Í ritlistarbúðunum Iceland Writers Retreat nýtur fólk, sem vill bæta sig í hvers kyns skrifum, leiðsagnar víðfrægra rithöfunda í þeim efnum og sækir jafnframt menningartengdar ferðir þar sem fjallað er um bókmenntir Íslendinga og menningararf. Sérstakur þátttökustyrkur er ætlaður þeim sem vilja sækja IWR-búðirnar en eiga erfitt eða ómögulegt að standa straum af kostnaði við það.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Allt frá byrjun hefur fólk hvaðanæva að úr heiminum sótt IWR-búðirnar. Okkur langaði aftur á móti til þess að gera snjöllum rithöfundum og öðrum, sem vildu gjarnan sækja þær en hafa ekki efni á því, kleift að láta þann draum rætast. Verkefnið kallast „Alumni Award“ á ensku því að fyrrverandi þátttakendur fjármagna það að mestu, auk annarra velunnara IWR. Mér finnst það einmitt gefa vel til kynna að þeir, sem hafa sótt viðburðinn, kunna að meta hann og vilja leyfa fleirum að njóta sömu reynslu.
Segðu okkur frá þema verkefnisins
Við erum núna að afla fjár fyrir þessa styrki í fimmta sinn. Frá árinu 2016 höfum við getað veitt tíu fulla þátttökustyrki og sex sem vega á móti hluta kostnaðar (ekki flugferðir og gistingu). Þeir, sem hafa notið þessara styrkja, eru frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Indlandi, Kenía, Nígeríu, Suður-Afríku og Súdan. Frásagnir þeirra af dvölinni í IWR-búðunum má lesa hér.
Styrkþegar verða að sýna og sanna að þeim sé ókleift að greiða þátttökugjöld og annað kostnað úr eigin vasa. Þess er ekki krafist að umsækjendur sinni ritstörfum að atvinnu en til þess er að ætlast að þeir unni skrifum og vilji eflast á þeim vettvangi.
Tvennt ræður mestu um það hverjir fá styrk. Annars vegar er litið til þess hvað í styrkþeganum býr og hvaða kosti má þegar sjá á sviði skrifa og ritlistar. Hins vegar er horft til fjárhagsstöðu.
Eitthvað sérstakt sem þú vilt að komi fram um þitt verkefni?
Okkur finnst mjög ánægjulegt að geta veitt þeim styrki sem þurfa greinilega á þeim að halda. Öllum er heimilt að sækja um og margir eru um hituna; eitt árið bárust okkur 750 umsóknir. Styrkþegarnir þjálfast í skrifum og njóta góðs af kynnum við leiðbeinendur og aðra þátttakendur. Þeir fræðast auk þess um sögu Íslands og samfélag, sagnaarf og menningu, og segja gjarnan frá dvöl sinni hér (sjá t.d. þessa lofgjörð um íslenskar bókmenntir í Hindu Business Online). Fátt þykir mér skemmtilegra við IWR en þetta, að geta stutt þá til þátttöku sem eiga það svo sannarlega skilið.