Feigðarflótti er fantasíusaga byggð á víkingatímanum, og segir frá uppkomnum systkinum sem þurfa í sameiningu að flýja undan bæði mennskum óvinum og yfirnáttúrulegum öflum. Hasar, spenna og harka.
Elí Freysson er 36 ára gamall Akureyringur, sem hefur kosið sér það í lífinu að vera rithöfundur. Á árunum 2011 til 2015 gaf hann út fimm fantasíur/furðusögur hér á landi: Meistari Hinna Blindu, Ógnarmáni, Kallið, Kistan og Eldmáni. Eftir þetta fór hann yfir í að skrifa á ensku, en vill nú reyna að gefa út nýtt verk í heimalandinu.
Elí er á einhverfurófinu og hefur síðustu ár flutt fyrirlestra um röskunina, og gefið út rit ætlað foreldrum og kennurum.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Núna í vor opnaði Akureyrarbær fyrir umsóknir um listamannastyrk. Mér datt í hug að skrifa stutt verk sem ég gæti gefið skólunum í bænum til að ýta undir lestur ungmenna. Vildi ég þá hafa það þjóðlegt, en líka spennandi til að vekja áhuga og halda athygli. Þannig setti ég saman hugmynd að furðusögu um víkinga: Heim sem svipar mjög til þess sem við könnumst við úr íslendingasögunum, nema hvað tröll, galdrar, draugar, huldufólk og allt þetta er raunverulegt. Styrkurinn gat samt bara farið til eins aðila, og varð ég ekki fyrir valinu. Eins og vill gerast sat hugmyndin þó eftir og tældi mig, og ég fór að leita annarra leiða til að gera hana að veruleika.
Segðu okkur frá þema verkefnisins
Sagan gerist í landi er minnir mjög á Noreg á víkingaöld. Söguhetjurnar eru systkini: Kappinn Bárður og seiðkonan Magnhildur. Þau eiga rétt að landssvæði sem setur hefur í eyði um nokkurt skeið, en þegar þau eru á faraldsfæti verða þau fyrir árás óvina ættarinnar, sem vilja losna við þau og eigna sér landið. Nú þurfa þau að flýja nokkurra daga leið yfir óbyggðir, haf, fjöll og skóga til að komast í öruggt skjól, ávallt með vígamenn á hælunum.
Og meira en vígamenn reyndar, því göldrum er beitt gegn þeim og ógurleg forynja eltir þau einnig látlaust. Munu þau þurfa að beita öllu sínu þreki, klókindum, vopnfimi og dulúðlegri þekkingu til að hafa betur af. Sagan verður skrifuð í mínum dæmigerða stíl, með hröðum takti og miklum hasar. Ég er einnig búinn að taka af bókasafninu heilann bunka af efni um víkinga til að fá innblástur.
Ef af þessu verður ætla ég enn að sjá til þess að eintök af Feigðarflótta komist í skólana hérna á Akureyri.