Atlas, fyrsta breiðskífa tónlistarmannsins Marteins Sindra kom út á stafrænum miðlum þann 16. maí síðastliðinn. Hann undirbýr nú útgáfu á samnefndri vínylplötu sem væntanleg er 18. september næstkomandi samhliða útgáfutónleikum í Iðnó. Marteinn nýtur aðstoðar Karolina Fund við að fjármagna framleiðsluna en hægt er að heita á verkefnið með því að kaupa plötuna, tónleikamiða, myndverk eða tónleikahald.
Marteinn er píanóleikari að upplagi en lagði sig eftir því að læra á gítar þegar hann fór að syngja eigin tónlist. Við gerð plötunnar rataði þó mikið af tónlistinni, sem liggur einhversstaðar á mörkum þjóðlaga-, framúrstefnu- og popptónlistar, aftur á píanóið.
Hver var hugmyndin að verkefninu?
Hugmyndin að plötunni kviknaði þegar ég lagði stund á nám í heimspeki út í Berlín fyrir nokkrum árum. Ég hafði lengi lært tónlist og dundað við hin og þessi tónlistarverkefni, meðal annars samið umtalsvert af lögum en aldrei sungið neitt sjálfur nema í kór. Það gerðist eitthvað út í Berlín, ég fór að finna hvernig ég gæti og vildi notað röddina og í framhaldi fór fjöldinn allur af nýjum lögum að fæðast.
Ég fékk góðan vin minn, Daníel Friðrik Böðvarsson í lið með mér og við unnum nokkuð stöðugt að plötunni í um fjögur ár ásamt góðum hópi af fólki. Upptökur á plötunni fóru fram síðla árs 2017 og snemma árs 2018 og voru hljóðritanir í höndum Alberts Finnbogasonar sem tók virkan þátt í að móta hljóðheim plötunnar ásamt okkur Daníel sem stjórnaði upptökum auk allra þeirra sem lögðu eigin hljóðfæri eða rödd á vogarskálarnar. Svo þegar platan var tilbúin vorið 2018 fæddist mér sonur svo að ég ákvað að fresta útgáfu plötunnar um eitt ár. Nú er hún komin út stafrænt, flæddi út á helstu streymisveitur 16. maí. Aftur á móti er í mínum huga engin plata komin út að fullu fyrr en með einum eða öðrum efnislegum hætti.
Ég gef plötuna út sjálfur og hef brugðið á það ráð að fjármagna framleiðslu vínylplötunnar með aðstoð vina og velunnarra sem hafa áhuga á að eignast hlutdeild í verkefninu og tónlistina á vínylplötu eða einhverjar þeirra sjónsmíða sem Ólafur Þór og Katrín Helena systir mín hafa unnið að og vísa með sterkum hætti í hugarheim plötunnar.
Hvert er þema plötunnar?
Í mörgum tungumálum merkir Atlas safn af landakortum og það má segja að þema plötunnar eða hugarheimur hennar sé að einhverju leyti tengd því að gera sér mynd af heiminum, að kortleggja það sem maður þekkir og það sem maður þekkir ekki, að vera á nýjum slóðum, týnast og finnast, leita og finna. Í textunum á plötunni yrki ég gjarnan um undarlega staði – ímyndaða eða raunverulega – og þá sérstæðu reynslu að vaxa úr grasi og þurfa að standa á eigin fótum, að vera að leita sér að stað í heiminum.
Í einhverjum skilningi er svona hljómplata mynd eða kort af heiminum, unnin í samstarfi við fjölda fólks með ólíkar raddir og ólíka skynjun svo útkoman verður eitthvað allt annað en einhver einn smíðar í einrúmi. Einveran er mjög mikilvæg, en ég hafði einhvern veginn fengið nóg af því að stunda tónlist einn eftir að hafa lært lengi á píanó sem er oft mjög einmanaleg iðja. Og ég held að hugmyndin um Atlas komi líka þaðan, úr grísku goðsögunni um títaninn Atlas sem var dæmdur til að bera heiminn á herðunum og er svo skelfilega einn, því þó hann haldi á heiminum þá er hann um leið utan við hann. Það er ekkert voðalega öfundsvert hlutskipti og ég hugsa um plötuna sem algjöra andstæðu þess, þvert á móti er henni haldið á lofti af fjölda fólks og því fyrst og fremst umgjörð utan um einhverskonar samveru og samsköpun.
Ég hugsa lögin mín svolítið eins og landakort, þau eru ekki heimar út af fyrir sig heldur frekar möguleikar sem verða að veruleika í hvert skipti sem þau eru flutt."
Þess ber helst að geta að útgáfutónleikar plötunnar verða haldnir 18. september í samstarfi við Iðnó. Hægt er að kaupa miða á karolinafund þar til söfnuninni lýkur.