Einar Óli er laga og textasmiður frá Húsavík sem er að vinna að sinni fyrstu plötu. Hann stundar nám við Tónlistarskólann á Akureyri og þar er hann á braut sem kallast skapandi tónlist. Einar hefur verið að skapa tónlist síðastliðin fjögur ár og er kominn með góðan slatta af lögum í bunkann. Með honum í liði eru þeir Kristján Edelstein sem sér um allskonar undirleik, upptökur og hljóðblöndun, Haukur Pálmason sér um hljóðjöfnun, Guðjón Jónsson píanisti og Bergur Einar Dagbjartsson trommuleikari svo einhverjir séu nefndir. Söfnun fyrir útgáfukostnaði er hafin inni á Karolinafund.is og þar er hægt að leggja Einari lið. Kjarninn tók Einar að tali.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Hún vaknaði bara eiginlega strax þegar ég byrjaði að kenna sjálfum mér á gítar. Mér hefur alltaf fundist jafn gaman að skapa eitthvað nýtt og nota ímyndunaraflið, og um leið og ég byrjaði að semja, þá var þetta strax eitthvað sem ég vildi gera af fullum krafti en hafði kannski ekki kjarkinn í það þá. En ég held að ég sé að gera þetta á hárréttum tíma. Ég þurfti þennan tíma til að verða betri og læra á röddina mína, en þessi hugmynd hefur kallað á mig í þónokkur ár.
Segðu okkur frá þema verkefnisins
Þema plötunnar í stuttu máli er eitt stórt völundarhús.
En á góðri íslensku, þá heitir platan „Hugur eins og völundarhús“.
Það glíma allir við einhverjar þrautir og erfiðleika á lífsleiðinni og stundum er eins og að þrautin sé ómöguleg að leysa. Völundarhúsið er í rauninni myndlíking sem ég nota í þessu samhengi og það sem ég er að reyna að segja, er að lífið er endalaust af þrautum og völundarhúsum. En eins og frændi minn Bob Marley sagði einu sinni er það eins sem skiptir máli: „Don't worry about a thing, cause every little thing is gonna be alright.“
Hvenær kemur platan út?
Það er ekki komin staðfest dagsetning, en ef allt gengur eins og áætlað er þá kemur hún út í september. Við ætlum þó að gefa út eitt lag af plötunni aðeins fyrr, bara svona til að gefa smá smakk af þessu. Ég er orðinn gríðarlega spenntur að sleppa takinu og gefa þetta út.
Hér er hægt að skoða og taka þátt í verkefninu.