra Breiðholti stundum talið vera ómerkilegra en þeir sem búa til dæmis á Seltjarnarnesi, þó þetta sé sama fólkið. Til dæmis ef ég bý í efra Breiðholti og bróðir minn á Seltjarnarnesi, þá er bróðir minn álitinn hærra settur.“

Við berum ábyrgð gagnvart nágrönnum okkar

„Í okkar fjölskyldu og menningu frá Palestínu og í okkar trú, þá er það þannig að okkur ber skylda til að hugsa um nágranna okkar. Ekki bara þá sem eru við hliðina á okkur heldur áttu að fara lengra, vegna þess að við þurfum öll á hverju öðru að halda. Til dæmis ef ég sé að bíllinn hjá nágranna mínum hefur ekki verið hreyfður í fjóra eða fimm daga, þá fer ég að hafa áhyggjur. Það getur verið að hann hafi dottið og fótbrotnað. Þá banka ég hjá honum og spyr „hvernig hefurðu það, er eitthvað að“.“

Það gleður hjarta fólks þegar öðru fólki er ekki sama

„Einn nágranni minn er fullorðin kona, búin að missa manninn sinn. Og hún er alltaf svo þakklát þegar við bönkum og spyrjum hvernig hún hafi það, hvort hana vanti eitthvað úti í búð og svona. Ég meina, við erum öll manneskjur, við þurfum að tala hvert við annað. Það gleður hjarta fólks þegar öðru fólki er ekki sama og passar upp á mann. Við töpum engu á því. Maður á ekkert að vera feiminn að sýna þessa góðu hlið á manneskjunni.

Allt hverfið þekkir mig því ég tala við alla. Konan mín er stundum alveg að gefast upp á því,“  segir Salmann og hlær. „Sjálfur er ég háður öðru fólki. Ég þurfti til dæmis á mömmu minni að halda frá því hún fæddi mig alveg þangað til hún dó. Fyrst var ég háður henni alveg 100% þegar ég var á brjósti. En svo þurfti ég á henni að halda tilfinningalega bara alla tíð.“

Fékk sama krabbamein og Stefán Karl

Salmann hefur sannarlega mörgu að miðla og það er enga þreytu á honum að sjá. Það kemur mérTamimi. því verulega á óvart þegar hann segir:

„Tungan er það eina sem virkar núorðið, þar sem ég er búin að vera að glíma við alls konar veikindi, eins og konan mín veit, hún er alltaf að senda mig á spítala, alveg að deyja, svo sprett ég upp, ekkert að mér,‘‘ segir hann og hlær.

„Fyrir stuttu þá var það krabbamein. Ég fékk sama krabbamein og Stefán Karl leikari. Ég fór í níu tíma aðgerð. Læknirinn, greyið, var að reyna að auðvelda mér þetta með því að tala við mig, því það voru ekki taldar miklar líkur á að ég myndi vakna úr aðgerðinni. Ég sagði við læknirinn áður en hún skar mig „ég veit að þú leggur þig hundrað prósent fram um að gera þitt besta, og þetta er allt í hendi Guðs.“ Ég er mjög sáttur, ef hann ætlar að taka mig. Ég er „reddí“. 

Öll fjölskyldan kom grenjandi til að kveðja mig, en svo spratt ég bara aftur upp. Það er ljóst að Guð vill ekki fá mig strax.“

Þegar maður lendir í veikindum finnur maður hvað maður er lítilsmegnugur

„Við stjórnum þessu ekki. Þegar maður lendir í svona þá finnur maður hvað maður er lítilsmegnugur. Hvernig þykist ég þá ætla að stjórna öðrum þegar ég hef enga stjórn á því hvort ég anda eða ekki?

Núna er ég laus við krabbameinið, það var tekið strax. Engir geislar og ekki neitt.“

„Mér tekst ekki að drepa hann,“ segir konan hans sposk. Salmann hlær.

„Í næstu tilraun þá var ég með of hraðann hjartslátt, þannig að ég fékk nýjan bjargráð. En ég get ennþá talað. Reyndar hatar konan mín það. Hún vill að ég missi tunguna.“ Við hlægjum öll.

Það eina sem við eigum að skilja eftir okkur er gott orð

Hvað finnst þér skipta mestu máli í lífinu?

„Að gera gott verk og gleðja þannig Guð. En það er ekki eins einfalt og það hljómar. Því að það að gera gott verk er mjög stórt orð. Það felur í sér að ég á að hugsa um mína nánustu, konuna mína og börnin mín. Reyna að ala börnin upp sem gott fólk eftir bestu getu og forðast að gera það sem er illt. Og gera það vegna þess að Guði þóknast það. Og ef ég geri eitthvað illt þá á ég að biðjast fyrirgefningar. Fólk gerir mistök, en Guð er miskunnarsamur og fyrirgefur mér ef ég iðrast af öllu hjarta og reyni að betrumbæta mig.

Eins og stendur í Kóraninum „Jesús er orð Guðs“, og hvað þýðir það? Það þýðir að hann lifði lífi sínu algjörlega eins og Guð vildi. Þessir miklu spámenn, þessir bestu menn. Það sem þeir voru að segja var bara þetta „trúið á Guð, verið góð við hvert annað, byggið upp samfélag sem Guð verður ánægður með. Ekki níðast á nágranna þínum eða annari þjóð eða drepa og ræna og arðræna. Við tökum veraldlega hluti ekki með okkur í gröfina. Við getum jafnvel skapað vandamál ef við skiljum eitthvað eftir okkur fyrir erfingjana, við höfum mörg dæmi um það. Það eina sem við eigum að skilja eftir okkur er gott orð. Að við vorum gott fólk.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiViðtal