Sætabrauðsdrengirnir hafa haldið jólatónleika um árabil við góðar undirtektir. Tónleikarnir hafa verið ýmist í Salnum eða Hörpu, en einnig á nokkrum stöðum úti á landi. Margir tónleikagestir hafa óskað eftir því að geta keypt geisladisk með þessu efni og í ár var því ákveðið að láta til skarar skríða með upptökum og útgáfu.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Við höfum fengið mikla hvatningu til að gefa út efni af jólatónleikunum og hugmyndin hefur því blundað með okkur í nokkur ár, en nú var ekki lengur til setunnar boðið að hrinda útgáfu í framkvæmd. Við vonumst til að Karolinafund geri okkur það kleift, þar sem fólk getur fyrirfram keypt sér geisladisk og/eða miða á jólatónleikana í desember, en einnig er hægt að panta litla tónleika fyrir smærri hópa eða fyrirtæki.
Segið okkur frá lagavalinu
Flest eru þetta alþekkt jólalög, en í nýjum og bráðskemmtilegum útsetningum píanóleikarans, Halldórs Smárasonar. En þó að útsetningarnar séu nýjar, eru þær innan hefðbundins ramma og fyrst og fremst glaðlegar og sérlega áheyrilegar. Þarna eru t.d. gömul íslensk jólalög, eins og Gilsbakkaþula, Hátíð fer að höndum ein og Það á að gefa börnum brauð. Ó helga nótt er á sínum stað og fleiri erlend lög, eins og Bráðum koma jólin, Yfir fannhvíta jörð og Nú minnir svo ótal margt á jólin.
Að auki eru þarna hátíðlegri lög eins og Það aldin út er sprungið og Guðs kristni í heimi. Halldór á einnig nýtt lag á plötunni.Þar sem við erum æringjar, urðum við að hafa svolítið grín með og Halldór setti saman litla syrpu af lögum, sem nefnist Yfirdráttarsyrpan með vísun í visa-reikninginn í febrúar. Þar eru glaðleg jólalög færð í moll og hljóma því alltregafull!Það má því segja að farið sé yfir víðan völl í lagavali. Undanfarið höfum við verið í hljóðveri hjá Hafþóri Karlssyni „tempó“ og erum mjög spenntir yfir útkomunni!