„Fólk þarf að finna að það sé hluti af samfélaginu“

Á dögunum hitti Melkorka Mjöll Kristinsdóttir Salmann Tamimi, formann Félags múslima á Íslandi og spjallaði við hann um lífshlaup hans, reynsluna af því að vera innflytjandi á Íslandi.

Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi.
Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi.
Auglýsing

„Vel­kom­in!“ sagði Sal­mann og brosti, þegar hann tók á móti mér á heim­ili sínu í Breið­holti. Við sett­umst inn í stofu, þar sem stærð­ar­innar heimskort í öllum regn­bog­ans litum prýðir einn vegg­inn. Löndin eru aðgreind með mis­mun­andi litum en um leið mynda þau fal­lega heild.

Alinn upp í fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lagi

Segðu mér frá sjálfum þér? 

„Ég er fæddur og alinn upp í fjöl­menn­ing­ar­legu sam­fé­lagi Jer­úsalem í Palest­ínu. Ég fór í krist­inn skóla og kenn­ar­arnir voru allir Bret­ar. Í skól­anum voru einnig nunnur frá Ítalíu og munkar frá Grikk­landi, Bret­landi og fleiri stöð­u­m.“

Auglýsing

Kom til Íslands á fal­legum sum­ar­degi

„Ég kláraði mennta­skól­ann ung­ur, sextán ára gam­all, og kom til Íslands á leið minni, sem var heitið til Banda­ríkj­anna til að læra lækn­is­fræði. En ég átti enga pen­inga, bara átta hund­ruð krón­ur. Þannig að ég hugs­aði með mér að ég gæti unnið á Íslandi í þrjá mán­uði áður en ég færi til Banda­ríkj­anna í nám. En ég var mjög ánægður með sam­fé­lagið á Íslandi og ílengd­ist.“

17. júní

„Dag­inn sem ég kom til Íslands var mjög fal­legt veð­ur. Ég kom 3. júní árið 1971. Ég var ekki vanur því frelsi sem fólk lifði við á Íslandi. Sautj­ánda júní sá ég fólk dans­andi og hlæj­andi og allir voru ánægð­ir. Þetta þekkjum við ekki, Palest­ínu­menn, þar sem við erum undir her­námi.

En svo tók ég eftir að lög­reglan var með kylf­ur. Ég var vanur að sjá lög­reglu­þjóna með kylf­ur, bara til að berja mig með. Ég spurði því vin minn „hvað, er alltaf verið að mót­mæla hérna?“ Vinur minn sagði „af hverju held­urðu það? ég svar­aði „nú löggan er með kylf­ur“. Hann sagði þá þeir nota þær til að stjórna umferð­inni. Mán­uði eftir að ég kom til Íslands fór ég á tog­ara frá Hafn­ar­firði. Mér leið mjög vel hérna. Mér fannst þetta vera alveg frá­bært land. Reykja­vík var á þessum tíma mjög lík Jer­úsalem að því leit­inu að þar bjuggu fáir og allir þekktu alla. Svo vann ég alls konar vinnu; ég var sjó­mað­ur, vann í bygg­inga­vinnu og alls konar störf. En mark­miðið var að mennta mig.“

Var lát­inn finna að ég var vel­kom­inn

„Ég var lát­inn finna að ég væri vel­kom­inn. Þess vegna á ég marga vini á Íslandi. Það eina sem fólk átti erfitt með að sam­þykkja var að ég drekk ekki brenni­vín og borða ekki svína­kjöt. Það var gert grín að því. En það var reyndar ekki mikið um svína­kjöt á Íslandi á þessum tíma. Ég lét mér nægja lamba­kjöt, sem mér finnst alveg æðis­legt. Ég gift­ist og eign­að­ist fimm börn og fullt af barna­börn­um. Ég þakka Guði fyrir það.

„Loks fór ég í Háskóla Íslands og lærði tölv­un­ar­fræði og vann svo sem kenn­ari, í tölvu­deild Land­spít­al­ans og fleiri stöð­um. Ég stofn­aði svo Félag múslima á Íslandi árið 1997 og er þar for­stöðu­maður (Imam). Við vorum fimm til að byrja með en erum í dag stærsta félag múslima á Íslandi. Við vildum hitt­ast og biðja saman því það er skylda hjá okkur að hitt­ast á föstu­dög­um. Við keyptum hús­næði í Ármúl­anum árið 2000 og erum þar enn­þá.“

Útlend­ingar voru oft á tíðum þeir einu sem töl­uðu við sam­kyn­hneigt fólk af virð­ingu

„Ég sat oft á Kaffi Tröð sem ungur mað­ur. Þar tók ég eftir að sam­kyn­hneigt fólk varð fyrir aðkasti og fáir vildu tala við þá og drekka með þeim kaffi. Ég kynnt­ist mörgum þeirra, alveg indælis fólk. Margir þeirra urðu góðir vinir mínir eða kunn­ingj­ar. Á þessum tíma voru útlend­ingar oft á tíðum þeir einu sem vildu sitja með þeim og drekka kaffi, og tala við þá af virð­ing­u.“

Með gíf­ur­legri bar­áttu, og með mann­fórn­um, náðu þeir fram rétt­læti, en margir þeirra frömdu sjálfs­morð. Við viljum ekki svona! Við viljum að öllum líði vel í sam­fé­lag­inu. Fólk ræður þessu ekki. Rétt eins og að ég fékk ekk­ert að ráða því að ég skyldi fæð­ast í Palest­ínu. Ég var ekki spurð­ur.“

Guðs­hús fyrir alla Íslend­inga

„Svo sóttum við um lóð til að byggja mosku og fengum lóð­ina. Arki­tekt­inn er að vinna í teikn­ing­unum núna. Ég var einmitt að tala við arki­tekt­inn áður en þú kom­st, vegna papp­íra hjá Borg­inni til að fá bygg­ing­ar­leyfi.

Það er mis­skiln­ingur sem sumir segja að þetta sé hús fyrir múslima. Þetta er hús fyrir Íslend­inga! Guðs­hús fyrir alla Íslend­inga. Allir geta komið þang­að, þar sem þetta er guðs­hús, rétt eins og kirkj­ur. Ég get farið í kirkjur og eng­inn er að pæla í því, þetta er nákvæm­lega eins,‘‘ segir Sal­mann með áherslu.

„Við hlið­ina á lóð­inni sem við fengum er Hjálp­ræð­is­her­inn að byggja. Við eigum í ágætis sam­bandi við öll trú­fé­lög.“

Kona Sal­manns, Ingi­björg Tamimi Sig­ur­jóns­dótt­ir, kemur heim og sest hjá okkur inni í stofu.

Mikil vinna að hugsa um kon­una

Hvernig er venju­legur dagur í lífi þínu?

„Að hugsa um mig,‘‘ segir konan hans glett­in.

„Já það er mikil vinna að hugsa um kon­una mína,“ segir Sal­mann og hlær.

Ekki gott að finn­ast eng­inn vera að hugsa um þig

„En ég fer niður í mosku milli klukkan tíu og ell­efu, og er þar til klukkan fjögur að taka á móti fólki, meðal ann­ars fólki sem vill fræð­ast um íslam og tala við mig. Það eru ýmis vanda­mál sem fólk er að glíma við og þarf að geta talað um. Það er ekki gott að finn­ast eng­inn vera að hugsa um þig. Hug­myndin að baki mosku er einmitt sú að fólk komi saman í sam­fé­lagi. Þá finnur fólk ekki fyrir ein­angr­un.

Svo eru ýmis verk­efni, til dæmis þegar fólk eign­ast börn eða gift­ist og jarð­ar­far­ir. Þetta eru í raun sömu verk og hjá prest­u­m.“

Alltaf gott þegar fólk með ólíkan bak­grunn talar saman

„Hér er fólk frá Gamb­íu, Pakistan, Alsír, Afganistan, Bangla­dess, Íslend­ing­ar, Amer­ík­an­ar. Fólk frá Indónesíu, alls staðar að. Allir hitt­ast á föstu­dögum í föstu­dags­bæn. Það eru því margir ólíkir siðir sem fólk í Félagi múslima er með. En við sam­ein­umst í trúnni. Við biðjum eins, föstum eins, gefum ölm­usu og allt þetta sem við þurfum að gera. Úr verður menn­ing­ar-blöndun (e.­merg­ing of cult­ures).

„Svo hitt­umst við einnig einn laug­ar­dag í mán­uði og borðum saman rétti frá öllum heims­hornum en þá er mark­miðið aðeins eitt; að njóta lífs­ins og gleðj­ast sam­an. Þegar fólk af ólíku þjóð­erni og með ólíkan bak­grunn hitt­ist og talar saman þá kemur alltaf eitt­hvað gott út úr því.“

Fékk brúna lit­inn frítt

Tamimi.„Við sem mann­eskjur höfum nefni­lega öll sömu grunn þarf­irn­ar. Þeir hlutir sem greina okkur að, snerta ekki þessa grunn þörf okkar sem er að vera ánægð, góð og að elska hvert ann­að.

Það getur verið að ég klóri mér hægra megin og þú vinstra meg­in. Hvaða máli skiptir það? Eða ef ég nota vinstri eða hægri hend­ina? So what! Og ef þú ert alveg kol­svartur eða skjanna hvít­ur? Þú fékkst ekk­ert að ráða því, og ekki ég held­ur. Þú ert ekki betri en ég og ég er ekki betri en þú. Guð skap­aði okkur bæði og þú ert systir mín og ég er bróðir þinn.

Ég fékk ekki að ráða að ég er brúnn á lit­inn. Ég veit reyndar ekki betur en að margir Íslend­ingar fari til Spánar til að verða brúnir eins og ég, en ég fékk það bara frítt,“ segir Sal­mann og hlær.

„Svo, af hverju ætti fólk að vera að aðgreina fólk bara vegna þess hvernig það hugsar eða hvernig það lítur út? Tal­aðu við fólk og þá sérðu hvort það geti orð­ið  vinir þínir eða kunn­ingj­ar.“

Við erum öll félagar í sömu lífs­bar­átt­unni

„Allt mann­kynið hefur sömu draumana og sama mark­mið­ið; að búa í friði, hugsa um fjöl­skyld­una, að geta alið börnin sín upp, menntað sig og geta tekið þátt í sam­fé­lag­inu. Einnig að finna að maður er virtur eins og aðrir og að maður er að leggja eitt­hvað af mörkum fyrir land­ið. Það er alveg sama hvaða trú­ar­brögð fólk aðhyllist eða hvernig það er á lit­inn. Þetta eru grund­vall­ar­at­riðin hjá okkur öll­um. Hvítir og svartir eru að vinna að því sama.

Hvað þýðir „sam­fé­lag“? Það þýðir að við búum saman og erum í félagi sam­an. Við erum öll félagar og við erum í sömu lífs­bar­átt­unni. Það þýðir það að þú ert með alls konar mann­eskjur sem eru allar að stefna að þessu mark­miði, sem ég nefndi.

Það hvar ég bý eða hvernig ég klæð­ist kemur engum við. Sem betur fer höfum við lög í land­inu, sem sam­fé­lagið hefur sett og eng­inn er haf­inn yfir lög­in. Það má til dæmis ekki níð­ast á öðr­um.“

Fólk fer mis­mun­andi leiðir til að nálg­ast Guð

„Múslimar trúa að það sé bara einn Guð en það eru nátt­úru­lega mis­mun­andi reglur milli trú­fé­laga og fólk fer mis­mun­andi leiðir til að nálg­ast Guð. En boð­skap­ur­inn er sá sami: Að vera góður borg­ari og hugsa vel um jörð­ina okk­ar, þar sem við erum full­trúar Guðs á jörð­inni. Við verðum að standa okkur í því hlut­verki. Þegar við komum til Guðs eftir okkar stutta tíma hér á jörð­inni, hvort sem það eru 60, 70 eða 80 ár, verðum við að gera grein fyrir því hvernig við hög­uðum lífi okk­ar.“

Hat­urs­orð­ræða hefur auk­ist

„Ég er stoltur af íslenskri menn­ingu og þeim fram­förum sem hafa átt sér stað hér á landi á síð­ustu þrjá­tíu til fjöru­tíu árum. Ég kom til Íslands þegar landið var fátækt. Með dugn­aði og Guðs vilja höfum við náð miklum fram­för­um.

En því miður hefur ekki allt þró­ast til betri veg­ar. Á síð­ustu 10-15 árum er ein­hver hópur far­inn að ráð­ast að fólki. Þetta á ekki bara við um útlend­inga, einnig aðra hópa eins og til dæmis öryrkja og áfeng­is­sjúk­linga. Áður fyrr heyrði maður ekki um að það væri verið að ráð­ast að þessum hópum í svona miklum mæli eins og nú er. Alls konar hatur hefur splundrað sam­fé­lag­inu í marga hópa. Það finnst mér mið­ur.

Talað er á þeim nótum að „það kostar okkur svo mikið'' eða að þessir hópar sé ekki nógu góðir fyrir sam­fé­lag­ið. En ég segi, við erum í sam­fé­lagi! Við erum öll búin að byggja þetta sam­fé­lag sem við erum í. Við eigum að skila betra sam­fé­lagi til okkar afkom­enda, en ekki sundra fólk­inu. Það finnst mér hættu­leg­ast.“ 

Það skiptir máli hvað við lærum í skól­anum og heima

Hver held­urðu að sé ástæðan fyrir því að alls konar hópar hafa ein­angr­ast í sam­fé­lag­inu?

„Mér finnst að mennta­kerfið okkar hafi brugð­ist með því að það er látið við­gang­ast í skól­anum að krakkar segi til dæm­is, þegar þeir ríf­ast, „hann er hommi.'' Með því að leyfa þessu að við­gang­ast þá ert þú að kenna krökk­unum að það sé í lagi að tala svona. Það skiptir máli hvað við lærum í skól­an­um, þar sem við erum að byggja upp sam­fé­lag­ið.

Eins ef ég sem full­orð­inn ein­stak­lingur sit með krökk­unum mínum og segi til dæmis „hel­vítis Banda­ríkja­menn“, þá alast krakk­arnir upp við það að hata Banda­ríkja­menn. Við verðum því að passa okkur hvernig við töl­um. Ég vil ekki að börnin mín séu eins og villi­menn niðri í bæ að kíla Banda­ríkja­menn, Breta, Íslend­inga eða ein­hverja og líta ekki á þá sem mann­eskj­ur.“

Sumir mis­skilja hvað felst í mál­frelsi

„Það þarf að herða lögin gegn hat­urs­orð­ræðu. Það má ekki loka aug­unum fyrir þessu. Þitt frelsi endar þar sem mitt frelsi byrj­ar. Þú mátt ekki skerða mitt frelsi. Á meðan þetta er svona og fólk felur sig á bak við mál­frelsi þá er það að mis­skilja hvað felst í mál­frelsi.

Mál­frelsi felst í að tala fal­lega eða gagn­rýna almenni­lega, eftir að þú ert búin að stúd­era hlut­ina og getur gagn­rýnt með ein­hverju viti. Ég get ekki staðið hérna og sagt 1+1 eru 3. Bara svona af því mér datt það í hug. Á ég að kenna það í skól­an­um? Þá myndi skóla­stjór­inn koma og stoppa mig og segja „þetta er vit­leysa, þú mátt ekki kenna þetta“. Allir myndu bara segja „þeg­iðu, 1+1 eru tveir.“

Af hverju má ég þá segja öryrkjar eru of dýrir fyrir sam­fé­lag­ið, við borgum styrk­inn fyrir þá. Þegar málið er skoðað þá kemur í ljós að pen­ing­arnir sem þeir fá eru ekki neitt neitt. Þetta er spurn­ing um rétt­læt­i.“

Rétt­læti snýst um að allir geti nýtt sér tæki­færin

„Það þarf að vera rétt­læti í sam­fé­lag­inu. Ef að þú ert með tröppur og þú segir ég er búin að byggja tröppur fyrir alla, og jú, jú, allir mega nota tröpp­urnar jafnt. En fatl­aður maður getur ekki notað þessar tröpp­ur.

Við verðum að kenna alveg frá byrjun að þú verður að virða mann­eskj­una, eins og hún er. Guð skap­aði okkur ekki alla eins, með sömu hugs­an­ir, ann­ars værum við bara eins og dýr. En við þökkum Guði fyrir að hann gaf okkur heila til að hugsa og þróa áfram hluti. Ef við værum alveg eins og for­feður okkar þá myndum við ennþá búa í torf­bæj­um. En við erum ekki eins og for­eldrar okkar eða for­feð­ur. Hver kyn­slóð kemur fram með eitt­hvað nýtt, og við eigum að koma fram bara með það sem er fal­legt, ekki það sem sundrar fólki.“

Börnum af erlendum upp­runa líður oft á tíðum ekki vel í skól­anum

Þú talar um hlut­verk mennta­kerf­is­ins, nú hafa grunn­skól­arnir farið að fræða krakk­ana um til dæmis sam­kyn­hneigð. Þarf að fara að koma meiri fræðsla um fjöl­menn­ingu inn í skól­ana?

„Einmitt, fyrir alla. Ef að þú skoðar töl­urnar þá sérðu að flest útlensk börn flosna úr skóla eftir tíunda bekk. Maður þarf að spyrja sig hvers vegna?

Það getur verið tungu­málið en það er ekki bara það. Það er líka ljóst að þeim líður ekki vel. Ef manni líður vel í skól­anum þá heldur maður áfram.

Við sjáum til dæmis að við erum með mál­leys­ingja en við virðum þá og reynum að hjálpa þeim. Af hverju ætti hvítur mál­leys­ingi að fá meiri hjálp en útlend­ingur sem talar ekki mál­ið? Ef þú sérð ein­hvern brenna þá áttu að slökkva eld­inn, þú ferð ekk­ert að spyrja „heyrðu, ertu svartur eða hvítur eða múslimi eða gyð­ing­ur?““

Börn for­eldra sem tala ekki íslensku þurfa meiri aðstoð í skól­anum

„Ef for­eldrar mínar kunna ekki eitt orð í íslensku þá myndi ég sem krakki ekki læra tungu­málið eins vel og krakkar sem eiga íslenska for­eldra, og þá auð­vitað verð ég eftir á. En þá er eng­inn sem segir til dæmis „við getum sleppt þessu, ein­beitum okkur að hinu, við finnum ein­hverjar leiðir til að hjálp­a.‘‘

Við viljum ekki að þetta fylgi krökk­unum inn í fram­tíð­ina þannig að þeir sem eru fátækir verði alltaf fátæk­ir. Það gerð­ist í Evr­ópu. Það var ekki hugsað um alla útlend­ing­ana sem komu þangað og þess vegna eiga þeir enga fram­tíð. Þeir telja sig ekki hafa neina fram­tíð og þá er hættan sú að þeir leið­ist út í glæpi.“

Ekki bara vegna tungu­máls­ins

„En þetta er ekki bara vegna tungu­máls­ins. Það er líka vegna þess að þeir líta öðru­vísi út, það hefur mikið að segja. Þú sérð að við eigum frá­bæra íþrótta­menn sem eru svart­ir. Það er alltaf verið að níð­ast á þeim, líka þeim sem eru fæddir og upp­aldir Íslend­ing­ar, ætt­leiddir Íslend­ing­ar. Þeir lenda í sama vanda­máli, það er að segja, þeir fá ekk­ert að vera hluti af sam­fé­lag­inu. Fólk þarf að finna að það sé hluti af sam­fé­lag­in­u.“

Hálf­vitar sprengja sig í loft upp

„Þegar ein­hver seg­ir: það eru að koma múslimar til Íslands, þeir eru búnir að vera í stríði og sprengja allt í loft upp í Sýr­landi og Líbanon, auð­vitað verður fólk hrætt, af því það hefur ekk­ert lært um íslamska menn­ingu í skól­an­um. Það er vont fólk alls stað­ar, líka innan okkar raða. Fólk sem við þurfum að hjálpa eða sem þarf að loka inni með lás og slá.“

Alhæf­ingar um hópa fólks byggja á þekk­ing­ar­leysi

„Ef ein­hver hálf­viti sprengir sig í loft upp í Par­ís. Auð­vitað finnst mér það sorg­legt og fárán­legt og allt það, en það lýsir ekki öllum múslim­um. Af hverju segir fólk að allir múslimar sprengi sig í loft upp eða að allir Amer­ík­anar séu vondir eða allir Gyð­ing­ar? Einu sinni voru öll vanda­mál sögð vera Gyð­ingum að kenna og þá voru þeir drepn­ir. Þess vegna er það hlut­verk mennta­kerf­is­ins að mennta fólk.“

Ætlar fimmti hver maður að drepa mig, selja dóttur mína eða að ræna mig?

„Í vor voru fjórir Íslend­ingar hand­teknir fyrir að smygla til lands­ins tíu kílóum af kóka­íni. Eru þá allir Íslend­ingar að smygla? Þegar fólk fer að alhæfa þá ætti það að hugsa út í að múslimar eru fimmt­ungur mann­kyns­ins. Er fimmt­ungur mann­kyns glæpa­lýð­ur? Þá myndi ég ekki getað gengið eitt eða neitt úti við, ef fimmti hver maður ætlar að drepa mig eða selja dóttur mína eða ræna mig.“

Íslend­ingar eru ekki bara þeir sem eru hvítir með blá augu og ljóst hár

„Stundum spyrja krakkar mig „hvenær komstu til Íslands“ Ég svara oft „áður en pabbi þinn fædd­ist,“ segir Sal­mann og hlær dátt. 

Svo verður Sal­mann alvar­legri í bragði og seg­ir: „En ég á rætur í Palest­ínu. Þetta er erf­ið­ara fyrir barn sem fæð­ist og elst upp á Íslandi eða er ætt­leitt til Íslands og telur sig vera Íslend­ing því það þekkir ekk­ert ann­að, ef allir í sam­fé­lag­inu segja „nei, þú ert ekki Íslend­ing­ur, hvenær komstu til lands­ins?“, í stað­inn fyrir að segja „Sæll og bless­að­ur, hvað segir þú?“, en hann er fæddur og upp­al­inn hérna! Það þarf að breyta þessum hugs­un­ar­hætti. Íslend­ingar eru ekki bara þeir sem eru hvítir með blá augu og ljóst hár.“

Ekki bara inn­flytj­endur sem finna sig utan sam­fé­lags­ins

„Og Það eru raunar fleiri en inn­flytj­endur sem eiga við þetta vanda­mál að stríða. Það eru margir í sam­fé­lagi okkar sem eiga hér rætur langt aftur í ætt­ir, sem finna sig vera utan sam­fé­lags­ins. Sam­an­ber fólk með fatl­an­ir, fólk sem á við veik­indi að stríða, öryrkjar og aldr­að­ir. Við viljum yfir­leitt gleyma þessum hóp­um.

Við skiptum sam­fé­lag­inu meira að segja í enn þá minni parta, því mið­ur. Til dæmis er fólk sem býr í efra Breið­holti stundum talið vera ómerki­legra en þeir sem búa til dæmis á Sel­tjarn­ar­nesi, þó þetta sé sama fólk­ið. Til dæmis ef ég bý í efra Breið­holti og bróðir minn á Sel­tjarn­ar­nesi, þá er bróðir minn álit­inn hærra sett­ur.“

Við berum ábyrgð gagn­vart nágrönnum okkar

„Í okkar fjöl­skyldu og menn­ingu frá Palest­ínu og í okkar trú, þá er það þannig að okkur ber skylda til að hugsa um nágranna okk­ar. Ekki bara þá sem eru við hlið­ina á okkur heldur áttu að fara lengra, vegna þess að við þurfum öll á hverju öðru að halda. Til dæmis ef ég sé að bíll­inn hjá nágranna mínum hefur ekki verið hreyfður í fjóra eða fimm daga, þá fer ég að hafa áhyggj­ur. Það getur verið að hann hafi dottið og fót­brotn­að. Þá banka ég hjá honum og spyr „hvernig hef­urðu það, er eitt­hvað að“.“

Það gleður hjarta fólks þegar öðru fólki er ekki sama

„Einn nágranni minn er full­orðin kona, búin að missa mann­inn sinn. Og hún er alltaf svo þakk­lát þegar við bönkum og spyrjum hvernig hún hafi það, hvort hana vanti eitt­hvað úti í búð og svona. Ég meina, við erum öll mann­eskj­ur, við þurfum að tala hvert við ann­að. Það gleður hjarta fólks þegar öðru fólki er ekki sama og passar upp á mann. Við töpum engu á því. Maður á ekk­ert að vera feim­inn að sýna þessa góðu hlið á mann­eskj­unni.

Allt hverfið þekkir mig því ég tala við alla. Konan mín er stundum alveg að gef­ast upp á því,“  segir Sal­mann og hlær. „Sjálfur er ég háður öðru fólki. Ég þurfti til dæmis á mömmu minni að halda frá því hún fæddi mig alveg þangað til hún dó. Fyrst var ég háður henni alveg 100% þegar ég var á brjósti. En svo þurfti ég á henni að halda til­finn­inga­lega bara alla tíð.“

Fékk sama krabba­mein og Stefán Karl

Sal­mann hefur sann­ar­lega mörgu að miðla og það er enga þreytu á honum að sjá. Það kemur mérTamimi. því veru­lega á óvart þegar hann seg­ir:

„Tungan er það eina sem virkar núorð­ið, þar sem ég er búin að vera að glíma við alls konar veik­indi, eins og konan mín veit, hún er alltaf að senda mig á spít­ala, alveg að deyja, svo sprett ég upp, ekk­ert að mér­,‘‘ segir hann og hlær.

„Fyrir stuttu þá var það krabba­mein. Ég fékk sama krabba­mein og Stefán Karl leik­ari. Ég fór í níu tíma aðgerð. Lækn­ir­inn, grey­ið, var að reyna að auð­velda mér þetta með því að tala við mig, því það voru ekki taldar miklar líkur á að ég myndi vakna úr aðgerð­inni. Ég sagði við lækn­ir­inn áður en hún skar mig „ég veit að þú leggur þig hund­rað pró­sent fram um að gera þitt besta, og þetta er allt í hendi Guðs.“ Ég er mjög sátt­ur, ef hann ætlar að taka mig. Ég er „reddí“. 

Öll fjöl­skyldan kom grenj­andi til að kveðja mig, en svo spratt ég bara aftur upp. Það er ljóst að Guð vill ekki fá mig strax.“

Þegar maður lendir í veik­indum finnur maður hvað maður er lít­ils­megn­ugur

„Við stjórnum þessu ekki. Þegar maður lendir í svona þá finnur maður hvað maður er lít­ils­megn­ug­ur. Hvernig þyk­ist ég þá ætla að stjórna öðrum þegar ég hef enga stjórn á því hvort ég anda eða ekki?

Núna er ég laus við krabba­mein­ið, það var tekið strax. Engir geislar og ekki neitt.“

„Mér tekst ekki að drepa hann,“ segir konan hans sposk. Sal­mann hlær.

„Í næstu til­raun þá var ég með of hrað­ann hjart­slátt, þannig að ég fékk nýjan bjarg­ráð. En ég get ennþá tal­að. Reyndar hatar konan mín það. Hún vill að ég missi tung­una.“ Við hlægjum öll.

Það eina sem við eigum að skilja eftir okkur er gott orð

Hvað finnst þér skipta mestu máli í líf­inu?

„Að gera gott verk og gleðja þannig Guð. En það er ekki eins ein­falt og það hljóm­ar. Því að það að gera gott verk er mjög stórt orð. Það felur í sér að ég á að hugsa um mína nánustu, kon­una mína og börnin mín. Reyna að ala börnin upp sem gott fólk eftir bestu getu og forð­ast að gera það sem er illt. Og gera það vegna þess að Guði þókn­ast það. Og ef ég geri eitt­hvað illt þá á ég að biðj­ast fyr­ir­gefn­ing­ar. Fólk gerir mis­tök, en Guð er mis­kunn­ar­samur og fyr­ir­gefur mér ef ég iðr­ast af öllu hjarta og reyni að betrumbæta mig.

Eins og stendur í Kór­an­inum „Jesús er orð Guðs“, og hvað þýðir það? Það þýðir að hann lifði lífi sínu algjör­lega eins og Guð vildi. Þessir miklu spá­menn, þessir bestu menn. Það sem þeir voru að segja var bara þetta „trúið á Guð, verið góð við hvert ann­að, byggið upp sam­fé­lag sem Guð verður ánægður með. Ekki níð­ast á nágranna þínum eða ann­ari þjóð eða drepa og ræna og arð­ræna. Við tökum ver­ald­lega hluti ekki með okkur í gröf­ina. Við getum jafn­vel skapað vanda­mál ef við skiljum eitt­hvað eftir okkur fyrir erf­ingj­ana, við höfum mörg dæmi um það. Það eina sem við eigum að skilja eftir okkur er gott orð. Að við vorum gott fólk.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiViðtal