Upphafið - Árstíðaljóð er fimmta ljóðabók listamannsins Gunnhildar Þórðardóttur en hún kemur út um miðjan september ef söfnun á Karolina Fund gengur vel. Gunnhildur lauk BA prófi í myndlist og listasögu við Listaháskólann í Cambridge í Englandi árið 2003 og MA prófi í liststjórnun frá sama háskóla árið 2006. Hún er nú í viðbótardiplóma í listakennslu við Listaháskóla Íslands og mun klára í árslok 2019.
Hún hefur verið virkur myndlistarmaður síðan hún útskrifaðist árið 2003 og unnið bæði sjálfstætt og fyrir söfn, stofnanir og félagasamtök sem trúnaðarmaður og stjórnarmaður. Hún hefur unnið í Hafnarborg, hjá Listasafni Reykjanesbæjar og hjá Sambandi Íslenskrar myndlistarmanna (SÍM) bæði sem verkefnastjóri gestavinnustofu og Dags myndlistar en einnig setið í stjórn SÍM. Gunnhildur hefur haldið margar einkasýningar bæði á Íslandi og erlendis.
Á tímabili rak Gunnhildur sinn eigin sýningarstað Gallerí Bíll sem tók þátt í ýmsum menningarverkefnum s.s. menningarhátíðum í Hafnarfirði, Reykjavík, Keflavík og Degi Myndlistar. Hún starfar sem tungumála-, list - og verkgreinakennari í Myllubakkaskóla í Keflavík og hún á fjóra stráka með enskum manni sínum en saman reka þau listaverkefnið RePlace sem býr til listrænar vörur með sjálfbærum hætti.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég fékk hugmyndina um söfnun í vor þegar ég kláraði ljóðabókina sem sjálfstætt verkefni við Listaháskóla Íslands og hélt kynningu á henni í Gunnarshúsi í maí. Ég vildi prufa Karolina Fund þar sem ég hef einungis heyrt góða hluti um það verkefni. Ég hef alltaf gefið út mínar eigin ljóðabækur og staðið undir öllum kostnaði sjálf og oftast gefið út bækur í tengslum við sýningar. Fyrir mér er mjög eðlislægt að nota texta með verkum og sé ég ljóðin mín oft sem myndverk, þ.e. um leið ég er búin að semja ljóð þá teikna ég mynd eða skissa verk með eða öfugt því stundum er ég búin að gera skissu og þá kemur sjálfkrafa ljóð. Ég hef verið að skrifa frá blautu barnsbeini ljóð, sögur og dagbækur.“
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Þema ljóðanna minna er oftast það sama þetta eru heimspekilegar vangaveltur um lífið, ástina og náttúruna. Þetta eru rómantískar lýsingar á landslagi, manneskjunni, menningu og hlutum. Ljóðin í Upphafið - Árstíðaljóð eru hugleiðingar allt árið um kring um viðburði, persónur og náttúru. Þegar ég gaf út Blóðsteina fyrstu bókina mína var það svona safn ungljóða svo kom pönkljóðabókin mín, DIY ljóð sem var eins konar svar við hruninu, Næturljóð var mjög rómantísk líkt og Götuljóð. Upphafið - Árstíðaljóð fjallar um einhvers konar byrjun eða uppgjör eins og titillinn gefur til kynna en líf mitt er mjög árstíðabundið bæði sem kennari og sem móðir. Ég þarf að skipuleggja allt í kringum í börn sama hvort það er í skólanum eða heima og ég eyði nánast öllum sumrum á fótboltamótum. En það má segja að rauði þráðurinn í ljóðum mínum og myndlist minni er virðing og ábyrgð fyrir náttúrunni sem við erum hluti af og þessi hreina sköpun sem er eðli mannsins.
Ég mun halda útgáfukynningu 5. september næstkomandi kl. 16 í Bókasafni Reykjanesbæjar á menningarhátíðinni Ljósanótt en útgáfuhóf verður haldið í Hannesarholti í Reykjavík 19. september kl. 19.“
Hér er hægt að skoða og taka þátt í verkefninu.